Lýsing á Reykjanesbraut
Fimmtudaginn 07. febrúar 1991


     Flm. (Jóhann Einvarðsson) :
    Hæstv. forseti. Á þskj. 513 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um að setja lýsingu á Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Njarðvíkur. Tillagan hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera kostnaðar - og framkvæmdaáætlun við að setja upp lýsingu við Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Njarðvíkur og leggja hana fyrir Alþingi eigi síðar en við næstu endurskoðun vegáætlunar.``
    Með till. fylgir svohljóðandi grg.:
    ,,Till. þessi var áður lögð fram á 111. löggjafarþingi. Þá hafði verið lögð fram till. til þál. um tvöföldun Reykjanesbrautar, till. sem er alls góðs makleg og flm. er hlynntur sem lokatakmarki.
    Fyrir nokkrum árum stóð flm. að till. um að kanna hagnýtt gildi þeirra hugmynda sem uppi hafa verið um rafknúna járnbraut frá Reykjavík til Suðurnesja og austur fyrir fjall. Sú till. hlaut ekki afgreiðslu en slík könnun þyrfti að fara fram.
    Báðar þessar till., þ.e. tvöföldun Reykjanesbrautar og rafknúin járnbraut frá Reykjavík t.d. að Flugstöð Leifs Eiríkssonar, eiga því miður of langt í land, m.a. vegna mikils kostnaðar. Talið er að umferð um Reykjanesbraut sé farin að nálgast 10 þúsund bifreiðar á sólarhring sem segir ekki alla söguna því í raun eru aðeins tveir toppar, þ.e. umferðin er langmest árla morguns og síðan síðdegis á brottfarar - og komutíma flugvéla á Keflavíkurflugvelli, svo og við upphaf og lok vinnutíma á Keflavíkurflugvelli, en þar starfar mikill fjöldi Íslendinga hjá innlendum og erlendum aðilum.
    Slysatíðni á Reykjanesbraut er mikil og flest slys mjög alvarleg, enda hraði mikill og aðstæður ekki alltaf eins og best verður á kosið.
    Það er skoðun flm. að fullkomin lýsing við veginn sé fljótvirkasta og ódýrasta lausnin í sjónmáli til að draga úr slysatíðninni. Það hefur sýnt sig að þar sem lýsing hefur verið bætt á hættulegum umferðarslóðum hefur slysum fækkað.
    Unnt er að vinna þetta verk í áföngum. Samkvæmt upplýsingum, sem flm. hefur aflað sér, má ætla að kostnaður við þetta verk, þ.e. frá Hafnarfirði að Innri - Njarðvík sé 80 -- 90 millj. kr. Þegar hafa gatnamót við Grindavíkurveg og Voga verið lýst og er það til mikilla bóta.``
    Til viðbótar þessu vil ég aðeins segja að eftir að vegurinn var malbikaður, þ.e. það var malbikað ofan á steypulagið, þá hefur vegurinn dökknað mjög mikið og er hann miklum mun erfiðari og hættulegri í öllum akstri, ekki síst þegar bleyta er. Sú lýsing sem þegar er komin, t.d. á gatnamótum Grindavíkurvegar og Vogaafleggjara, hefur sýnt sig ekki einungis að bæta mjög aðstæðurnar á þeim stað, heldur hefur umferðin samkvæmt upplýsingum lögreglunnar hægst nokkuð mikið vegna þess að það virðast verða eins konar áfangaskipti í akstri á veginum. Það er því mjög brýnt að mínu viti að ljúka því að lýsa upp alla brautina. Það er unnt að gera það í áföngum, eins og

ég sagði áðan.
    Ég vil líka vekja athygli á því að eftir malbikunina hafa stikurnar, sem hefur verið mikill léttir að við akstur, orðið miklu verri, þ.e. það hefur slest malbik á endurskinsmerkin á stikunum sem gerir þær raunverulega ónýtar. Verða þær þar af leiðandi ekki að því gagni sem þyrfti að vera. Auðvitað kemur að því að við þurfum að tvöfalda Reykjanesbraut. Samkvæmt tölum sem Vegagerðin hefur lagt fram þá ætla þeir að það þurfi ekki fyrr en árið 2005 eða jafnvel síðar, en ég er sannfærður um það að með tilkomu væntanlegs álvers á Keilisnesi verður að hraða þeim áætlunum öllum talsvert mikið.
    Ég vil því að lokum, af því að þetta hefur verið rætt hér áður í þinginu, skora á allshn., en það er tillaga um að vísa þessu til hennar, að hraða afgreiðslu þessa máls og legg svo að lokum til að þessu verði vísað til síðari umr.