Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri
Þriðjudaginn 05. febrúar 1991


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi. Ég vek athygli á því að á dagskránni er einnig frv. til laga um breytingar á ýmsum lagaákvæðum sem þetta varðar. Sömuleiðis treysti ég því að þingmenn hafi fengið sérstaka samantekt sem aðstoðarmaður minn, Jón Sveinsson, hefur tekið saman og gefur nokkuð glögga mynd af því hvernig þetta er nú með erlenda fjárfestingu og hvernig gert er ráð fyrir að verði ef frv. verður samþykkt.
    Ég ætla fyrst að fara yfir nokkrar gildandi reglur og þær upplýsingar sem liggja fyrir um erlenda fjárfestingu hér á landi áður en ég kem að stöðunni nú og sérstaklega þeim breytingum sem frv. gerir ráð fyrir. Gildandi lagaákvæði um heimildir erlendra aðila til fjárfestingar í atvinnurekstri hér á landi eru mjög ósamstæð að efni til. Auk þess eru þau á víð og dreif í lögum. Mjög erfitt er því að fylgjast með og hafa yfirsýn yfir fjárfestingar erlendra aðila hér á landi. Af þessum sökum hefur nokkur óvissa og skoðanamunur ríkt varðandi það hverjar séu heimildir erlendra aðila til fjárfestinga í atvinnugreinum sem sérstök lög hafa ekki verið sett um. Íslensk lagaákvæði fjalla með mismunandi hætti um möguleika erlendra aðila til að fjárfesta í atvinnurekstri hérlendis. Til einföldunar má greina á milli fjögurra meginatriða.
    Í fyrsta lagi er um að ræða reglur um stofnun eða kaup erlendra aðila á fyrirtækjum á Íslandi, svo og reglur um setu erlendra ríkisborgara í stjórn fyrirtækja sem eru skráð og starfrækt hérlendis. Ákvæði þess efnis er fyrst og fremst að finna í hlutafélagalögum og í lögum um einstakar atvinnugreinar.
    Í öðru lagi skipta máli reglur um kaup eða leigu rekstraraðila, einstaklinga og fyrirtækja á fasteignum.
    Í þriðja lagi hafa reglur um fjármagnsgreiðslur til og frá landinu sérstaka þýðingu fyrir þessi fyrirtæki.
    Í fjórða lagi geta ákvæði skattalaga breytt starfskjörum þessara fyrirtækja. Að öðru leyti vil ég vísa til yfirlits í grg. með frv. og þess samanburðar sem ég nefndi áðan. Ég hygg að það komi glöggt fram af því að þar er raunar um hinn mesta frumskóg að ræða og full þörf á að hreinsað sé til þó ekki væri annað.
    Ég vil þá geta þess að að beiðni nokkurra þingmanna lagði ég fyrir Alþingi sl. vor skýrslu um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi. Hún var tekin saman af mínum aðstoðarmanni en ekki vannst tími til að ræða hana á hinu háa Alþingi. Afar erfitt reyndist að safna slíkum upplýsingum þar sem enginn einn aðili sinnir gagnasöfnun á þessu sviði. Engin lög eða reglur skylda opinbera aðila til þess að hafa heildaryfirlit yfir slíkar fjárfestingar. Útilokað er t.d. að fá glöggar upplýsingar um hvort fyrirtæki hérlendis í eigu erlendra aðila að einhverju leyti hafi greitt út arð. Hlutafélagaskrá hefur til þessa ekki sinnt gagnasöfnunarhlutverki af þessu tagi. Hjá hlutafélagaskrá hefur áherslan verið lögð á nýskráningu félaga en breytingar á eignaraðild ekki verið skráðar sérstaklega. Þannig geta erlendir aðilar keypt hlut í starfandi

fyrirtækjum eða aukið þann hlut sem fyrir er án þess að slíkt sé skráð í hlutafélagaskrá.
    Seðlabanki Íslands hefur nú nýlega hafið söfnun upplýsinga um erlenda aðila sem eiga hlut í íslenskum fyrirtækjum. Þessi upplýsingaöflun bankans er nú í mótun. Dómsmrn. heldur aðeins yfirlit yfir eignaraðild erlendra aðila að fasteignum í samræmi við lög nr. 19/1966, um eignarrétt og afnotarétt fasteigna. Þjóðhagsstofnun hefur ekki talið það vera sitt hlutverk að sinna skýrslusöfnun um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi. Eina undantekningin er sú að sumarið 1989 kom fyrirspurn frá Efnahags- og framfarastofnuninni í París um þátttöku erlendra fyrirtækja í íslenskum iðnaði og þeirri fyrirspurn leitaðist Þjóðhagsstofnun við að svara.
    Í apríl 1990 tók Seðlabanki Íslands að minni beiðni saman yfirlit yfir erlenda aðila sem eiga hlut í íslenskum fyrirtækjum. Þær upplýsingar, ásamt upplýsingum Þjóðhagsstofnunar, voru kynntar í skýrslu minni, sem ég nefndi áðan, um fjárfestingu erlendra aðila hér og lögð var fram á þingi sl. vor. Ég hef nú látið endurvinna þessar upplýsingar svo sem kostur er og koma þær fram í töflum I -- V sem fylgja með frv. Í töflu VI er jafnframt yfirlit dómsmrn. yfir eignaraðild erlendra fyrirtækja að fasteignum á tímabilinu 1970 -- 1990. Í þeim gögnum sem fyrir liggja má sjá að umsvif erlendra aðila í íslensku atvinnulífi eru ekki umtalsverð enn sem komið er. Þá er að vísu ekki talin með sú stóriðja sem sérstök lög fjalla um, þ.e. Ísal og Járnblendifélagið sérstaklega.
    Það má segja að þessi umsvif séu jafnvel lítil þó að gera megi ráð fyrir verulegu vanmati. Hins vegar bendir margt til þess að þessi umsvif geti farið vaxandi. Afar brýnt er að koma upplýsingaöflun í fast form þannig að unnt verði framvegis að fá góða heildarmynd af umsvifum erlendra aðila í íslensku atvinnulífi hverju sinni og þróun þeirra mála. Í þessu skyni virðist eðlilegt að fyrirtækjum verði gert skylt að tilkynna til einhvers opinbers aðila allar breytingar á eignaraðild útlendinga í viðkomandi fyrirtæki, hvort heldur er um að ræða hlutafélag eða annað rekstrarform. Nærtækast virðist að fela Seðlabanka Íslands þessa skýrslugerð með hliðsjón af því að þetta verk er þar þegar hafið og gerir frv. ráð fyrir því.
