Útvarpslög
Þriðjudaginn 05. febrúar 1991


     Eiður Guðnason :
    Herra forseti. Ég held að það sé ýmislegt skynsamlegt í þessu frumvarpi og er raunar ekki nýtt vegna þess að þegar ný útvarpslög voru til umfjöllunar á Alþingi veturinn 1985, þá fluttum við fulltrúar Alþfl. í menntmn. Nd. og Ed. fjölmargar tillögur til breytinga á útvarpslögum þar sem m.a. var gert ráð fyrir þeim möguleika sem hér er upp tekinn, þ.e. að sveitarfélög á landinu gætu komið á fót boðveitukerfum til dreifingar á sjónvarps - og raunar líka útvarpsefni og ýmiss konar upplýsingum öðrum. Þar var þá gert ráð fyrir því að glögg skil væru á milli reksturs þessara kerfa sem slíkra og hins vegar stjórnar á dagskrárefni því sem um þau kynni að fara. Meiri hlutinn á Alþingi sem þá var hafði um það góða samstöðu að fella allar þessar tillögur og naut raunar til þess líka, muni ég rétt, tilstyrk einhverra úr stjórnarandstöðunni, t.d. úr Bandalagi jafnaðarmanna sem þá var við lýði og átti þingmenn hér í Ed. Þetta var auðvitað ákaflega miður. Borgfl. var þá raunar ekki til orðinn eða kominn til hinnar pólitísku sögu á Íslandi.
    Það var ákaflega miður að þessar tillögur skyldu hafa verið felldar vegna þess að þær voru skynsamlegar og það hefði verið til mikilla bóta og til góðs, hygg ég, fyrir allan almenning ef þessi háttur hefði verið upp tekinn, að gefa sveitarfélögum heimild til að reka slík kerfi. Þá væri staða þessara mála önnur í dag. Mér er raunar enn þann dag í dag óskiljanlegt með öllu hvers vegna fulltrúar Sjálfstfl. sérstaklega beittu sér af slíkri hörku til að þessi ákvæði mættu ekki ná fram að ganga. Þarna var jú um að ræða aukið valfrelsi almennings, aukna þjónustu við fólkið en Sjálfstfl. stóð afar hart gegn þessum ákvæðum öllum af einhverjum ástæðum sem ég ekki kann að skýra.
    Það hefði einhvern tíma þótt ótrúlegt, og þykir kannski sumum enn, að styrjöld suður við Persaflóa skyldi hafa til þess orðið að vekja umræðu af því tagi sem nú fer fram, ekki bara á Alþingi Íslendinga heldur í fjölmiðlum og þjóðfélaginu öllu, um íslenska tungu, vernd hennar og frelsi til þess að fylgjast með erlendum útvarps - og sjónvarpsstöðvum. Engu að síður er þetta staðreynd.
    Sú ákvörðun sjónvarpsstöðvanna hér, fyrst Stöðvar 2 og síðan Ríkisútvarpsins, að endurvarpa beint efni viðstöðulaust frá fréttastöðvunum CNN og Sky News var rétt ákvörðun á sínum tíma og liður í góðri þjónustu við viðskiptavini og hlustendur. Ég er líka þeirrar skoðunar að það hafi verið rétt ákvörðun hjá hæstv. menntmrh. að breyta þeim reglugerðarákvæðum sem þarna áttu við og voru í gildi og gerðu það a.m.k. efunarsamt að þetta væri leyfilegt ef ekki ótvírætt að það væri óleyfilegt. Ég held að það hafi líka verið rétt ákvörðun og lít nú raunar svo á að þetta sé ástand sem ekki geti eða muni vara mjög lengi. Og jafnsannfærður og ég er um það að mikið var á þetta efni horft og hlustað fyrstu nætur og daga stríðsins, þá er ég jafnsannfærður um það núna, þegar tíðindaminna er á austurvígstöðvunum, að það er mjög lítið á þetta horft. Það byggi ég svo sem ekki á neinum

könnunum eða staðreyndum. Ég byggi það á samtölum við fólk og tilfinningu fyrir því sem hér er um að tefla. Þannig að ég held að menn geri stórlega of mikið úr þeirri hættu sem íslenskri tungu stafi af þessari ákvörðun. Ég held að þar sé svo sannarlega verið að gera úlfalda úr mýflugu, að ekki sé meira sagt. Mér finnst satt best að segja sumt af því sem sagt hefur verið og skrifað um þetta mál bera þess merki að það er skrifað í ótrúlega miklum hugaræsingi. Og það sem menn skrifa undir slíkum kringumstæðum er eiginlega aldrei mjög gott né yfirvegað.
