Vegalagning í óbyggðum
Fimmtudaginn 07. febrúar 1991


     Flm. (Jónas Hallgrímsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Austurl., 2. þm. og 5. þm., undirtektir þeirra við meginefni þessarar þáltill. sem fram er komin. Jafnframt vil ég benda á að í máli hv. 2. þm. Austurl. kom fram að uppi hefðu verið snaggaraleg viðbrögð frá hendi samgrh. og er það vel. Hann hafði strax hug á því að leita eftir skipun nefndar, verða við þeim tilmælum sem hann hafði fengið. Ég sé þó þá meinbugi á því að í meginefni tillögunnar er gert ráð fyrir að þetta sé samstarfsnefnd þriggja aðila, Vegagerðar ríkisins, sem vissulega heyrir undir samgrh., Orkustofnunar og Landsvirkjunar, sem ég trúi að heyri hvort tveggja undir iðnrn. Þess vegna var tillagan þannig samsett að það væri ríkisstjórnar að skipa þessa nefnd. Nú er ég ekki þingvanur en að höfðu samráði við meðflm. fannst okkur þetta vera rétta leiðin. Ég efast ekki um að það standi góður hugur að baki málinu frá samgrh. með sínum áformum en bendi á að það þurfi að hafa samráð við aðra aðila og hélt að það væri einlægast í ríkisstjórn.
    Að öðru leyti ítreka ég þakkir mínar til þeirra sem hafa tekið til máls hér og endurtek óskir um að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til allshn.