    Frá því árið 1960, eða frá stofnun Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París, hafa aðildarríki þeirrar stofnunar verið sammála um að stefna beri að sem mestu frelsi í viðskiptum með fjármagn, vöru og þjónustu. Stefna þessi byggir á því að með auknu frjálsræði í fjármagnsviðskiptum milli landa verði tryggð hámarksnýting þeirra framleiðslugæða sem hagsæld hvílir á. Samþykktir OECD um að stefnt skuli að frjálsum fjármagnshreyfingum taka bæði til beinna fjárfestinga, svo sem með hlutafjárkaupum sem og til óbeinnar fjárfestingar, t.d. með lánveitingum. Meginmarkmiðið er að svipað frelsi gildi um fjármagn og almennt þykir sjálfsagt í dag að gildi um viðskipti með vörur og þjónustu.
    Þrátt fyrir frjálslynda stefnu í þessum efnum hafa aðildarríki OECD lagt á það áherslu í samþykktum

sínum að ekki séu fyrir borð bornir almennir öryggishagsmunir þeirra né réttur til að standa við gerða samninga á alþjóðavettvangi.
    Í kjölfar stefnuyfirlýsingar OECD og markvissra rannsókna á löggjöf í aðildarríkjum stofnunarinnar hafa aðildarríkin á undanförnum árum breytt löggjöf sinni og dregið úr takmörkunum á erlendum fjárfestingum. Að sama skapi hefur traust í alþjóðlegum fjárfestingum farið vaxandi.
    Frá árinu 1989 hafa farið fram viðræður á milli fulltrúa EFTA-ríkjanna annars vegar og fulltrúa Evrópubandalagsins hins vegar um myndun sameiginlegs markaðssvæðis ríkjanna, eins og hv. alþingismönnum er kunnugt. Tengist hugmyndin fyrirhuguðum innri markaði Evrópubandalagsins, þar sem hömlur á viðskiptum milli bandalagsríkjanna með vöru, þjónustu og fjármagn skulu úr gildi felldar frá árslokum 1992 að telja og með þeim undantekningum sem kann um að semjast fyrir einstök lönd. Slíkt markaðssvæði, eða evrópska efnahagssvæðið, mundi byggjast á fríverslun með vörur og þjónustu og frjálsum flutningum fólks og fjármagns milli ríkjanna. Aftur legg ég áherslu á að einstök ríki eru þar með fyrirvara á nokkrum sviðum.
    Frjálsum flutningum fólks innan evrópsks efnahagssvæðis, sem hefur verið skammstafað EES, mundi fylgja réttur til þess að festa kaup á fyrirtækjum og húsnæði sem þeim fylgir ásamt íbúðarhúsnæði. Frjálsum flutningi fjármagns fylgir réttur til hvers kyns fjárfestinga yfir landamæri, ef fylgt verður þeim reglum sem nú gilda innan Evrópubandalagsins.
    EFTA-ríkin hafa gert ýmsa fyrirvara gagnvart fullu frelsi í fjárfestingum yfir landamæri og lúta þeir flestir að fjárfestingu í fasteignum og mikilvægum atvinnugreinum eða fyrirtækjum.
    Íslendingar hafa m.a. lagt sérstaka áherslu á bann við fjárfestingum erlendra aðila á sviði fiskveiða og vinnslu á fiski, orkuvinnslu og varðandi fasteignakaup erlendra aðila, m.a. landakaup, sem ég kem að síðar, og ekki tengjast beint einhverjum ákveðnum atvinnurekstri. Hugtakið fiskveiðisvið hefur enn ekki verið skilgreint nánar af hálfu Íslendinga en í viðræðunum hefur því verið lýst yfir að það taki bæði til veiða og vinnslu. Þá hafa Íslendingar lýst því yfir að ef úr samningum verði þurfi þeir þriggja til fimm ára aðlögunartíma frá árslokum 1992 til þess að aðlaga löggjöf um innlánsstofnanir og vátryggingarstarfsemi að væntanlegri löggjöf evrópsks efnahagssvæðis. En í henni felst m.a. að fullt frelsi skal ríkja í slíkum rekstri milli ríkjanna innan EES, þ.e. gagnkvæmur rekstur til eignarhalds á bönkum og rekstur þjónustustarfsemi eins og vátryggingarstarfsemi. Þar hefur verið settur, eins og ég sagði, þessi fyrirvari um aðlögunartíma af hálfu okkar Íslendinga.
    Varðandi fjárfestingu erlendra aðila í fasteignum hefur athygli beinst að reglum Evrópubandalagsins á því sviði en samkvæmt þeim er heimilt að setja ýmsar hömlur á eignar- og afnotarétt að landareignum að því tilskildu að þær mismuni ekki eftir þjóðerni. Þannig er unnt að setja ýmis almenn skilyrði um nýtingu jarða eins og gert er t.d. í íslenskum jarðalögum.
    Ef úr stofnun evrópsks efnahagssvæðis verður má vera að taka þurfi til endurskoðunar síðar einhver þau ákvæði sem hér er lagt til að gildi um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, þ.e. að því er varðar borgara innan evrópsks efnahagssvæðis. Samt sem áður er afar brýnt að lögfesta frumvarpið sem fyrst því að núgildandi reglur eru sundurlausar og ósamstæðar og illa aðgengilegar til samanburðar við það sem erlendis gildir. Auk þess eru engar hömlur á því að slíkar reglur geti gilt gagnvart öðrum löndum heims ef við svo kjósum. Einhverja undantekningu eða breytingu yrði að gera gagnvart ríkjum innan evrópsks efnahagssvæðis. Raunar tel ég nauðsynlegt að samræmdar og skiljanlegar reglur gildi áður en sérstaklega er fjallað um heimildir erlendra aðila til fjárfestinga hér á landi í þeim samningum sem nú fara fram við EES.
    Ég ætla þá, herra forseti, að rekja aðdraganda þessa frumvarps. Alþingi samþykkti 9. maí 1985 þingsályktun þar sem skorað var á ríkisstjórnina að láta fara fram endurskoðun á gildandi lagaákvæðum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi.
    Ákveðið var að fela lögfræðingunum Birni Líndal og Hreini Loftssyni að taka saman skýrslu er hefði að geyma skilgreiningu hugtaksins og greinargerð um hvern þeirra þriggja meginþátta sem efnislega skiptu mestu máli við mörkun heildarstefnu varðandi erlenda fjárfestingu í atvinnurekstri á Íslandi. Skýrslan var lögð fram á 109. löggjafarþingi 1986 -- 1987. Í framhaldi af þeirri skýrslu skipaði ég starfshóp hinn 19. febr. 1986 ,,til þess að samræma lög og reglur sem hér á landi gilda um fjárfestingu erlendra aðila``. Á 110. löggjafarþingi 1987 -- 1988 lagði þáv. forsrh. síðan fram frv. til laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi sem samið var af nefnd undir formennsku Baldurs Guðlaugssonar hæstaréttarlögmanns.
