Útvarpslög
Þriðjudaginn 05. febrúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Herra forseti. Varðandi það frv. sem hér liggur fyrir vil ég segja að fyrir tveimur vikum eða svo, ég hygg að það hafi verið 18. jan., skipaði ég hóp manna til þess að fjalla um endurskoðun á útvarpslögunum út frá stöðu kapalkerfa, móttökudiska, þýðingarskyldu, stöðu íslensks máls. Þessi hópur mun skila mér áliti í kringum 15. febr. Þá hafði ég gert ráð fyrir því að niðurstöður hópsins kæmu að einhverju leyti til meðferðar á hv. Alþingi og þá má að sjálfsögðu taka afstöðu til frv. sem hér er verið að ræða um með hliðsjón af því. Ég held að það skipti mestu máli sem hv. síðasti ræðumaður, Eiður Guðnason, sagði að um mál af þessu tagi þarf að ríkja þjóðarsátt, ef einhvers staðar, þá þarna. Það þarf að vera þjóðarsátt um þjóðtunguna og þær forsendur sem fjölmiðlar starfa á og vinna eftir. Ég vona að það takist í framhaldi af áliti þessarar nefndar að breyta útvarpslögum og skýra þau og breyta reglugerðum og skýra þær með hliðsjón af þeirri þróun sem hefur verið að ganga yfir.
    Það er auðvitað enginn vafi á því að ef við ættum kost á því að koma í veg fyrir að óþýtt erlent efni kæmi hingað til lands frá erlendum sjónvarpsstöðvum mundum við mörg hver kjósa að halda þannig á máli vegna þess að við teljum að flóð af erlendu efni geti veikt menningarlegar undirstöður þjóðarinnar. Aðstæður eru hins vegar þannig að á því er enginn kostur að loka fyrir þetta flóð. Það er ekki hægt að setja regnhlíf yfir Ísland, eins og Einar Kárason rithöfundur orðaði það svo snilldarlega núna á dögunum. Þess vegna verðum við fyrst og fremst að velta fyrir okkur hvernig við getum búið við þær nýju, alþjóðlegu, tæknilegu aðstæður sem blasa við.
    Hvað er það sem hefur haldið lífinu í íslenskri menningu? Það er stór spurning og verður auðvitað fátt um svör nú eins og fyrr. Menn hafa þó í því sambandi nefnt aðallega tvennt og þá eru menn að hugsa um málið, íslenska tungu, sem undirstöðu menningarinnar. Fyrsta ástæðan til þess að við höfum haldið málinu allar þessar aldir er landfræðileg einangrun sem hefur skapað aðstæður til þess að við höfum fengið að þróa okkar eigin málsamfélag á okkar eigin forsendum. Hin meginástæðan liggur hins vegar í því sem hefur verið kallað innri styrkur íslenskrar menningar og birtist okkur aðallega í bókmenntum okkar, sögu og fornum erfðum af ýmsu tagi sem okkur hefur tekist að gefa líf í nútíma.
    Það er alveg augljóst mál að miðað við allar aðstæður er fyrri forsendan meira og minna fallin. Þessi landfræðilega einangrun er rofin, gervitunglin eru hér allt um kring yfir okkur þannig að það sem eftir stendur er að við reynum þá enn frekar að styrkja það sem kallað hefur verið innra þrek, baráttuþrek íslenskrar menningar.
    Í umræðum um þessi mál á undanförnum áratugum hafa menn yfirleitt spurt sig þeirrar spurningar hvernig eigi að verja íslenska menningu. Ég held að við þyrftum gjarnan að orða þessa spurningu aðeins öðruvísi og velta fyrir okkur: Hvernig eigum við að

sækja fram í þágu íslenskrar menningar? Og getur það verið að eitthvað í hinum alþjóðlegu straumum sé þannig að það geti jafnvel orðið okkur og íslenskri menningu til styrktar ef rétt er á haldið?
    Að því er varðar þá reglugerðarbreytingu sem hér hefur verið gerð talsvert að umtalsefni er það auðvitað alveg ljóst að það var útilokað annað en að breyta reglugerðinni. Þó það væri ekki nema vegna þess að bersýnilega var fyrir því yfirgnæfandi þingræðislegur vilji. Ráðherrar taka vald sitt frá Alþingi og þingmönnunum og það var augljóst mál og lá fyrir þegar á fyrsta sólarhring eftir að þessi ósköp dundu hér yfir að allir flokkar á Alþingi og formenn beggja menntamálanefnda þingsins voru þeirrar skoðunar að reglugerðinni yrði að breyta þrátt fyrir allt.