    Ef menn með svona tiltölulega rólegum huga setjast nú niður og skoða það sem um er að tefla gagnvart íslenskri tungu og skoða hvernig þessum málum er háttað eða farið annars staðar, þá hafa allar rannsóknir sem ég hef séð leitt í ljós að yfirgnæfandi meiri hluti fólks kýs að horfa á efni á sínu eigin tungumáli jafnvel þótt því standi til boða efni á tíu öðrum þjóðtungum. Samkvæmt könnunum halda 80 -- 90% áfram að horfa á efni á sínu móðurmáli vegna þess að þess njóta menn best og skilja best. Sums staðar skekkir það þessar tölur svolítið að erlendar stöðvar senda á móðurmáli viðkomandi lands og það breytir tölunum svolítið, en það breytir þessu ekki efnislega. Þar að auki hefur komið í ljós þegar verið er að framkvæma kannanir um notkun á erlendum sjónvarpsstöðvum að þá munu flestir svarendur verulega ofmeta tungumálaþekkingu sína og telja sig jafnan skilja töluvert meira en raun ber vitni.
    Mér finnst líka að í allri þessari umræðu sé horft fram hjá einu mjög mikilvægu meginatriði. Þegar verið er að tala um að nú hafi orðið þáttaskil með þessum gervihnattasendingum, þá hafi orðið þáttaskil varðandi áhrif erlendra tungumála á íslenska tungu. Menn horfa einfaldlega fram hjá þeirri staðreynd, sem er meginatriði í þessu máli, og hún er sú að a.m.k. 60 -- 70% af efni íslensku sjónvarpsstöðvanna er með ensku tali, bandarísku, bresku eða frá Ástralíu eða Írlandi eða öðrum þjóðum þar sem enska er þjóðtungan, 60 -- 70% a.m.k. Og ég hygg þó að þetta sé heldur varlega áætlað. Þótt þetta efni sé sýnt hér með íslenskum neðanmálstexta þá breytir það engu um það að það er ensk tunga sem hljómar í eyrum allra þeirra sem horfa á þetta efni. Það er meginatriði. Hinu er svo við að bæta, sem kom fram hjá síðasta ræðumanni, hv. 7. þm. Reykn., sem virðist vera orðinn fljúgandi fær í hollensku eftir að hafa horft á þetta gervihnattasjónvarp, að auðvitað er textinn tungumálakennari um leið. Það er staðreynd og ekki lítilvæg. Svo er hins að geta líka að textinn hefur annan kost. Hann gerir það að verkum að maður getur haldið uppi einhverjum samræðum við þá sem eru að horfa með manni án þess að missa af efnisþræðinum. Svo má heldur ekki gleyma því að textinn er líka ekki bara til hjálpar þeim sem ekki skilja hið erlenda tungumál. Hann er líka að vissu leyti hjálp fyrir þá sem búa við skerta heyrn eða heyrnarleysi.
    Þannig gegnir textinn mikilvægu og margþættu hlutverki, en hann breytir ekki því að tungumálið sem talað er glymur í eyrum þeirra sem horfa vegna þess að

fæstir skrúfa niður eða lækka talið því að þá hverfa önnur leikhljóð með, hann breytir ekki því að það er enska sem hljómar í eyrum sjónvarpsáhorfenda þó þeir séu að horfa á hinar rammíslensku stöðvar. Þannig að hér hefur ekki orðið sú breyting sem menn vilja vera láta.
    Ég held líka að við eigum að hafa meiri trú á íslenskri tungu og íslenskri menningu heldur en fram kemur í ummælum margra þeirra sem kvatt hafa sér hljóðs í þessari umræðu. Ég held að það sé eins með tunguna og menninguna og fiskistofnana, að fiskistofnarnir dafna best þar sem mætast ólíkir hafstraumar og ég held að það sé eins með menninguna og tunguna að hún blómstrar best þegar hún verður fyrir hæfilegri áreitni annarra menningarstrauma. Ég held að þá hvetji það til frumkvæðis og átaka.
    Ég er heldur ekki þeirrar skoðunar að þessi breyting sem nú var gerð hafi einhver afgerandi áhrif á málfar manna almennt. Síður en svo. Það má vel vera, um það er ég ekki dómbær --- við höfum haft sjónvarp hér síðan 1966 --- það má vel vera að í setningaskipan, orðanotkun, aukinni nafnorðanotkun kannski þykist menn sjá merki aukinna áhrifa frá ensku. Það má vel vera. Ég er ekki málfræðingur og kann ekki um það að dæma. En hitt, að menn sletti meira nú en áður, það er ég ekkert viss um að sé rétt. Svo er það nú líka þannig að þeim sem bærilega kunna ensku og bærilega kunna íslensku tekst alveg prýðilega að halda þessum málum vel aðskildum. Það er oft miklu frekar þannig að þeir sem minna kunna sletti stundum mest, hefur mér a.m.k. sýnst.
