Lýsing á Reykjanesbraut
Fimmtudaginn 07. febrúar 1991


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þessa till. sem hér er flutt af einum af þingmönnum Reyknesinga, hv. 8. þm. Reykn. Mér þykir jafnframt rétt að láta það koma hér fram að þessi tillaga er í anda þeirrar stefnu sem ríkir innan þingmannahópsins í Reykjaneskjördæmi, þ.e. að leggja áherslu á í samgöngumálum innan kjördæmisins að gera þær ráðstafanir sem auka umferðaröryggi, láta þær hafa forgang, m.a. með því að koma upp lýsingu t.d. utan þéttbýlis eins og reyndar kom fram í framsöguræðu hv. flm. Þetta markmið settum við þingmenn okkur fyrir mörgum árum, á kjörtímabilinu 1983 -- 1987, og að því höfum við unnið markvisst og orðið töluvert ágengt eftir því sem fjármagn hefur leyft hverju sinni og kom það reyndar einnig fram í máli hv. flm. till.
    Lýsing Reykjanesbrautar er einn liður í slíkum framkvæmdum. Hún er auðvitað fjárfrek en mætti framkvæma í áföngum, eins og kom fram í hans máli, en hún er afar þýðingarmikið öryggisatriði. Þess vegna vildi ég koma hér upp sem einn úr þessum þingmannahópi því að ég þykist vita að það sé stuðningur innan hópsins og hefur reyndar verið rætt að þetta væri einn liður í þeim öryggisatriðum sem við munum markvisst vinna að. Þess vegna vil ég lýsa stuðningi við þessa tillögu, hæstv. forseti.