Mannanöfn
Þriðjudaginn 05. febrúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í athugasemdum með frv. sendi dómsmrn. inn athugasemdir við frv. þetta um það bil sem það var á lokastigi við meðferð í ríkisstjórn og þess vegna taldi ég að það væri skylt að athugasemdir dómsmrn. kæmust á framfæri við hv. Alþingi. Og svo varð. Menntmn. Ed. fjallaði um þessar athugasemdir allar og að sjálfsögðu lét ég málið í hendur þingsins, þar á svona mál að vera, og niðurstaðan varð sú sem fram kemur í því þingskjali sem hér liggur fyrir til umræðu eftir meðferð í hv. Ed.
    Það er auðvitað sjálfsagt að líta á þessi mál nánar í þessari deild eða menntmn. hennar þegar málið kemur til meðferðar. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það takist að ljúka þessu máli á þessu þingi. Mannanafnalögin frá 1925 eru gölluð. Það hefur ekki verið unnt að framkvæma þau og ég vænti þess að hv. nefnd setjist yfir málið og ég geri ráð fyrir því satt að segja að hún muni komast að svipaðri niðurstöðu og efrideildarnefndin. Eitthvað af athugasemdum dómsmrn. er nú þannig að ég segi fyrir mig að ég á mjög erfitt með að fallast á þær eins og athugasemdir um það að beita skuli dagsektum í þessu efni. Ég er ekki sektartrúar í þessu efni frekar en öðrum.
    Sú athugasemd, sem fram kom hjá hv. þm. Sigrúnu Helgadóttur ( SP: Dagsektir eru í 23. gr. frv.) Já, eins og það er. Sú athugasemd, sem fram kom frá hv. þm. Sigrúnu Helgadóttur um tvö kenninöfn, hefur ekki komið fram áður. Mér finnst sjálfsagt að menn ræði það en ég er nú ekki alveg viss um að þessi aðferð, þegar menn hafa verið að kenna sig til beggja foreldra sinna, ég er ekki viss um að hún hafi nú verið beint falleg, eða þjál skulum við segja frekar, í öllum tilvikum. A.m.k. orkar hún tvímælis, en sjálfsagt er að skoða þetta í nefndinni, þar sem ég geri ráð fyrir því að báðir hv. þm. eigi sæti, ef ég man rétt, og sömuleiðis þetta dagsektamál, mér finnst sjálfsagt að skoða það bara nánar. Ég vænti þess að málið fái góðar undirtektir í þessari nefnd eins og var í menntmn. hv. Ed.