Endurgreiðsla á gjaldi af erlendum lánum
Miðvikudaginn 06. febrúar 1991


     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér talaði áðan hv. 2. þm. Norðurl. e. sem, eins og ég skildi orð hans, er einn megnugur þess að vera þingmaður Akureyringa. Getur verið að rétt sé, en það kemur þá væntanlega í ljós innan fárra mánaða ef svo er.
    Ástæða þess að ég óska eftir að taka hér til máls er sú að ég vil taka undir með hv. 5. þm. Reykv. þegar hann sagði að með endurgreiðslu á skattinum sem hér um ræðir yrði stigið of lítið skref til þess að bjarga fjárhagsmálum viðkomandi fyrirtækis, Slippstöðvarinnar á Akureyri sem hér um ræðir fyrst og fremst, og reyndar kom það fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að þetta væri ekki nema lítið skref þó svo að samþykkt væri.
    Skipið sem um ræðir og ekki hefur selst er fjárhagsvandi stöðvarinnar fyrst og fremst. Ég lít svo á að það liggi fyrir loforð um það frá hæstv. ríkisstjórn að þegar kaupandi finnst að því skipi muni stjórnvöld koma inn í þetta erfiða fjárhagsdæmi og taka þátt í fjármagnskostnaði sem safnast hefur á skipið. Þess vegna tel ég að þetta dæmi verði að leysa í heild sinni þegar þar að kemur. Það eru nú reyndar ýmsir að spyrja eftir þessu skipi og það er ekki vonlaust að það seljist innan tíðar og þá munu þessi mál öll skýrast. En ég ítreka það að ég lít svo á að stjórnvöld hafi lofað því að þá verði þetta mál tekið upp í heild sinni.
    Í sambandi við skipasmíðar yfirleitt skulum við vona að hagur þeirra vænkist þegar náðst hafa samningar á meðal GATT - þjóða um fríverslun. Þá verður væntanlega bannað að styrkja þennan atvinnurekstur sem er svo mjög styrkur í okkar samkeppnislöndum eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e.
    Það væri hægt að halda mikla ræðu um Slippstöðina og ég get svo sem alveg hugsað mér að gera það en ég held að það sé í sjálfu sér ekki til neins. Ég mun standa að samþykkt meiri hlutans í þessu máli en ítreka að þegar kaupandi hefur fundist að skipinu mun þetta koma upp á borð hjá stjórnvöldum. Þar tel ég að liggi fyrir ákveðin loforð.