Almenn hegningarlög
Þriðjudaginn 05. febrúar 1991


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka þær undirtektir sem þetta mál hefur fengið hér við 1. umr. og ekki síst þar sem um er að ræða tvo hv. þm. sem báðir eiga sæti í hv. allshn. Nokkur atriði komu fram í máli seinasta ræðumanns, hv. 5. þm. Vesturl., sem ég mun leitast við að svara.
    Þar er fyrst að mörkin sem um er að ræða, lágmark 20 klst. miðaðar við heilan afplánunarmánuð, munu vera, eins og kom raunar fram í máli hv. þm., þau sömu hvarvetna í Evrópu þar sem þessum refsikosti er beitt. Ástæðan mun vera sú að það er talið að vart sé þess að vænta að hægt sé að vinna lengur miðað við einn mánuð til viðbótar venjulegum vinnudegi eða venjulegum skóladegi þannig að sæmandi sé. Það munu vera mörkin sem þarna er um að ræða.
    Það er líka gert ráð fyrir 40 tímum að lágmarki sem refsikosti í frv. og ástæðan er sú að til þess að hafa jákvæð uppeldisleg áhrif á dómþolann þá geti vart um styttri tíma verið að ræða.
    Hvar þessi þjónusta gæti verið innt af höndum hefur ekki verið athugað neitt sérstaklega enn þá. Eins og kemur fram í frv. þá yrði það verkefni Fangelsismálastofnunar að vinna að því. Yfirleitt munu það vera alls konar aðstoðarmannsstörf sem koma helst til greina í þessu sambandi.
    Hv. 5. þm. Vesturl. minntist á þann möguleika að hægt væri að dæma til samfélagsþjónustu. Það er víða gert erlendis en líka er til þessi leið sem hér er valin samkvæmt frv. Einnig minntist hann á möguleikann á því að greiða laun. Það mun hvergi vera gert í þessu sambandi en kæmi vitaskuld til greina eins og er raunar í fangelsum.
    Ég vænti að þetta gefi einhver svör við þeim spurningum sem fram voru lagðar en endurtek síðan, hæstv. forseti, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.