Útvarpslög
Þriðjudaginn 05. febrúar 1991


     Flm. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á útvarpslögum, nr. 68/1985, en þetta frumvarp er á þskj. 514. Ég er eini flm. frumvarpsins.
    Það hefur nú um nokkurt skeið verið töluverð umræða um breytingu á útvarpslögum. Það hefur verið í gangi nefnd til þess að endurskoða útvarpslögin sem sett voru 1985. Á síðasta þingi var hér töluverð umræða um frumvarp sem var lagt fram en varð ekki útrætt og enn þá hefur verið mikil umræða í þjóðfélaginu um að leggja fram önnur lög er breyti núverandi útvarpslögum, enda komið í ljós að verulegir annmarkar eru á útvarpslögunum og menn vilja breyta þeim til meira frjálsræðis heldur en er í dag.
    Það frumvarp sem ég mæli hér fyrir er að efni til einungis tvær greinar. Þar er verið að taka á einu brýnu vandamáli sem upp hefur komið og hefur stuðlað að því að hefta þá þróun sem verið hefur í útvarpsmálum og fjarskiptamálum og komið má segja í veg fyrir það að við Íslendingar séum á sömu bylgjulengd og aðrir í þessum málum, en eins og flestir vita þá varðar það mjög miklu að fá beinar upplýsingar út um allan heim hingað í stofu landsmanna um þær fréttir sem eru að gerast í umheiminum.
    Til þess að skýra þetta enn frekar þá vil ég lesa greinargerð frumvarpsins og skýra síðan út þær greinar sem hér er um að ræða og hvað í þeim felst, en í greinargerðinni segir m.a.:
    ,,Ný útvarpslög voru sett vorið 1985 og er því nokkur reynsla fengin af frjálsum útvarpsrekstri. Án þess að það sé tíundað hér frekar hefur orðið bylting í íslensku menningarlífi með tilkomu hinna frjálsu hljóðvarps- og sjónvarpsstöðva.
    Þótt undarlegt megi teljast hafa nýju útvarpslögin orðið til þess að tefja tækniþróun á sviði fjarskiptatækni sem byggist á lagningu strengkerfa til þess að miðla boðum og upplýsingum til notenda. Þessi þróun hefur verið mjög ör í nálægum löndum.
    Upplýsinga- og tölvuöld hefur hafið innreið sína á Vesturlöndum. Samfara henni eru auknar kröfur um meiri og betri fjarskipti. Þá hefur tölvutæknin orðið þess valdandi að grundvallarbreytingar eru að verða á símakerfum. Er þróunin í átt frá hliðrænum (analog) kerfum, sem byggjast á spennuferlum, til stafrænna (digital) kerfa sem byggjast á tölulegum boðum.
    Samásastrengkerfi (coaxial) hafa verið í notkun lengi. Hefur fyrst og fremst verið um að ræða sameiginlegt loftnetskerfi til dreifingar á útvarpsefni til notenda í fjölbýlishúsum eða í íbúðahverfum. Þótt þessi kerfi séu mörg fremur ófullkomin hefur nýtt og betra lagnaefni til slíkra kerfa gert það kleift að víkka notkunarsvið þeirra.
    Breiðbandskerfi er strengkerfi sem hefur þann eiginleika að geta flutt mikið magn upplýsinga samtímis á breiðu tíðnisviði fram og til baka. Breiðbandskerfin opna leiðir til nýrra fjarskipta þar sem hægt er að senda tölvuboð og alls kyns stafrænar upplýsingar fram og til baka ásamt símtölum og hljóðvarps- og sjónvarpsmerkjum frá einum stað til annars. Eiga þau