    En það er auðvitað sjálfsagt og rétt að taka undir með þeim sem benda á --- og það er mitt sjónarmið raunar líka mjög eindregið --- að eina vörnin í þessu máli fyrir þá tungu sem okkur hefur verið trúað fyrir, eina vörnin er sókn og þar hefur verið bent á margt sem gera þarf.
Hv. síðasti ræðumaður benti á aukna íslenskukennslu og aukna rækt við móðurmálskennslu. Það er alveg rétt, hárrétt og hverju orði sannara. Ég held að það sé bara ekki nándar nærri nóg. Ég held að það þurfi að leggja miklu meiri rækt við kennslu þeirra sem kenna íslenska tungu. Ég held að það sé mjög brýnt. Vissulega fæst mikið af góðu og vel kunnandi fólki við íslenskukennslu, en ég er jafnsannfærður um að það eru líka margir sem væru betur komnir við einhver allt önnur störf. Það er nú bara eins og þetta er.
    Mér var sagt að fyrir allmörgum árum hefðu komið danskir námsstjórar eða dönskukennarar til að kynna sér stöðu dönskukennslunnar á Íslandi. Þeir hefðu ekki verið svo mjög forviða yfir því hversu mikið eða lítið nemendur kunnu í dönsku, en þeir hefðu verið svolítið meira hissa á því hvernig kunnáttu kennaranna var háttað í þeim efnum. Og þá er auðvitað ekki við góðu að búast.
    Ég held að við þurfum líka að efla metnað fjölmiðlanna til að sinna tungunni og kappkosta gott málfar. Álitamál er hvort á að setja reglur um það að ákveðið hlutfall efnis í ljósvakamiðlunum skuli vera á íslensku. Slík regla er auðvitað mjög vandsett ef jafnframt á að gera kröfur um gæði, sem tvímælalaust á að gera. Mér finnst þetta vera álitamál og til athugunar. Það á að hvetja fjölmiðlana til að ráða málfarsráðunauta eins og þann málfarsráðunaut sem hefur starfað við Ríkisútvarpið, ég hygg að starf hans hafi gefið mjög góða raun, og efla umfjöllun um íslenskt mál. Þar hafa, held ég, Ríkisútvarpið og Morgunblaðið verið til fyrirmyndar. Morgunblaðið hefur jafnan á sínum síðum áhugaverða þætti um íslenskt mál og það hefur Ríkisútvarpið líka á öldum ljósvakans.
    Ég held að við eigum þar að auki að gefa þeim sem hafa lokið skólagöngu og vilja bæta kunnáttu sína í móðurmálinu kost á aðgengilegri fræðslu, námskeiðum til þess að bæta móðurmálskunnáttu sína. Og síðast en ekki síst eigum við að efla bóklestur vegna þess að góður texti er góður móðurmálskennari. Um það verður ekki deilt.
    Þessi ræða mín, herra forseti, er nú orðin nokkru lengri en ég ætlaði mér og kannski komin út í svolítið aðra sálma. Mér hefur fundist þessi umræða sem vakin hefur verið með þeirri ákvörðun að sjónvarpa tímabundið, eins og ég lít nú á að hljóti að vera, þessu erlenda efni, mér hefur fundist sú umræða vera svolítið á ská og kannski hafi ekki verið horfst í augu við meginatriði málsins. Meðan við leyfum einstaklingum að kaupa og fjárfesta fyrir kannski á annað hundrað eða 200 þús. kr. í móttökubúnaði til þess að taka við erlendu sjónvarpsefni er auðvitað enginn eðlismunur á því að leyfa fleirum að gera það í senn. Við getum ekki gert upp á milli fólks eftir efnahag í þessum efnum, það finnst mér útilokað. Þess vegna eiga menn nú að rýmka þessar reglur, gera ráð fyrir að starfað geti boðveitukerfi og eitthvað í þá áttina sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég er ekki að segja að þau ákvæði sem hér eru séu hin einu réttu. Ég held að menn þurfi að hugsa þetta töluvert betur og ná um að þeirri samstöðu sem nauðsynlegt er að ríki um svona mál.
    Ég hygg, herra forseti, að þetta mál muni verða tekið til umræðu í þeirri nefnd sem það fær til meðferðar, sem væntanlega verður menntmn. þessarar hv. deildar. Þá verði kannað á hvaða stigi umræður um þetta efni eru nú meðal þeirra sem mest um málin fjalla, mest um málin vita. Síðan muni sú nefnd taka sína ákvörðun í samræmi við þær upplýsingar sem þá munu frammi liggja.