    Ég get ómögulega neitað því að það var mér að mörgu leyti mjög erfitt að breyta þessari reglugerð vegna þess að ég taldi að það orkaði tvímælis að gera það, fyrst og fremst af einni ástæðu, þeirri að þeir sem gátu haldið áfram starfsemi samkvæmt hinni breyttu reglugerð höfðu bersýnilega brotið reglugerðina. Og það er óheppilegt, að ekki sé meira sagt, að stjórnvöld, í þessu tilfelli ráðherrar, skuli þurfa að standa frammi fyrir verki eins og því að breyta reglugerð í þágu þeirra sem höfðu brotið hana.
    Ég held hins vegar að niðurstaðan sé ótvírætt sú að hér hafi ekki verið um neitt annað að gera. Og þá spyrjum við okkur: Hvað svo? Mitt fyrsta svar er það að við eigum að sækja fram í þágu íslenskrar menningar með almennum aðgerðum á mörgum sviðum. Það höfum við gert, m.a. með málræktarátakinu 1989, sem var satt að segja einhver ánægjulegasti atburður sem ég hef tekið þátt í að vinna við um dagana vegna þess að áhuginn var svo mikill alls staðar, í öllu þjóðfélaginu. Hann kom t.d. afar vel fram, svo að ég nefni dæmi, í leikskólum. Af því að hér var verið að tala um að það þurfi að halda góðu máli að börnunum þá hygg ég að þeir sem hafa kynnst starfi leikskólanna í tengslum við málræktarátakið hafi orðið varir við ótrúlega mikið hugmyndaflug, gleði í starfi og mikinn vilja til þess að rækta íslenskt mál.
    Hvaða stoð gerir málræktarátak eitt út af fyrir sig? Jú, það hjálpar til að efla skilning þeirra sem taka þátt í því, en aðalatriðið er þó það að ég tel að málræktarátakið hafi verið undirstaða þess að hægt var að ná samstöðu um það að fella niður virðisaukaskatt af bókum. Ég er sannfærður um að ákvörðunin um að fella niður virðisaukaskatt af bókum er einhver þýðingarmesta aðgerð sem ákveðin hefur verið til þess að styrkja íslenskt mál og íslenska tungu af því að, eins og hv. þm. Eiður Guðnason sagði hér áðan, það er lesturinn sem ræður úrslitum. Niðurstaðan lét ekki á sér standa því að á bókavertíðinni miklu núna í haust kom í ljós að um var að ræða aukna bóksölu um 15 -- 20%. Þarna er dæmi um svar sem felur í sér sókn.
    Annað dæmi um svar sem felur í sér sókn er ákvörðunin um að opna fyrir íslenska sjónvarpið 1966. Það var í raun og veru rothöggið á Kanasjónvarpið sem var orðið, ef ég man rétt, inni á þriðja hverju heimili hér á þéttbýlissvæðinu. Og það var alveg augljóst mál að slík einokun erlends aðila eins og Keflavíkurstöðvarinnar á sínum tíma á sjónvarpsrekstri getur auðvitað skapað verulega hættu fyrir þróun íslenskrar tungu og menn þóttust sjá merki þess á þeim tíma. En opnun íslenska sjónvarpsins 1966 var svarið sem að lokum eitt dugði.
    Það sama er að segja t.d. um þá ákvörðun Ríkisútvarpsins að opna fyrir Rás 2 á sínum tíma. Opnunin á Rás 2 og síðar fleiri íslenskar stöðvar, sem margt má nú um segja að því er varðar gæði efnis þeirra en látum það vera, en það að opnaðar eru fleiri rásir eins og Rás 2 og síðan fleiri stöðvar verður til þess að Kanaútvarpið, sem var mjög mikið notað hér um áratuga skeið, er í raun og veru slegið út.