eftir að valda byltingu í öllum mannlegum samskiptum á okkar tíð.
    Ljósleiðarar hafa gert það kleift að senda mikið af upplýsingum eftir einum streng. Þar er átt við síma, hljóðvarps- og sjónvarpsmerki og tölvuboð. Á næstu árum er talið líklegt að þróunin verði í átt að samruna síma- og strengkerfa til flutnings á sjónvarps- og tölvuboðum ásamt símtölum. Póst- og símamálastofnun vinnur nú að því að tengja allar símstöðvar landsins með ljósleiðarastrengjum.
    Ef horft er til nágrannalandanna er lagning slíkra strengkerfa hafin af miklum krafti. Þar er litið svo á að dreifing á erlendum og innlendum sjónvarpsrásum sé undanfari upplýsinga- eða boðveitukerfa. Aðgangur að auknu og fjölbreyttara sjónvarpsefni er það sem ryður brautina fyrir upplýsingatæknina.
    Danska þjóðþingið samþykkti árið 1985 lög um breiðbandskerfi (hybrid net). Fyrsta verkefnið, sem leysa á með danska breiðbandskerfinu, er einmitt að taka á móti erlendum sjónvarpsdagskrám og dreifa þeim um landið til notenda. Í lögunum er kveðið á um verkaskiptingu milli dönsku póst- og símamálastofnunarinnar, einstakra sjálfstæðra símafélaga og loftnetsfélaga sem hingað til hafa annast móttöku og dreifingu á erlendu sjónvarpsefni til notenda.
    Það er athyglisvert að dönsku loftnetsfélögin hafa starfað um árabil við að taka á móti þýsku sjónvarpssendingunum og dreifa þeim til notenda. Í heilum bæjum í Danmörku eru nær allar íbúðir, jafnvel tugþúsundir, tengdar við slík loftnetskerfi sem í raun eru ekki annað en ófullkomin strengkerfi. Þótt gert sé ráð fyrir að þessi strengkerfi renni saman við breiðbandsnetið hafa loftnetsfélögin þegar fengið heimild til þess að dreifa erlendum sjónvarpssendingum frá gervitunglum, enda hefur aldrei verið litið á slík kerfi sem útvarpsrekstur.
    Í Svíþjóð eru þessi mál öll lausari í reipunum. Þar hefur ,,Televerket`` tekið að sér sem verktaki að leggja sjónvarpsdreifikerfi fyrir loftnetsfélög í samkeppni við einkafyrirtæki. Loftnetskerfi, þar sem erlendum sjónvarpssendingum, m.a. frá gervitunglum, er dreift til notenda, hafa verið heimiluð um langt skeið í Svíþjóð. Þar hefur aldrei verið litið á slíka starfsemi sem útvarpsrekstur.
    Mikill fjöldi erlendra sjónvarpsrása, sem sendar eru um gervitungl, er nú aðgengilegur fyrir Íslendinga. Til dæmis er nú þegar hægt að dreifa efni norrænna sjónvarpsrása til notenda á Íslandi. Ekki þarf að fjölyrða um aukið norrænt samstarf og betri tengsl okkar við hið norræna menningarsvæði sem sköpuðust við þennan möguleika.
    Samkvæmt útvarpslögunum frá 1985 er einstaklingum heimilt að setja upp búnað til móttöku á sjónvarpsefni frá gervitunglum, svo og stofnunum og allt að 36 íbúðum samtímis. Þessi búnaður er mjög dýr og aðeins á færi efnamanna. Til þess að setja upp móttökubúnað fyrir 36 íbúðir samtímis þarf dýran og flókinn aukabúnað, þannig að kostnaður verður lítið lægri á hverja íbúð en fyrir einstakling. Miklu hagkvæmara væri að sjálfsögðu að leysa þetta verkefni

með sameiginlegu loftnetskerfi. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, svo og fjölmörg sveitarfélög úti á landi, hafa sýnt áhuga á að koma upp slíkum kerfum sem yrðu þá undanfari breiðbandskerfisins. Í rauninni er auðvelt að tengja staðbundin strengkerfi við ljósleiðarakerfi Póst- og símamálastofnunarinnar og hafa eina sjónvarpsmóttökustöð á vegum stofnunarinnar fyrir allt landið. Með þessu yrði kostnaður á hverja íbúð og þar með þjóðfélagsins í heild miklu lægri en ella. Þá óttast menn þá sjónmengun sem óneitanlega yrði ef stór sjónvarpsdiskur kæmi við hvert hús. Þótt gerð sjónvarpsmóttökuloftneta fleygi ört fram er ekki líklegt, vegna legu landsins, að hann verði minni og ódýrari í framtíðinni.
    Tvær greinar útvarpslaganna frá 1985, 5. og 6. gr., hafa verið túlkaðar á þann hátt að þær banni lagningu loftnetskerfa til móttöku og dreifingar á erlendu sjónvarpsefni nema útvarpsstöð, að fengnu leyfi til útvarpsrekstrar, sjái um kerfið. Með þessu er komið í veg fyrir eðlilega framþróun á sviði upplýsingatækni á Íslandi sem hins vegar er komin á hraðferð í öllum nágrannalöndum okkar. Það getur ekki hafa verið ætlunin með nýju útvarpslögunum að þrengja möguleika á móttöku útvarpsefnis frá því sem áður var.
    Til þess að leiðrétta þennan misskilning er þetta lagafrumvarp flutt.``
    En það má bæta því við að frumvarpið er nú endurflutt. Það var flutt á þinginu 1988 en fékk þá ekki samþykki. Eftir því sem mig minnir var því þá vísað til nefndar og síðan vísað til ríkisstjórnarinnar og vísað til þess að útvarpslögin væru í endurskoðun og þessi mál yrðu þar tekin til meðferðar. Það hefur ekki orðið raunin á að ný útvarpslög hafi séð dagsins ljós og þar sem ég sé hæstv. menntmrh. er ágætt að spyrja hann að því hvað líði endurskoðun á útvarpslögunum og hvort búast megi við því að þær breytingar, sem hér er lagt til að verði gerðar, komi inn í þá endurskoðun eða hvort Alþingi þurfi nú á þessum dögum að taka á þessum málum og taka þessar breytingar sem hér er mælt fyrir um í gegn, þannig að sú tækni sem nú á sér stað út um allan heim komi hingað til Íslands og við getum nýtt okkur hana sem skyldi.
    Meira vildi ég ekki segja á þessu stigi málsins en legg til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til menntmn. og 2. umr.