    Í frumvarpinu var tvennt haft að leiðarljósi. Í fyrsta lagi nauðsyn á að samræma lagareglur um heimildir erlendra aðila til að fjárfesta í íslenskum atvinnurekstri, en gildandi ákvæði þar að lútandi eru bæði sundurlaus og ósamstæð eins og ég hef ítarlega bent á. Í öðru lagi var höfð að leiðarljósi sú pólitíska stefnumörkun sem fram kom í starfsáætlun þáv. ríkisstjórnar um markmið endurskoðunar og samræmingar á reglum um erlent fjármagn í íslensku atvinnulífi. Fyrir þessu frumvarpi var hins vegar ekki mælt á Alþingi og lítil umræða hefur því farið fram um efni þess.
    Í málefnasamningi núv. ríkisstjórnar segir m.a. að athafnafrelsi einstaklinga og félaga verði meginregla í atvinnumálum og frjálsræði í milliríkjaviðskiptum. Jafnframt segir, með leyfi forseta:
    ,,Unnið verður að því að endurskoða lög og reglur til þess að búa íslenskum fyrirtækjum starfsskilyrði sem eru sambærileg við það sem samkeppnisaðilar þeirra erlendis njóta.``
    Hinn 7. des. 1989 skipaði ég því nefnd til þess að

yfirfara og endurskoða frv. til laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri á Íslandi sem lagt var fram á 110. löggjafarþingi, eins og ég hef áður nefnt. Í nefndina voru skipaðir Jón Sveinsson, aðstoðarmaður minn, sem var formaður, Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri, Friðrik Sigurðsson framkvæmdastjóri, Heimir Hannesson lögmaður og Ragnar Arnalds alþingismaður.
    Í starfi sínu byggði nefndin eins og fyrr segir á fyrra frumvarpi og upplýsingum í framkomnum skýrslum á Alþingi um fjárfestingu erlendra aðila.
    Við endurskoðun og samræmingu lagaákvæða á þessu sviði koma tvær aðferðir til greina. Annars vegar sú aðferð að leitast við að samræma efnisákvæði hinna einstöku laga, en láta þá skipan haldast eftir sem áður að ákvæði um erlenda fjárfestingu sé að finna á víð og dreif í einstökum lögum. Hin aðferðin felur í sér að sett verði almenn löggjöf um erlenda fjárfestingu þar sem verði að finna meginreglur á þessu sviði og breyta síðan einstökum sérlögum í samræmi við þær meginreglur.
    Nefndin valdi síðari kostinn. Réði þar úrslitum að með því næst betri samræming á efnisreglum, betri yfirsýn yfir gildandi rétt á þessu sviði og betri möguleikar til að fylgjast með erlendri fjárfestingu hér á landi.
    Eins og ég gat um áðan er samhliða frumvarpi þessu flutt fylgifrumvarp sem tekur til breytinga á einstökum lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri og ekki eru í samræmi við þær grundvallarreglur sem frumvarp þetta byggir á. Þetta þarf nauðsynlega að fara saman í gegnum Alþingi og ætla ég, ef forseti leyfir, að lýsa því lítillega hér á eftir þó að það sé ekki komið til umræðu.
    Síðastliðið sumar sendi nefndin mörgum áhuga - og hagsmunaaðilum drög að frumvörpunum tveimur til umsagnar. Bárust ýmsar þarfar athugasemdir sem nefndin hefur tekið tillit til. Ég kem þá að helstu ákvæðum þessa frumvarps.
    Í frumvarpinu er lagt til að aukið samræmi verði tryggt í þeim reglum er um fjárfestingar erlendra aðila gilda og í því skyni hafa verið kannaðar ítarlega þær reglur sem í gildi eru í hinum margvíslegu atvinnugreinum. Þá er í frumvarpinu gerð tilraun til að skilgreina nokkur hugtök sem þýðingu hafa á sviði erlendrar fjárfestingar. Verður þannig að finna á einum stað lagaumgjörð um réttarstöðu erlendra fjárfestingaraðila.
    Frumvarpið byggir á þeirri stefnu að full yfirráð Íslendinga verði tryggð yfir náttúruauðlindum lands og sjávar. Auk þess geymir frumvarpið nokkrar aðrar takmarkanir á erlendum fjárfestingum hér á landi. Helstu takmarkanir eru á sviði fiskveiða, fiskvinnslu og vegna virkjunarréttinda vatnsfalla og jarðhita. Þá eru skorður reistar við aðild erlendra aðila að viðskiptabönkum, flugrekstri og til kaupa á fasteignum hér á landi. Auk þess er erlend fjárfesting í vissum tilvikum háð leyfi. Með frumvarpi þessu er þó almennt lagt til að um verulega rýmkun verði að ræða varðandi rétt erlendra aðila til fjárfestingar í atvinnurekstri hér á

landi. Jafnframt er lögð áhersla á eftirlit með erlendri fjárfestingu og þeir erlendir aðilar, sem hér fjárfesta, lúti í einu og öllu íslenskum lögum, þar á meðal skattalögum og lögsögu íslenskra dómstóla.
    Með því frumvarpi, sem hér liggur fyrir, er stigið mikilvægt skref í þá átt að erlent áhættufé geti í ríkara mæli komið í staðinn fyrir erlent lánsfé við fjármögnun atvinnurekstrar hér á landi. Frumvarpið mun því, ef að lögum verður, hafa mikilvæg áhrif á vaxtar - og þróunarskilyrði atvinnufyrirtækja innan fjölmargra atvinnugeina. Auknir möguleikar innlendra fyrirtækja til samvinnu við erlenda aðila, einkum í framleiðslu - og útflutningsgreinum, geta skapað ný tækifæri sem leitt geta til aukinnar verðmætasköpunar innan lands og þar af leiðandi til aukinnar hagsældar þjóðarbúsins í heild, svo sem vegna aukinna skatttekna, hærri vinnulauna, aukinnar þekkingar og lækkaðs verðlags svo að eitthvað sé nefnt. Er og vert að hafa hugfast í þessu sambandi að fáar þjóðir eru svo háðar utanríkisverslun sem við Íslendingar. Einnig fer í vöxt að íslenskir aðilar reki og taki þátt í atvinnufyrirtækjum í öðrum löndum.
