Útvarpslög
Þriðjudaginn 05. febrúar 1991


     Flm. (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegur forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur skapast um þetta frv. um breytingu á útvarpslögum og get tekið undir margt það sem fram hefur komið. Því miður hefur umræðan frekar snúist í átt að því hvernig eigi að efla íslenska tungu og fyrst og fremst sé um að ræða, ef þetta frv. verður samþykkt, spurninguna hvort íslensk tunga muni skaðast á einn eða annan hátt. Ég held að það sé ekki rétt og get tekið undir það sem fram kom hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni, 3. þm. Vesturl., að í gegnum árin, að síðan íslenskt útvarp og sjónvarp kom hefur glumið í eyrum okkar ensk tunga og meira að segja tunga frá öðrum menningarheimum og það sé fyrst og fremst spurning um það hvort sleppa eigi textanum eða ekki.
    Ég er nýkominn frá Evrópuráðinu og þar var einmitt til umræðu mál af þessu tagi. Það var spurningin um svokölluð ,,local radios`` eða staðbundið útvarp eða sjónvarp, til að þjóna litlum menningarheimum. Það er einmitt það sem er að gerast hérna þegar við erum að færast nær Evrópu, að við verðum einn af litlu menningarheimunum, einn afkiminn í þessum stóra Evrópuheimi, og það er spurning hvernig við getum viðhaldið okkar tungu og hvernig við getum komið út úr því. Ég held að sú þróun verði aldrei stöðvuð að við tengjumst Evrópu að meira eða minna leyti. Þessi umræða um íslenska tungu er mikilvæg en hún kemur ekki í veg fyrir þá þróun sem verður hér á næstu árum.
    Ég legg á það mikla áherslu að þetta frumvarp er til að auðvelda þær öru breytingar í Evrópu í sjónvarps- og útvarpsrekstri sem hafa verið að flæða hér inn og ekki síður til að við getum nýtt þá tækni til ýmissa boðskipta í gegnum tölvur. Það er kjarni málsins að mínu mati og ég held að þó að þetta frumvarp verði samþykkt, þá geri það enga grundvallarbreytingu á íslenskri tungu. Það mál á að leysa á öðrum vettvangi, í skólum og með fræðslu, en við eigum ekki að tengja þetta beint eða neita þeim breytingum og þeirri tækni sem er komin og vísa til þess að það hafi skaðleg áhrif á íslenska tungu.
    En ég vil aftur þakka fyrir þær umræður sem hafa orðið um þetta frv. og vonast eftir því að formaður menntmn. Ed. taki það til umræðu í nefndinni og samþykki það vonandi. Að þessu mæltu hef ég ekki meira um þetta að segja en vil taka undir það sem sagt hefur verið.