Héraðsskógar
Miðvikudaginn 06. febrúar 1991


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég vona að hv. fyrirspyrjandi og 4. þm. Suðurl. hafi ekki misvirt við mig orðalagið. Ég leyfði mér að taka svona gáleysislega til orða að tala um hagsmunagæslumenn kjördæma en auðvitað er það ekki nógu yfirvegað orðbragð þegar hv. þm. eiga í hlut. Svarið er það að ég hef margoft sagt, meira að segja hér í þessum ræðustóli fyrr á þessum vetri og oftar, að ég lít á þetta verkefni fremur og vonandi sem upphaf að öðrum slíkum en ekki bara eitthvert einstakt fyrirbrigði undir sólinni. Ég er alveg sannfærður um það að ef vel tekst til og góður gangur verður í þessu verkefni, þá mun það verða mönnum hvatning til þess að fylgja í kjölfarið á öðrum svæðum. Ég hef nefnt þau héruð þar sem nytjaskógrækt bænda hefur komist á talsverðan skrið undanfarin ár, svo sem uppsveitir Suðurlands, Eyjafjarðarsýsla, Borgarfjörður og jafnvel fleiri héruð. Þau væru eðlilegur vettvangur fyrir könnun á því hvort sambærileg stórátök og samfelld verkefni gætu komið í framhaldinu. Þess vegna er það ekki síður hagsmunamál og mikilvægt, held ég, bændum og öðrum landshlutum að þetta takist vel og góður kraftur verði í þessu því þá mun það auka mönnum kjark til að sækja á um að svipuð vinna fari í gang.
    Þrátt fyrir þetta verð ég að segja að það er ekki komin af stað bein vinna að áætlanagerð af því tagi sem varð grundvöllur Héraðsskógaverkefnisins annars staðar. Ég hef litið svo á að það væri eðlilegt að snúa sér að því þegar þetta verkefni væri í höfn og byggja þá á þeim grunni sem þegar er kominn í gegnum nytjaskógrækt bænda í öðrum landshlutum.