    Á hitt ber þó jafnframt að líta að þótt heimildir erlendra aðila til að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi verði rýmkaðar er ekki þar með sagt að vænta megi mikils áhuga erlendra aðila. Hér eru ekki í boði neinir sérstakir fjárfestingarhvatar eins og víða annars staðar, heimamarkaðurinn er lítill og fjarlægðir frá öðrum mörkuðum verulegar. Þó er það sannfæring mín að áhugi erlendra aðila til að fjárfesta hérlendis muni fara vaxandi, m.a. eftir því sem orka hækkar í verði og sömuleiðis á ýmsum nýjum sviðum, ef ég má orða það svo, sem tengjast gæðum, umhverfinu, hreinleikanum, þekkingu, vel menntuðu fólki o.s.frv., ef rétt er haldið á málum gagnvart slíkum oft smærri fyrirtækjum og ekki einblínt á þau sem stærst eru.
    Verði frumvarp þetta að lögum ættu þó a.m.k. ekki lagalegir óvissuþættir og hindranir að þurfa að standa í vegi fyrir fjárfestingu erlendra aðila í sama mæli og til þessa, sé áhugi þeirra á annað borð fyrir hendi.
    Þá ætla ég að víkja að einstökum greinum frumvarpsins. Í 1. gr. er gildissvið frumvarpsins afmarkað. Samkvæmt greininni eiga lögin að gilda um fjárfestingu erlendra aðila, sbr. nánari skilgreiningu á fjárfestingu og erlendum aðilum í 2. gr., en ekki um venjulegar lánveitingar eða aðra fjármagnsflutninga erlendra aðila til landsins sem ekki tengjast eignar - eða rekstraraðild þeirra að atvinnurekstri hér á landi. Þá tekur frumvarpið einnig til fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri, en ekki til annarrar hugsanlegrar fjárfestingar erlendra aðila hér á landi. Frumvarpið gildir um hvers kyns fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi, nema annað leiði af sérákvæðum annarra laga eða reglum settum samkvæmt þeim. Með orðunum ,,hér á landi`` er átt við í íslenskri lögsögu.
    Í 2. gr. eru helstu hugtökin skilgreind. Eins árs búseta einstaklings hér á landi og heimili lögaðila eru lögð til grundvallar varðandi skilgreiningu á því hver teljist vera erlendur aðili í skilningi frumvarpsins.

Þannig telst t.d. íslenskur ríkisborgari sem á lögheimili erlendis vera erlendur aðili. Er þetta í samræmi við þá stefnu sem fylgt er hjá Efnahags - og framfarastofnuninni þar sem áhersla er lögð á búsetuna en ekki þjóðernið. Til erlends aðila telst þó íslenskt atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum, en þá er átt við að erlendur aðili eða aðilar eigi meiri hluta fyrirtækisins eða fari með meiri hluta atkvæðisréttar í því þótt minnihlutaeigandi sé eða hafi með öðrum hætti, svo sem með stjórnunarsamningi, raunveruleg yfirráð yfir viðkomandi atvinnufyrirtæki. Með því að skilgreina íslenskt atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum sem erlent er leitast við að girða fyrir að erlendur aðili geti farið bakdyramegin inn á svið þar sem fjárfestingu erlendra aðila eru skorður settar. Ef svo væri ekki gæti erlendur aðili fyrst stofnað eða fjárfest í atvinnufyrirtæki hér á landi sem þar með teldist íslenskur aðili og það fyrirtæki síðan fjárfest á öðrum umræddum sviðum eins og í sjávarútvegi. Sé hins vegar um að ræða íslenskt atvinnufyrirtæki sem íslenskur aðili eða aðilar hafa yfirráðarétt yfir þótt erlendir aðilar eigi jafnframt hlut í því eru ákvæði frumvarpsins ekki því til fyrirstöðu að slíkt fyrirtæki fjárfesti í öðrum atvinnufyrirtækjum hér á landi.
    Í 3. gr. kemur fram sú meginstefna frumvarpsins að erlendum aðilum sé heimilt að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi með þeim takmörkunum einum sem af öðrum ákvæðum frumvarpsins og ákvæðum sérlaga leiðir og að uppfylltum öðrum skilyrðum og að fengnum tilskildum leyfum lögum samkvæmt. Af ákvæðum ýmissa annarra laga leiðir að á sumum sviðum er í reynd útilokað fyrir erlenda aðila að fjárfesta. Sem dæmi má nefna að samkvæmt áfengislögum, póstlögum og lögum um Áburðarverksmiðju ríkisins hafa tiltekin ríkisfyrirtæki einkarétt til starfrækslu á viðkomandi sviðum. Fjárfesting erlendra aðila er þó með sama hætti og fjárfesting íslenskra aðila háð því að almennum lagaskilyrðum sé fullnægt, enda verða erlendir aðilar sem reka atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni sem og íslensk atvinnufyrirtæki með erlendri eignaraðild í einu og öllu háð íslenskum lögum og reglum og lúta lögsögu íslenskra dómstóla að því er varðar starfsemina hér á landi eins og ég hef reyndar þegar nefnt.
    Í niðurlagi greinarinnar er settur sá almenni fyrirvari að íslenskir aðilar njóti ekki lakari réttar til fjárfestingar í heimaríki þess aðila sem hér óskar að fjárfesta.
    Í 4. gr. frumvarpsins eru ýmsar veigamiklar undantekningar frá meginreglu 3. gr. Þær takmarkanir, sem þar eru ákveðnar, eru af tvennum toga. Í fyrsta lagi eru lagðar fyrir fram hömlur við fjárfestingu erlendra aðila á tilteknum sviðum. Í öðru lagi verður tiltekin fjárfesting háð leyfi ráðherra. Og í þriðja lagi getur ráðherra í sérstökum tilvikum stöðvað tiltekna erlenda fjárfestingu.
    Verður nú vikið nánar að sérhverjum lið 4. gr.
    Í 1. tölul. er vísað til laga nr. 33/1922, um rétt til fiskveiða í landhelgi, að því er varðar efnisregluna um það hverjir stunda megi fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi

Íslands.
    Samkvæmt þessum lögum mega íslenskir ríkisborgarar einir reka fiskveiðar í landhelgi við Ísland og má aðeins hafa íslenska báta eða skip til veiðanna. Tekið er fram að íslenskir kallist þeir bátar eða skip sem íslenskir ríkisborgarar eiga einir. Þrátt fyrir þessa meginreglu mega erlendir ríkisborgarar skv. 11. gr. laga nr. 33/1922 eiga í hlutafélögum sem fiskveiðar stunda í landhelgi, svo lengi sem meira en helmingur hlutafjárins er eign íslenskra ríkisborgara, félagið á heimili á Íslandi og stjórn þess er skipuð íslenskum ríkisborgurum, enda sé a.m.k. helmingur þeirra búsettur hér á landi.
