Sala hlutabréfa í Gutenberg hf.
Fimmtudaginn 07. febrúar 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég bið nú hv. þm. að misskilja ekki orð mín. Það er afstaða sem fjmrh. og iðnrh. hafa oft rætt um að ekki er eðlilegt að ríkið sé umfangsmikill rekstraraðili í samkeppnisgreinum þar sem fjölmörg fyrirtæki, einkafyrirtæki, hlutafélög og önnur eru starfandi. Í okkar landi eru öflug fyrirtæki í prentiðnaði sem m.a. eru orðin útflutningsfyrirtæki í þeirri grein þannig að það er eðlilegt og sjálfsagt að það sé tekið til skoðunar og leitað heimilda um það að breyta rekstrarformum ríkisfyrirtækja sem starfa í samkeppni við fjölmörg önnur fyrirtæki í sömu atvinnugrein.
    Það má ekki misskilja orð mín sem ég sagði hér áðan að ekki hefðu farið fram sérstakar viðræður milli mín og iðnrh. um nýtingu þessarar heimildar á þann veg að við hefðum ekki rætt málið sem slíkt. Hins vegar er eingöngu liðinn rúmur mánuður af þessu ári og málið ekki talið það brýnt að í það sé gengið strax á fyrstu vikum ársins, en að sjálfsögðu verður það tekið til skoðunar og nánari umfjöllunar á árinu. En eins og ég gat um áðan hefur ekki verið tekin ákvörðun um það hvort það verður gert í tíð yfirstandandi þings, þ.e. fyrir kosningar eða hvort það verður látið bíða nýrrar ríkisstjórnar, nú eða þá þessarar ríkisstjórnar ef hún þá situr eftir kosningar, að taka ákvörðun um það.
    Ég vona að þetta sé alveg skýrt. Málið hefur verið rætt með almennum hætti en það hafa ekki farið fram sérstakar umræður um tímasetningu þess að nýta þá heimild sem þarna kom inn í fjárlögin á því ári sem nú er nýhafið.