    Dæmi um sóknaraðgerðir af smærra tagi gæti ég líka nefnt eins og t.d. þá ákvörðun að efna til sérstaks átaks í tengslum við ár læsis á Íslandi sem varð til þess að vekja athygli þjóðarinnar, eða a.m.k. mjög margra, á nauðsyn þess að halda bóklestur í heiðri og að undirstrika það meginatriði að lestur er í raun og veru lykill að framförum fyrir þá sem kunna að lesa. Það er hins vegar alvarlegt umhugsunarefni að um þessar mundir er það þannig og hefur verið um nokkurra ára skeið, en við finnum það betur núna en verið hefur af því að það fara fleiri inn í framhaldsskólana en verið hefur, að það koma fleiri ólæsir eða mjög illa læsir út úr grunnskólunum en við áður vissum um. Ég segi vissum um, vegna þess að ég tel að við vitum þetta betur fyrst og fremst núna vegna þess að það koma fleiri inn í framhaldsskólana en var áður. Af þeim ástæðum höfum við m.a. sett í gang undirbúning að stofnun miðstöðvar fyrir lestrarrannsóknir hér á landi sem verður opnuð í tengslum við Æfingadeild Kennaraháskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands á þessu ári. Ég held að það sé afar mikið atriði að þessar rannsóknir komist af stað til þess að við áttum okkur á því hvaða aðgerðir eru bestar til að svara því hrikalega vandamáli sem ólæsi er, þó það sé hjá mjög litlum hluta hvers árgangs. Í þessum efnum vil ég ekki vera að kenna kennarastéttinni um sem heild. Aðstæðurnar eru þannig að vísu að skólinn er stærri og stærri þáttur í uppeldi barnanna. Fjölmiðlar hafa þar mikil áhrif og félagslegt umhverfi barnanna að öðru leyti sömuleiðis. Á þessu öllu þarf að taka í heild og byggja aðgerðir sem gripið verður til á rannsóknum þannig að menn viti um hvað þeir eru að tala.
    Ég vil einnig nefna í þessu sambandi, virðulegi forseti, þá ákvörðun að gera sérstakt átak varðandi íðorðasmíð á Íslandi sem hefur verið í gangi núna um áratuga skeið með mjög myndarlegum hætti í sjálfboðavinnu, t.d. á vegum Verkfræðingafélags Íslands, á vegum flugmanna, á vegum hjúkrunarfræðinga og fleiri aðila. Þetta þarf hins vegar að gerast með skipulegum hætti. Við þurfum að átta okkur á því hversu mikið við eigum að þýða af erlendum orðum og fræðihugtökum. Til að menn átti sig aðeins betur á því hvað vandinn er stór má kannski rifja það upp að það var talið að heitin á hlutum rokksins, sem var eitt helsta tækniundur Íslendinga um aldir eins og kunnugt er og eitthvert brýnasta tæki hvers heimilis um aldir, það er talið að þau séu innan við 100 þegar allt er talið, líka samheiti. Fræðiheitin í byggingarverkfræði, þau sem óþýdd eru, eru hins vegar talin vera 100 -- 200 þús. Við þurfum að átta okkur á því hversu stóran hluta þessara fræðiheita við ætlum að reyna að þýða á íslensku. Og það sem mikilsverðara er í því er það að fræðimennirnir sjálfir og stofnanir þeirra noti hin íslensku heiti í talmáli sín á milli en talist ekki við með erlendum fræðiorðum um það sem þeir eru að fjalla um. Mjög mikilvægt atriði í þessu sambandi er sú samþykkt háskólaráðs núna frá byrjun janúarmánaðar sl. þar sem gert er ráð fyrir því að farið verði yfir þessi fræðiheita - og íðorðamál í hverri einustu háskóladeild og sagt: Það eiga að vera til íslensk orð um það sem hér er verið að kenna. Og ekki nóg með það, heldur verði sagt: Við eigum að þjálfa okkar nemendur í að nota þau. Ég held satt að segja að það að Háskóli Íslands skuli hafa ákveðið að taka sér tak í þessu efni sé mjög mikilvægt, muni smita út frá sér og hafa áhrif á fleiri stofnanir eða a.m.k. vona ég að svo verði.
    Þá tel ég kannski rétt, virðulegi forseti, að nefna það í þessu sambandi að í tengslum við málræktarátakið kom fram að það er gífurlegur
áhugi á íslensku máli meðal allrar þjóðarinnar. Við höfum verið að leita að leiðum fyrir fyrirtæki og einstaklinga til að fjármagna, ásamt ríkinu, málræktarstarf. Við höfum rætt við forráðamenn fyrirtækja, t.d. Eimskips, Sjóvár og fleiri og fleiri slíkra fyrirtækja, Vátryggingafélagsins o.s.frv., um það að þessi fyrirtæki, ásamt einstaklingum og ríkinu, stofni það sem við köllum málræktarsjóð. Við höfum verið að reyna að aura saman fjármunum í þennan sjóð um nokkurra missira skeið og ég geri ráð fyrir því að hægt verði að tilkynna stofnun hans núna alveg á næstunni. Sjóðurinn verður með stofnframlagi frá sænsku Vísindaakademíunni og auk þess koma við sögu ríkissjóður og fjöldi innlendra fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga. Þetta er ekki aðeins nauðsynlegt til þess að virkja áhuga þeirra sem þegar hafa áhuga, heldur líka til þess að skapa nýjan áhuga hjá þeim sem finna skyldur í þessum efnum, eins og t.d. samtökum af ýmsu tagi, ungmennafélagshreyfingunni, atvinnurekendasamtökunum, verkalýðshreyfingunni o.s.frv.