    Í a - lið 1. gr. fylgifrumvarpsins er gerð tillaga um nokkrar breytingar á lögum nr. 33/1922 og eru þær mikilvægar. Eru þessar breytingar þríþættar. Í fyrsta lagi er lagt til að úr gildi verði numin heimild erlendra aðila til að eiga allt að helmingi hlutafjár í útgerðarhlutafélögum. Er með því leitast við að laga löggjöfina að þeirri stefnumörkun að þrátt fyrir rýmkun á heimildum erlendra aðila til að fjárfesta í íslenskum atvinnurekstri skuli tryggt að ekki aðrir en íslenskir aðilar nái tökum á náttúruauðlindum lands og sjávar. Þetta er því mjög mikilvæg breyting gagnvart eignarheimildum í sjávarútvegi. Í 1. tölul. er því skýrt tekið fram að heimild til fiskveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands er bundin við íslenska ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi og lögaðila sem eiga heimili hér og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi. Í öðru lagi er með b - lið 1. gr. fylgifrumvarpsins gerð tillaga um þá breytingu á lögum nr. 33/1922, að í stað þess að miða við að þeir bátar og þau skip teljist íslensk í skilningi laganna sem íslenskir ríkisborgarar einir eiga sé við það miðað að þeir bátar og þau skip teljist íslensk sem skráð eru hér á landi. Ræðst það þá af skilyrðum laga um skráningu skipa á hverjum tíma, sbr. 24. gr. fylgifrumvarpsins. Í þriðja lagi er lagt til að niður falli 8. og 11. gr. úr lögum nr. 33/1922, bæði vegna þess að tillaga er gerð um að niður verði felld heimild erlendra aðila til eignaraðildar að útgerðarfélögum og vegna þess að þau hafa gefið tilefni til lagaóvissu um það hvort erlendir aðilar mættu reka eða eiga hlut í fiskvinnslu hér á landi.
    Í 2. tölul. er lagt til að öðrum en íslenskum ríkisborgurum sem eiga lögheimili hér á landi og lögaðilum sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis skuli óheimilt að eiga og reka fyrirtæki til vinnslu sjávarafurða. Í greininni er ítarlega lýst hvað felst í orðunum ,,vinnsla sjávarafurða``.
    Fiskiðnaður Íslendinga er viðkvæm atvinnugrein í harðri erlendri samkeppni og hún byggist á fullnýttum auðlindum sjávar. Því þykir rétt að setja fjárfestingarheimildum erlendra aðila í vinnslu sjávarafurða nokkrar skorður.
    Samkvæmt skilgreiningu greinarinnar á ,,vinnslu sjávarafurða`` er erlendum aðilum hins vegar heimilt að taka þátt í atvinnurekstri á sviði útflutnings á ferskum fiski og vinnslu í neytendaumbúðir svo nokkuð sé

nefnt.
    Þetta er einnig mjög mikilvæg grein og ég vil aðeins undirstrika það, af því að mér fannst það ekki koma nógu glöggt fram, að öðrum en íslenskum ríkisborgurum sem eiga lögheimili hér á landi er óheimilt að reka hér frumvinnslu í sjávarútvegi sem er raunar skilgreint sem vinnsla sem forðar fiski frá skemmdum.
    Í 3. tölul. er lagt til að virkjunarréttur vatnsfalla og jarðhita annarra en til heimilisnota verði eingöngu bundinn við íslenska ríkið, sveitarfélög, íslenska ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi og íslenska lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að fullu í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér. Erlendir aðilar eiga þess því ekki kost að fjárfesta í atvinnufyrirtækjum á þessu sviði.
    Samkvæmt 4. tölul. er eignaraðild erlendra aðila í íslensku atvinnufyrirtæki sem stundar flugrekstur hér á landi bundin við 49% að hámarki. Nauðsynlegt þykir a.m.k. fyrst um sinn að tryggja full yfirráð íslenskra aðila í flugrekstri hérlendis og milli landa, enda er sá þáttur þýðingarmikill í eðlilegum og nauðsynlegum flutningum bæði innan lands og til og frá landinu. Sveiflur í flugrekstri geta verið miklar og því nauðsynlegt að stjórnvöld geti ráðið því hversu mikil þátttaka erlendra aðila verður í einstökum fyrirtækjum á þessu sviði. Sömu sjónarmið eiga hins vegar ekki að öllu leyti við hvað farmflutninga á sjó varðar enda sá rekstur yfirleitt stöðugri og ekki háður eins miklum sveiflum. Takmarkanir á því sviði eru því ekki lagðar til í frumvarpi þessu.
    Í 5. tölul. er lagt til að aflétt sé hinu algjöra banni viðskiptabankalaganna við erlendri eignaraðild, en samanlögð hlutafjáreign erlendra aðila í hlutafélagsbanka megi þó á hverjum tíma ekki vera meiri en 25% hlutafjár hlutafélagsbankans.
    Sú takmörkun, sem í töluliðnum felst, tekur einvörðungu til hlutafélagsbanka. Hún nær hins vegar ekki til annarra fyrirtækja á íslenskum fjármagnsmarkaði, svo sem verðbréfafyrirtækja, fjárfestingarfyrirtækja, fjármögnunarleiga og greiðslukortafyrirtækja. Samkvæmt frumvarpinu gæti aðild erlendra aðila að slíkum fyrirtækjum á hinn bóginn takmarkast af ákvæðum annarra töluliða 4. gr.
     Til viðbótar framangreindu er gert ráð fyrir því að erlendum hlutafélagsbönkum verði heimilt að setja upp útibú hér á landi. Rétt þykir að miða slíka heimild við 1. jan. 1992 svo að hæfilegur tími gefist til aðlögunar. Einnig þarf fyrir þann tíma að breyta viðskiptabankalögum í þessa átt. Í fylgifrumvarpi er ekki gert ráð fyrir slíkri breytingu.
    Hér er því um verulega rýmkun á starfsemi erlendra banka að ræða hér á landi þó að rétt þyki að takmarka fyrst um sinn eignaraðild þeirra að innlendum hlutafélagsbönkum. En að sjálfsögðu geta útibú frá sterkum erlendum bönkum verið eins mikilvæg á íslenskum markaði eða jafnvel mikilvægari en aðild slíkra banka að innlendum bönkum.
    Í 6. tölul. er lagt til að sérstakt leyfi viðskrh. þurfi til þess að erlent ríki eða fyrirtæki í eigu erlends ríkis geti og megi fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi. Fyrir þessari skipan eru þau rök að áhugi erlends ríkis til að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi getur stafað af öðru en voninni um fjárhagslegan ávinning af slíkri fjárfestingu. Þykir því rétt að tækifæri gefist til að skoða hvert tilvik sérstaklega.
