Frsm. félmn. (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Nál. félmn. er á þskj. 587 svohljóðandi:
    ,,Nefndin hefur fjallað um tillöguna sem felur í sér að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa að komið verði á fót í kjördæmum landsins á næstu fjórum árum skrifstofum heilbrigðismála sem sinni m.a. verkefnum fyrir héraðslækna, heilbrigðismálaráð og Tryggingastofnun, svo og fjárhagslegri og faglegri áætlanagerð og eftirliti með heilbrigðisþjónustu á svæðinu.
    Nefndin fékk umsagnir um tillöguna frá eftirtöldum aðilum: Félagi íslenskra sjúkraþjálfa, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, landlæknisembættinu, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, Vestfjarðadeild Hjúkrunarfélags Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, héraðslækni Norðurlands eystra, Heilbrigðisfulltrúafélagi Íslands, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Læknafélagi Íslands, Félagi forstöðumanna sjúkrahúsa á Íslandi, Ljósmæðrafélagi Íslands, héraðslækni Vesturlands, Hjúkrunarfélagi Íslands, Félagi háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga, Matvæla- og næringarfræðingafélagi Íslands, Félagi þroskaþjálfa, héraðslækni Austurlands, stjórn Austurlandsdeildar Hjúkrunarfélags Íslands, Lyfjafræðingafélagi Íslands, Meinatæknafélagi Íslands, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Sjúkraliðafélagi Íslands, héraðslækni Norðurlands vestra, Röntgentæknafélagi Íslands, Fjórðungssambandi Norðurlands, héraðslækni Reykjaneshéraðs og borgarlækni.
    Í umsögnunum kemur fram yfirgnæfandi stuðningur við tillöguna. Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.``
    Birgir Ísl. Gunnarsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Þetta er gert á Alþingi 31. jan. og undir þetta rita allir nefndarmenn í félmn. nema sá sem fjarstaddur var afgreiðslu málsins.