    Þegar við stofnuðum framkvæmdanefnd um ár læsis kölluðum við til, og þótti mjög sérkennilegt en er ekkert sérkennilegt, en það var nýtt og þótti þess vegna sérkennilegt, fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands. Menn voru vanastir því að þessir aðilar væru kallaðir til þegar fjallað er um kaup og kjör en ekki mál af þessu tagi sem þó eru kjör vegna þess að íslenskan er auðvitað þáttur af okkar lífskjörum. Niðurstaðan varð sú að þessir aðilar tóku þátt í undirbúningi og framkvæmd árs læsis með mjög myndarlegum hætti.
    Kannski er það táknrænt fyrir Íslendinga og um leið mjög skemmtilegt og fróðlegt til umhugsunar hvernig þeir bregðast við þegar mikil tíðindi gerast í kringum okkur. Við erum að sjálfsögðu upptekin af þeim vanda sem um er að ræða í stríðinu við

Persaflóa, átökunum í Eystrasaltsríkjunum, en við erum núna sérstaklega upptekin af því hvernig íslenskri tungu og íslenskri menningu reiðir af í þessum sviptingum. Ég er þeirrar skoðunar að það sé rangt sem sagt hefur verið að reglugerðarbreytingin ein út af fyrir sig hafi opnað fyrir einhverja flóðgátt. Ég tel að þessi flóðgátt hafi verið opin. En umræðan sem fylgir reglugerðarbreytingunni er að mínu mati mjög jákvæð vegna þess að hún snýst um kjarna málsins: Hvernig getum við haldið þannig á málum, bæði stjórnvöld og aðrir, að íslenskan nái að þróast og lifa þrátt fyrir þessar alþjóðlegu sviptingar sem við núna stöndum frammi fyrir?
    Ég vil vekja athygli á því, virðulegi forseti, að í umræðunni um þessi mál núna að undanförnu má segja að í grundvallaratriðum séu allir þeir sem hafa velt þeim fyrir sér vandlega sammála um öll meginatriðin. Það eru að vísu til eldhugar sem halda því fram fullum fetum að það hefði verið hægt að láta það eiga sig að breyta reglugerðinni. Ég held að þeir hafi ekki rétt fyrir sér. Ég held að það hafi í rauninni ekki verið hægt að bregðast mikið öðruvísi við en gert var, kannski eitthvað aðeins öðruvísi auðvitað, en ekki mikið öðruvísi. Ég held að menn sjái það allir þegar þeir brjóta málið til mergjar og skoða til hlítar það vandamál sem hér er uppi. Hins vegar má segja að það jákvæða við reglugerðarbreytinguna sé að það kemur fram, bæði hjá alþingismönnum og öðrum sem fjalla um þessi mál á opinberum vettvangi, að menn finna á sér þá skyldu sem hvílir á hverjum einasta alþingismanni og hverjum einasta Íslendingi að standa betur að þessum málum en gert hefur verið. Þess vegna höfum við velt því fyrir okkur hvort unnt sé að mynda það sem ég hef kallað þjóðarsamstöðu um þjóðtunguna með því að hér verði til eins konar framkvæmdaáætlun til nokkurra ára um íslenskuna í skólum; leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum, háskóla, í atvinnulífi, í fræðastarfi af ýmsu tagi, í rannsóknum, í útgáfustarfsemi, í bókaútgáfu, í kvikmyndagerð, í leiklist o.s.frv. Ég held að ef okkur tækist að skapa þjóðarsamstöðu um slíka framkvæmdaáætlun og tækist að tryggja til þess þá fjármuni sem óhjákvæmilegir eru sé það mikið líklegra til árangurs til að styrkja íslenska tungu en jafnvel ein reglugerð þó hún hafi verið sett á sínum tíma af góðum og gildum ástæðum sem ég geri ekki lítið úr.