    Í 7. tölul. er sleginn ákveðinn varnagli að því er varðar umfang fjárfestinga einstakra erlendra aðila hér á landi og í heild.
    Sérstakt leyfi viðskrh. þarf til þess að heildarfjárfesting erlends aðila eða samanlögð fjárfesting fjárhagslega tengdra aðila geti farið fram úr 200 millj. kr. á ári hverju. Gildir þá einu hvort fyrirhuguð fjárfesting felur í sér meirihlutaeign eða minnihlutaeign í viðkomandi atvinnufyrirtæki. Ekki er ástæða til að ætla að oft muni að vænta erlendrar fjárfestingar af þeirri stærðargráðu sem í töluliðnum greinir nema í sérstökum tilfellum sem þá er um fjallað í sérstökum lögum eins og orkufrekan iðnað. Hér er á því byggt að eðlilegt sé að gæta vissrar varfærni þegar stærri fjárfesting er annars vegar.
    Þá er jafnframt talið eðlilegt a.m.k. fyrst í stað að binda fjárfestingu erlendra aðila við 25% að hámarki í heild í tilteknum atvinnugreinum, þ.e. í iðnaði, öðrum en orkufrekum iðnaði, verslun og þjónustu, samgöngurekstri og fiskeldi. Ástæðulaust er að óttast um hlut erlendra aðila í sjávarútvegi, m.a. vegna þeirra takmarkana sem fram koma í 1. og 2. tölul. 4. gr. og landbúnaði vegna þeirra takmarkana sem fram koma í lögum um landbúnaðarmál. Með heildarfjárfestingu er átt við áætlaða fjárfestingu í viðkomandi atvinnugrein samkvæmt mati Þjóðhagsstofnunar hverju sinni.
    Í 8. tölul. er kveðið á um það hvernig með skuli fara ef erlendur aðili vill reka atvinnustarfsemi hér á landi í eigin nafni, en ekki með aðild að íslensku atvinnufyrirtæki. Greint er á milli þess hvort um er að ræða erlendan einstakling, erlent hlutafélag eða annan erlendan lögaðila.
    Í 1. mgr. 9. tölul. er tekið fram að erlendur aðili megi öðlast eignarréttindi og afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni enda sé farið að lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19/1966. Samkvæmt þeim lögum þarf sérstakt leyfi dómsmrh. til þess að erlendir aðilar eða íslenskir lögaðilar með erlendri félagsaðild eða eignaraðild umfram tiltekið eignarhlutfall geti eignast eða fengið afnotarétt af fasteign. Þetta er afar óþjált og að mörgu leyti óeðlileg skipan þegar í hlut eiga aðilar sem rétt hafa til að stunda atvinnustarfsemi hér á landi og um er að ræða eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í viðkomandi atvinnustarfsemi og er því lagt til að þetta verði afnumið.
    Í 8. gr. fylgifrv. er því lögð fram sú breyting í fyrsta lagi að lögheimili á Íslandi samfellt í a.m.k. fimm ár nægi til þess að geta öðlast eignarrétt eða afnotarétt á fasteignum hér á landi. Er lögheimili hérlendis í samfellt fimm ár lagt að jöfnu við ríkisborgararétt í þessu efni. Í öðru lagi getur ráðherra veitt leyfi þótt um sé að ræða aðila sem ekki fullnægja almennum skilyrðum ef viðkomandi aðili hefur rétt til

að stunda atvinnurekstur hér á landi og um er að ræða eignarrétt eða afnotarétt á fasteign til eigin nota og/eða til notkunar í atvinnustarfsemi, enda fylgi fasteigninni einungis venjuleg lóðarréttindi. Eftir sem áður þarf leyfi dómsmrh. til þess að framangreindur aðili geti eignast eða nýtt önnur fasteignaréttindi svo sem vatns- og veiðiréttindi. Með venjulegum lóðarréttindum er átt við leigu- eða eignarlóðir sem opinberir aðilar, sveitarfélög eða einkaaðilar láta af hendi undir húseignir til einkanota eða atvinnurekstrar.
    Þar sem rísa kunna álitamál um það hvenær fasteignarréttindi eru undanþegin leyfi á grundvelli þessa ákvæðis er kveðið svo á að öll heimildarskjöl vegna eignar- og afnotaréttinda erlendra aðila hér á landi skuli lögð fyrir dómsmrn. Öðlast gerningurinn ekki gildi fyrr en ráðuneytið hefur staðfest hann með áliti sínu. Er þessi aðferð jafnframt nauðsynleg til þess að halda gott yfirlit yfir fjárfestingar erlendra aðila hér á landi hvað fasteignir og réttindi þeim tengd varðar.
    Gera verður jafnframt ráð fyrir því að erlendir aðilar geti eignast fasteignir og önnur eignarréttindi á uppboði eða við nauðasamninga sem veðhafi. Eignarréttindi, sem erlendum aðila er óheimilt að eiga, geta þannig komist í hans hendur. Í 2. mgr. 9. tölul. er því tekið fram að við slíkar aðstæður skuli hinn erlendi aðili selja eignina svo fljótt sem verða má og eigi síðar en tólf mánuðum eftir að eignin komst í hans eigu. Með öðrum eignarréttindum er átt við eignir og réttindi sem upp eru talin í 4. gr. frumvarpsins og takmarkanir eru bundnar við.
    Í 1. mgr. 5. gr. er lagt til að öll erlend fjárfesting verði tilkynningarskyld til gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands jafnskjótt og samningur eða ákvarðanir þar að lútandi liggja fyrir.
    Í 2. mgr. 5. gr. er lögð sú skylda á Seðlabanka Íslands að birta opinberlega fyrri hluta hvers árs upplýsingar um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hér á landi næsta ár á undan svo og upplýsingar um heildarfjárfestingu erlendra aðila hérlendis eftir atvinnugreinum.
    Í 3. mgr. 5. gr. er tekið fram að gjaldeyriseftirlitið hafi sams konar rétt til upplýsingaöflunar og athugana vegna fjárfestingar erlendra aðila og það hefur samkvæmt lögum um skipan gjaldeyris - og viðskiptamála.
    Í 6. og 7. gr. frumvarpsins er lagt til að tekin verði af öll tvímæli í lögum um rétt erlends fjárfestingaraðila til innflutnings á erlendu fjármagni vegna fjárfestingar og yfirfærslu þess í íslenskar krónur, um tilkynningarskyldu slíkra fjármagnsflutninga og um rétt aðila til að flytja arð og söluandvirði eða annað endurgreiðsluverð úr landi að nýju.
    Í 8. gr. frumvarpsins er sett fram sú meginregla að framkvæmdastjórar og meiri hluti stjórnarmanna í íslenskum atvinnufyrirtækjum skuli eiga lögheimili hér á landi óháð eignarhlut, atkvæðisrétti eða öðrum yfirráðum erlendra aðila. Viðskrh. getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði.
