Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri
Föstudaginn 08. febrúar 1991


     Stefán Valgeirsson :
    Herra forseti. Í umræðum um þetta mál sl. miðvikudag töluðu sumir ræðumenn um að kosturinn við þetta frv. væri sá að settar væru varnarlínur sem mundu reynast þannig að hinir erlendu aðilar kæmust ekki yfir þær línur, eftir því sem mér skildist.
    Í athugasemdum við fylgifrv. segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Frv. þetta er flutt sem fylgifrv. með frv. til laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
     Breytingar þessa frv. miða allar að því að rýmka ákvæði gildandi laga hvað snertir fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri í samræmi við meginreglur í fyrrnefndu frv.`` --- Þ.e. það frv. sem er hér til umræðu. --- ,,Er í mörgum tilvikum vísað til aðalfrumvarpsins. Þá taka sumar breytingar til rýmkunar á starfsréttindum erlendra aðila hér á landi.
    Breytingum á einstökum lagaákvæðum er í frv. þessu raðað upp í aldursröð laga.``
     Mér finnst þetta frv. í raun og veru hálfgerð afturfótafæðing. Ég vona að menn viti hvað það er, menn séu ekki alveg slitnir úr sambandi við lífið í landinu. Mér finnst að þetta frv. megi bíða þar til í ljós kemur hvernig eða hvort Íslendingar semja við Evrópubandalagsþjóðirnar um Evrópskt efnahagssvæði. Ég hef áður verið með mikla fyrirvara í því máli. Ég hef talið og tel að ef við gerum það séum við búnir að stíga tvö skref af þremur inn í EB og það þykir mér ekki fýsilegur kostur, hvað sem um aðra hv. alþm. er að segja.
    Ég ætla ekki að fara efnislega út í þetta frv. Mér virðist ákaflega erfitt að átta sig á því hvað þetta í sjálfu sér þýðir. Og ég held að af reynslu í sambandi við ýmis önnur lög þar sem ráðherrar hafa víðtækar heimildir ætti hv. Alþingi að taka sig á með því að gefa ekki slíkar heimildir sem síðan eru brotnar eins og er gert í þessu frv. og er gert í framkvæmd ýmissa laga. Þar á ég t.d. við lögin um stjórn fiskveiða sem eru dæmigerð fyrir þessar opnu heimildir til ráðherra. Ég hef áður sagt að um þau lög væri í raun og veru alveg nóg að segja: Sjútvrh. ræður öllu í sambandi við þau mál. Heimildirnar eru það rúmar að það liggur við að sú sé niðurstaðan. Ég fyrir mitt leyti a.m.k. mun ekki samþykkja að slíkar heimildir verði gefnar einstökum ráðherrum. Það er allt annað í sjálfu sér og mikil trygging fyrir því að það sé ríkisstjórnin í heild sem hefur slíkar heimildir og það sé það tryggt að málin verði tekið fyrir á ríkisstjórnarfundum og leyst þar, en einstakir ráðherrar hafi ekki slíkar heimildir á hendi. Enda skil ég ekki að nokkur hæstv. ráðherra vilji hafa slíkar heimildir og liggja undir þeirri pressu sem verður á þessum ráðuneytum ef á að samþykkja þetta frv. eins og það liggur hér fyrir.
    Ég vil bara endurtaka það að ég mun ekki standa að samþykkt þessa frv. að óbreyttu. Ég tel að það megi bíða og ég tel að þetta sé afturfótafæðing.