Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Þetta er nú einhver rólegasti fimmtudagur sem ég minnist á starfstíma þessa þings að því er varðar lengd dagskrár. Einnig sýnist mér að málin reki sig býsna hratt hér í þinginu þannig að ég hef litla samvisku af því þó ég notfæri mér rétt minn til þess að mæla hér nokkur orð til viðbótar vegna þessa ágæta máls. En ég skal ekki endilega fylla út tímann sem ég hef heimild til að nota vegna þess að ég gekk aðeins á þann ramma sem þingsköp setja í fyrri ræðu minni.
    Það var aðeins eitt atriði sem ég vildi koma frekar að, sem hv. 1. flm. nefndi, og gera kannski örlitlar athugasemdir við það. Það var það sjónarmið að það væru fjárþrengingar sem yllu því að náttúruverndaraðilar, tilkvödd og tilskipuð yfirvöld náttúruverndarmála, fengju ekki haldið sínum hlut gagnvart hinu mikla veldi hinna virkjunarglöðu. Það er ekkert óeðlilegt að mál séu flutt með þessum hætti vegna þess að þarna er auðvitað afar ólíku saman að jafna í upphæðum talið. En við megum samt ekki hafa of mikla minnimáttarkennd sem erum að halda fram hlut náttúruverndar og möguleikum til að gera hana gildandi.
    Ég tel að í rauninni, eins og kom fram hjá hv. flm., hafi málstaður náttúruverndar fengið þá innstæðu með þjóðinni í hugum almennings að þar sé í mikinn sjóð að leita sem geti vegið býsna þungt á móti þeim fjárhæðum sem virkjunaraðilar og þeir sem að framkvæmd og undirbúningi standa hafa til umráða. Þetta er þessum aðilum líka ljóst. Ég tel að það hafi orðið stórfelld breyting til batnaðar hér síðustu tvo áratugina í sambandi við möguleika þeirra sem halda fram náttúruverndarsjónarmiðum, sem halda utan um þá hagsmuni sérstaklega, til þess að hafa áhrif. Ég hef hins vegar vissar áhyggjur af því að þeir aðilar sem við höfum treyst til þess og eru settir til þess lögum samkvæmt að vera á vaktinni hafi ekki nógsamlega gætt þess að það þarf að tryggja sambandið við fólkið, hinn félagslega vettvang í landinu, til þess að hafa þann kraft og þann styrkleika sem þarf til að takast á um hagsmunina. Þarna er ég m.a. að tala til þess vettvangs sem hv. 1. flm. þessarar tillögu situr á, sjálfs Náttúruverndarráðs.
    Til Náttúruverndarráðs samkvæmt núverandi skipan var stofnað með nokkuð sérstökum hætti með lagasetningu 1971. Sá sem mótaði það mál öðrum fremur í meðferð Alþingis og við undirbúning málsins var Eysteinn Jónsson, fyrrum forseti Sþ. og þekktur stjórnmálamaður, formaður Náttúruverndarráðs í framhaldi þess. Ég tel að hann hafi skynjað það samhengi sem þarf að vera á milli lagabókstafs annars vegar og félagslegra tengsla út um allt land ef málstaður náttúruverndar á að njóta sín og hafa þann styrk sem hann barðist fyrir og margir berjast fyrir. Við þurfum að gæta að nú að þau tengsl rofni ekki. Við megum ekki gera of mikið úr hinni formlegu hlið að því er fjármagnið snertir. Ef við ætlum að sækja það, þá þarf Alþingi líka að vera ljós þörfin og þá þarf líka að vera

fólk í landinu sem ýtir á okkur þingmenn að láta meira af hendi rakna til þess að halda á þessum hagsmunum eins og fólkið kýs.
    Ég held að sú vinna t.d., sem þál. Alþingis frá 1989, um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, gerir ráð fyrir, kosti ekki það fé að það standi í veginum fyrir því að á því máli sé tekið og það mál sé unnið eins og óskað var af Alþingi. Ég held að það sé fyrst og fremst áhugi þeirra sem halda þar á máli. Þeir þurfi þá að gera vart við sig ef það er fjármagnið sem skortir en það er tiltölulega auðvelt, að ég tel, að fá a.m.k. hluta af því úr þeim gildu sjóðum sem þeir sem vilja nýta þessi gæði með öðrum hætti, þ.e. virkja og stunda framkvæmdir, hafa úr að ráða. Ég vildi koma þessum ábendingum á framfæri og hvatningu til þeirra enn frekar sem eru á þessum vettvangi og eiga að vera að vinna að þessum málum lögum samkvæmt.