    Samkvæmt 9. gr. mun viðskrh. fara með leyfisveitingar og annast eftirlit með framkvæmd laganna ef

frumvarpið verður að lögum, að svo miklu leyti sem tiltekið eftirlit eða leyfisveiting er ekki samkvæmt ákvæðum frumvarpsins beinlínis falið öðrum. Öll rök hníga að því að eftirlit með hvers kyns erlendri fjárfestingu, leyfisveitingar og vald til að stöðva tiltekna erlenda fjárfestingu heyri undir einn ráðherra þegar ein fjárfestingarlög koma í stað ákvæða í mörgum og mismunandi lögum. Með því að gjaldeyris - og viðskiptamál falla undir viðskrh. er lagt til að hann fari með yfirstjórn mála sem varða erlenda fjárfestingu.
    Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. er lagt til að viðskrh. geti gripið inn í og bannað erlendum aðila að fjárfesta í atvinnurekstri hér á landi ef viðkomandi aðili hefur verið sviptur réttindum til að stunda atvinnurekstur með dómi í öðru ríki. Sömu heimild hefur viðskrh. ef íslenskir aðilar njóta ekki sambærilegra réttinda til fjárfestinga í heima - eða upprunaríki hins erlenda aðila.
    Í 1. mgr. 10. gr. er lagt til að sérstök nefnd, nefnd um erlenda fjárfestingu, verði viðskrh. til ráðuneytis um leyfisveitingar samkvæmt frumvarpinu og umsagnaraðili um einstök mál. Lagt er til að nefndin verði skipuð fimm mönnum kosnum hlutfallskosningu í sameinuðu Alþingi eftir hverjar almennar þingkosningar. Á sama hátt skulu kosnir jafnmargir varamenn. Viðskrh. skipar síðan formann og varaformann úr hópi hinna þingkjörnu nefndarmanna.
    Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. þarf nefndin að hafa komist að þeirri niðurstöðu að nánar tilgreind skilyrði séu fyrir hendi til þess að viðskrh. geti stöðvað tiltekna erlenda fjárfestingu. Stöðva má tiltekna fjárfestingu ef hún er talin ógna öryggi landsins, skerða verulega samkeppni fyrirtækja í viðkomandi atvinnugrein eða ef hún er á annan hátt til þess fallin að hafa óæskileg áhrif á atvinnulíf í landinu. Þessu ákvæði er ætlað að vera ákveðinn öryggisventill vegna fjárfestingar erlendra aðila sem hættuleg kann að þykja eða óæskileg, en er hvorki bönnuð né háð leyfi ráðherra samkvæmt ákvæðum laga. Ógnun við öryggi landsins getur bæði falið í sér ógnun við innra og ytra öryggi þess. Með verulegri skerðingu á samkeppni fyrirtækja í viðkomandi atvinnugrein er fyrst og fremst átt við tilvik sem ætla má að gangi þvert á löggjöf um auðhringa og hringamyndanir, ef sett verða. Lagt er til að viðskrh. geti því aðeins stöðvað erlenda fjárfestingu á grundvelli þessa töluliðar að fyrir liggi álit nefndar um erlenda fjárfestingu, um að skilyrði fyrir beitingu stöðvunarheimildar séu fyrir hendi.
    Til þess að erlendir aðilar þurfi ekki að vera lengi í óvissu um það hvort tiltekin fjárfesting nær fram að ganga er tekið fram að það sé skilyrði fyrir stöðvun fjárfestingar að ákvörðun þar að lútandi sé kunngerð innan átta vikna frá því að réttum stjórnvöldum berst tilkynning um hlutaðeigandi fjárfestingu.
    Samkvæmt 11. gr. er viðskrh. heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna.
    Í 12. gr. er lagt til að brot gegn ákvæðum laganna og reglum settum samkvæmt þeim varði sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
    Meðal brota gegn lögunum má nefna að ekki sé

tilkynnt um erlenda fjárfestingu eða fjármagnsflutninga vegna hennar, að ekki séu virtar fjárfestingartakmarkanir 4. gr. og að leyfis viðskrh. sé ekki leitað til erlendrar fjárfestingar þegar skylt er. Refsiábyrgðin getur eftir atvikum og almennum reglum ýmist legið hjá erlendum og/eða innlendum aðilum.
    Ég ætla, með leyfi herra forseta, að hlaupa yfir fylgifrv., ef því er ekki andmælt, það tekur ekki langan tíma enda hef ég víða komið inn á ákvæði þess og þarf því ekki að flytja um það sérstaka framsögu þegar það verður tekið fyrir.
    Eins og ég hef áður sagt þá er þetta fylgifrv. flutt til að breyta ýmsum ákvæðum í hinum ýmsu gildandi lögum um erlenda fjárfestingu.
    Breytingar frumvarpsins miða að því að rýmka ákvæði gildandi laga hvað snertir fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri í samræmi við meginreglurnar í því aðalfrumvarpi sem ég hef þegar mælt fyrir. Er í mörgum tilfellum þá vísað til aðalfrumvarpsins og raðað upp í aldursröð laga.
    Meginhugsun frumvarpsins er sú að lögheimili erlends ríkisborgara í eitt ár hér á landi er lagt að jöfnu við íslenskan ríkisborgararétt. Fimm ára regla er þó sett hvað varðar eignarhald og afnotarétt á fasteignum þó víkja megi frá henni í undantekningartilvikum.
    Erlendur ríkisborgari, sem er búsettur hér á landi, er því ekki erlendur aðili í skilningi frumvarpsins. Þar sem búseta, en ekki ríkisfang, er samkvæmt frumvarpinu lögð til grundvallar varðandi skilgreiningu á því hvort einstaklingur telst erlendur aðili eða ekki er rökrétt að einstaklingar, sem búsettir eru hér á landi, sitji að því er varðar rétt til að stunda atvinnustarfsemi hér á landi við sama borð óháð ríkisfangi. Þessu er þó í reynd mjög misjafnlega háttað. Stundum er íslenskur ríkisborgararéttur einstaklings óundanþægt skilyrði fyrir því að hann megi stunda tiltekna atvinnustarfsemi þótt hún sé ekki háð leyfi eða skilyrði fyrir því að hann geti fengið löggildingu eða leyfi til að stunda viðkomandi starfsemi. Í öðrum tilfellum er í gildandi lögum krafist íslensks ríkisfangs, en það skilyrði samt undanþægt, sbr. t.d. skilyrði fyrir iðnaðarleyfi og verslunarleyfi. Loks er um að ræða ýmis svið þar sem það er ekki skilyrði fyrir rétti til sjálfstæðra starfa eða starfrækslu að viðkomandi einstaklingur eða leyfishafi sé íslenskur ríkisborgari. Nefna má leyfi til reksturs ferðaskrifstofu, leyfi til reksturs veitinga - eða gististaðar og skilyrði til að starfa sem læknir, tannlæknir, verkfræðingur, tæknifræðingur, löggiltur endurskoðandi og sálfræðingur. Þannig eru gildandi lög afar breytileg og jafnvel ekki í fullu samræmi.
