Almenn hegningarlög
Þriðjudaginn 05. febrúar 1991


     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég fagna því frv. sem hér er til umræðu og tek undir það meginsjónarmið sem það boðar. Ég held að þetta marki tímamót í dómssögunni að bjóða upp á þann valkost sem hér um ræðir og vildi lýsa fyllstum stuðningi við tilgang frv.
    Vissulega vakna fjölmargar spurningar við lestur frv. en sennilega verður það að bíða nefndarstarfs að fara djúpt ofan í það. Hins vegar hafa fangelsismál verið hér nokkuð til umræðu og ég rifja það upp að þegar hér var til umræðu mál er varðar leyfilegt áfengismagn í blóði, þá viðraði ég hugmyndir í þá veru að hægt væri að beita öðrum refsingum en akkúrat þeim að setja menn í fangelsi og var einmitt að benda á leiðir eins og samfélagsþjónusta sú sem hér er til umræðu tekur á.
    Mér finnst nokkrar spurningar vakna varðandi samfélagsþjónustu, t.d. varðandi þann þátt að hún sé launalaus. Ég tel að vel megi athuga hvort ekki megi greiða laun fyrir samfélagsþjónustu. Þó að ég sjái það hér á frv. að það þekkist ekki annars staðar þá tel ég að það megi vel skoða þann möguleika að greiða fyrir hana í því skyni að launin fari upp í það að greiða tjónþola sem viðkomandi brotamaður hefur brotið á og ekki er greiðslumaður fyrir sínu tjóni, að það geti runnið í það að bæta honum þann skaða sem hann varð fyrir.
    Í II. kafla undir fyrirsögninni: Hvað er samfélagsþjónusta, er m.a. sagt, með leyfi forseta:
    ,,Hugsanlega má stuðla að víðtækari skilningi hjá fólki almennt á brotamönnum og aðstæðum þeirra með því að draga aðra þjóðfélagshópa á þennan hátt inn í sjálfa refsifullnustuna.`` Ég vil leyfa mér að biðja hæstv. ráðherra að útskýra þetta nánar. Ég næ ekki alveg hugsuninni á bak við þessa setningu, hvernig aðrir þjóðfélagshópar eiga að verða betur upplýstir um brotamennina.
    Auðvitað tek ég undir það að með samfélagsþjónustu erum við að stefna inn á braut betrunar og því ber að fagna. Ég vil líka kalla eftir útskýringum á því hvers lags brot hér er um að ræða. Hvort verið er að tala um t.d. hraðaakstursbrot, ölvunarakstursbrot og önnur slík, það kemur ekki skýrt fram hér, og fá kannski nánari dæmi um þetta.
    Það er annar liður sem mér finnst líka spurningarmerki við. Hann er um hvort það eigi að vísa þessu til Fangelsismálastofnunar. Ég mundi gjarnan vilja sjá þetta afgreitt inni í dómsmálakerfinu, að þar sé heimild til þess að dæma menn til þessarar þjónustu, að sjálfsögðu með þeirra samþykki, en ekki að það þurfi fyrst og fremst að leita eftir skriflegu áliti Fangelsismálastofnunar um þennan þátt. Það er hins vegar hægt að hafa þetta tvíþætt. Ef maður hefur verið dæmdur óskilorðsbundið þá eigi hann engu að síður þann kost að leita eftir breytingu á sínum dómi og breyta honum yfir í samfélagsþjónustu.
    Ég vil minna hæstv. ráðherra á fyrirspurn sem ég bar fram fyrr í vetur og varðaði málefni fanga. Þar var m.a. spurt hvort geðsjúkir menn væru vistaðir á

Litla - Hrauni. Í svari ráðherra kom fram að svo væri. Ég vil einnig minna hann á sömu fyrirspurn þar sem spurt var hvort ákvæði 110. gr. heilbrigðisreglna nr. 140/1990 væri framfylgt, en þar er kveðið á um löglega stærð klefa. Kemur mjög skýrt fram í svari ráðherra að þar eru mannréttindi þverbrotin. Og síðast en ekki síst vil ég minna á að spurt var hvort tekið væri á vandamálum fíkniefnaneytenda í fangelsum. Kom einnig fram hjá ráðherra að slíkt væri ekki gert.
    Ég vil inna ráðherra eftir því hvort nokkur hætta sé á að þessum málaflokkum seinki eða hvort þetta flýti fyrir að tekið verði á þessum málum. Einnig er nauðsynlegt að fá upp kostnað við þessa breytingu. Hvar menn hugsa sér að koma mönnum í vinnu. Hefur það verið kannað? Og hvort þetta er raunhæfur möguleiki eða ekki, sérstaklega með tilliti til þess að það er gert ráð fyrir að aðeins einn dómþoli megi vera á hverjum vinnustað.
    Hæstv. forseti. Eins og fram kemur í frv. er um tilraun að ræða. Þetta á að gilda til 31. des. 1995 en tekur ekki gildi fyrr en 1. maí 1992. Ég tel að það sé vel
tilraunarinnar virði að fara út á þessa braut en óska eftir svörum við þeim örfáu spurningum sem ég hef hér lagt fram. Þær eru vissulega miklu, miklu fleiri sem nefndin hlýtur að taka fyrir og leita svara við.
    En í öllum meginatriðum lýsi ég stuðningi við frv. Ég tel að það sé til bóta. Það muni styrkja fjölskyldubönd að ekki þurfi að taka menn út af heimilunum og stinga þeim í fangelsi. Það styður við einkalífið og leggur það ekki í rúst.
    Hins vegar finnst mér mörkin, 20 klst. á mánuði, vera nokkuð lág þó ég geri mér grein fyrir að það er fyrirmynd annars staðar frá. Ef maður reiknar þetta niður í vinnu á dag þá kemur það fram að þetta nær ekki einni klukkustund á dag. Þykir mér það nokkuð vel sloppið.
    Hæstv. forseti. Ég held ég hafi ekki fleiri orð um þetta. Ég ítreka stuðning við tilgang frv. og vona að við getum orðið sáttir um það í nefndinni að veita því brautargengi.