    Í þessu frumvarpi er hvorki lagt til að ríkisfangsskilyrði verði afnumin í þeim fjölmörgu lögum þar sem þau er nú að finna né lagt til að þau verði tekin upp þar sem þau eru ekki gerð, enda má vera að misræmi það sem nú ríkir styðjist stundum við gild sjónarmið. En í 2. -- 4., 6., 9., 11., 12., 13., 14., 15., 17., 18., 19., 21., 23., 25., 26. og 27. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um að við þau lög, sem þar eru greind, bætist ákvæði þess efnis að erlendur ríkisborgari, sem á lögheimili hér á landi samkvæmt skilgreiningu laga um lögheimili, nr. 21 5. maí 1990, og hefur átt það í a.m.k. eitt ár, skuli vera undanþeginn skilyrði því um íslenskt ríkisfang sem kann að vera annars staðar að finna í lögum. Þótt erlendur ríkisborgari, sem hér er búsettur, verði þannig í sumum tilvikum undanþeginn ríkisfangsskilyrði þarf hann að sjálfsögðu eftir sem áður að fullnægja öðrum lagaskilyrðum sem er að finna í lögum.
    Ég hef áður lýst þeim sjónarmiðum sem liggja að baki 1. gr. og 5. gr. frv. og varða fiskveiðar og fiskvinnslu, svo og 8. gr. er tekur til eignar- og afnotaréttar á fasteignum. Þá er lagt til að ýmsum lögum verði framvegis vísað til fjárfestingarlaganna hvað erlenda fjárfestingu snertir. Má þar nefna 10., 16., 20. og 22. gr. í þessu efni.
    Sérstök ástæða er hins vegar til að vekja athygli á 7. og 24. gr. er fjalla um skrásetningu skipa og loftfara. Í 7. gr. er lögð til sú breyting að rétt til að skrásetja eigin loftfar hér á landi sem íslenskt loftfar hafa íslenskir ríkisborgarar með lögheimili hér á landi eða íslenskir lögaðilar sem eiga heimili hér á landi. Með heimili lögaðila hér á landi er átt við fyrirtæki sem skráð er hérlendis og á hér varnarþing. Íslenskur lögaðili getur hins vegar verið í eigu erlendra aðila.
    Tekið er fram að réttur til skrásetningar loftfars hér á landi sé þó háður ákvæðum laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri. Samkvæmt 4. tölul. 4. gr. aðalfrumvarpsins er eignaraðild erlendra aðila í íslensku atvinnufyrirtæki sem stundar flugrekstur hér á landi bundin við 49% að hámarki. Loftfar í eigu erlends aðila, sem ætti meira en 49%, fengist því ekki skráð hér á landi.
    Í 1. mgr. 24. gr. er lögð til sama breyting hvað varðar skráningu skipa og fram kemur í 7. gr. um skráningu loftfara.
    Tekið er skýrt fram í 2. mgr. 24. gr. að óheimilt er þó að skrá fiskiskip hér á landi, nema þau séu í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi og lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti eign íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi. Eru þessi sjónarmið í samræmi við þær meginhugmyndir sem fram koma í aðalfrumvarpinu, um að standa beri vörð um fiskveiðar og helstu auðlindir þjóðarinnar.
    Herra forseti. Ég hef talið nauðsynlegt að flytja um þetta frv. allítarlega framsögu og m.a. að koma hér með allumfangsmiklar lagaskýringar. Hér er um verulegar breytingar á gildandi lögum að ræða, mjög mikilvægar breytingar og nauðsynlegt að skýrt komi fram hér í meðferð Alþingis hvernig þessar breytingar eru túlkaðar. Ég veit að um þetta frv. eru skiptar skoðanir. Þó hefur verið leitast við að rata meðalveginn. Sumir telja eflaust að hér sé ekki nægilega opnað fyrir erlenda fjárfestingu og æskilegt að fá meiri aðild erlendra að atvinnurekstri hér á landi. Aðrir munu telja of langt gengið. Ég tel að skynsamlegt sé að fara nokkuð rólega af stað og rýmka þá heldur síðar þegar reynsla fæst. Ég vek athygli á því að í fjölmörgum greinum er reyndar rýmkað mjög.
    Ég hef sagt í minni framsögu að það er afar nauðsynlegt að þessi frv. verði að lögum áður en lokaumræða um evrópskt efnahagssvæði verður. Eins og íslensk lög eru nú og eins og glöggt hefur komið fram af því sem ég hef farið með eru þau afar óskýr og reyndar erfitt að gera grein fyrir takmörkunum þeirra og a.m.k. erfitt að semja um þær undanþágur sem við viljum hafa. Ég sagði líka áðan að það kann að vera að sumu þurfi að breyta. Ég er hins vegar sannfærður um að þau ákvæði sem hér eru og varða okkar meginfyrirvara, þ.e. að halda náttúruauðlindum landsins í eigin höndum, munu halda. Þau munu halda m.a. af þeirri einföldu ástæðu að fiskveiðar og frumvinnsla á fiski, og reyndar fiskur, er ekki í samningum um evrópskt efnahagssvæði. Um það hyggjumst við gera sérstakan samning, annaðhvort sem ákvæði við samninginn um evrópskt efnahagssvæði eða sérsamning okkar Íslendinga. Það hefur engin krafa komið fram um að heimiluð verði erlend fjárfesting í fiskveiðum hér á landi. Sama hygg ég að megi örugglega segja um orkulindir. Þar gilda almennar reglur. Það er eingöngu ríkisvaldið sem hefur rétt til að virkja og því er ekki mótmælt. Borgurum hins evrópska efnahagssvæðis er ekki mismunað.
    Svo er jafnframt eins og kom fram gert ráð fyrir því í okkar fyrirvörum að aðlögunartími fáist eins og t.d. í fjármagnsflutningum og ýmiss konar þjónustustarfsemi á því sviði. Það er frekar í hinum almennu iðngreinum sem settar eru takmarkanir, eins og t.d. um eins árs dvöl hér á landi sem kann að vera að einhver ágreiningur verði um í þeim samningum sem ég hef hér nefnt.
    Ég vil svo, herra forseti, leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. fjh. - og viðskn.