Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri
Föstudaginn 08. febrúar 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vildi aðeins hafa nokkur orð um það sem fram hefur komið í umræðunni eftir að ég tók til máls fyrr um þetta mál, sem því miður hefur þurft að skiptast í þrjá parta sem er auðvitað mjög slæmt en ekkert við því að gera.
    Margt merkilegt hefur komið fram og lýsi ég sérstaklega ánægju minni með að hæstv. utanrrh. skuli vera kominn í salinn vegna þess sem kom fram í máli hæstv. forsrh. og reyndar kemur einnig fram í bréfi sem hann ritar í dagblaðið Tímann í dag. Þar talar hann um þetta frv., --- ég vitna orðrétt: ,,Þar er leitast við að tryggja miklu betur en nú er að erlendir aðilar eignist ekki fyrirtæki í sjávarútvegi og frumvinnslu fiskjar, í virkjun vatnsafls og jarðvarma, eða eignist land umfram það sem nauðsynlegt er í atvinnurekstri. Mér sýnist jafnframt ljóst að þessir fyrirvarar muni standast vel, m.a. vegna þess að sjávarútvegur og landbúnaður eru utan hins evrópska efnahagssvæðis.``
    Þarna er hæstv. forsrh. að tala um þá fyrirvara sem hann gerði við samningana um evópskt efnahagssvæði og talaði um það hér áðan að þetta frv., ef samþykkt verður, muni verða lagt til grundvallar í þeim samningum sem nú eru í gangi um evrópskt efnahagssvæði. Þetta kemur mér mjög á óvart. Þetta er algerlega í andstöðu við það sem fram hefur komið hér á Alþingi, m.a. í skýrslu utanrrh. sem rædd var hér fyrr í vetur, þar sem mjög greinilega kemur fram að það sem lagt er til grundvallar í samningum um evrópskt efnahagssvæði eru lög og reglur Evrópubandalagsins. Og varðandi ýmis atriði er greinilega tekið fram og ég get tekið sem dæmi um bankastarfsemi að ef bankar sem eru með starfsleyfi í einu landi innan þessa svæðis, þá hafa þeir leyfi til að starfa í öllum hinum ríkjunum. Ákvæði frv. um þessi 25% mörk skipta því akkúrat engu máli þegar um er að ræða samninga um evrópskt efnahagssvæði. Það er þá alveg nýtt ef það er komið inn í að þetta frv. og það sem þar kemur fram eigi að gilda í samningunum og nú skilst manni að samningarnir séu á lokastigi. Þetta kemur mér mjög á óvart.
    Það eru fleiri atriði sem þarna koma. Það er t.d. gert ráð fyrir því að ákveðin mörk séu á heildarfjárfestingu í ákveðinni atvinnugrein í tölul. 7 í 4. gr. Þetta hefur ekki verið rætt varðandi evrópskt efnahagssvæði. Það hefur ekki verið talað um það hingað til að það séu nokkrir fyrirvarar að því er varðar þessi atriði. Það eina sem hingað til hefur verið talað um er að einhverjir ákveðnir fyrirvarar séu varðandi sjávarútveg. Það hefur einnig verið talað um að hugsanlegt sé að fá einhverja fyrirvara í fiskvinnslu en það er alls óljóst hvernig það muni fara. Ég vil þá gjarnan að hæstv. utanrrh. lýsi því hvort það sé rétt að það sem kemur hér fram sé sú varnarlína --- ég held að það orð hafi verið notað hér í umræðunni --- sem Íslendingar ætla að draga í samningum gagnvart Evrópubandalaginu. Það eru alveg ný sannindi fyrir mér og það er þá ágætt að það komi hér fram.

    Hv. 4. þm. Norðurl. v. Ragnar Arnalds sagði í umræðunum á miðvikudaginn var að það væri hans skilningur að þetta væri ekki það sem lagt væri til grundvallar þar. Hann sagði reyndar að sú varnarlína sem þarna væri verið að draga, sem hann virtist vera nokkuð ánægður með, kæmi þá fyrst og fremst að gagni gagnvart öðrum, ekki þeim ríkjum sem við erum að semja við núna, eða Evrópubandalagið í samvinnu við EFTA. Skilningur á því hvað þarna er á ferðinni virðist því vera eitthvað á reiki. Þess vegna er nauðsynlegt að fá þetta upplýst.
    Í öllu því sem hæstv. utanrrh. hefur sagt hér á þinginu kemur fram að um er að ræða að við göngum til samninga á grundvelli laga og reglna Evrópubandalagsins, ekki á grundvelli þess sem við erum að samþykkja hérna, ef þetta verður samþykkt á þessu þingi. Ég fullyrði því að þessi svokallaða varnarlína sem verið er að reisa þarna hefur ekkert gildi, því miður, að því er varðar evrópskt efnahagssvæði. Þar finnst mér vera gengið allt of langt, miklu lengra en hér er gert þó að ég telji að þarna séum við ekki með nægilega góðar varnir gegn því að erlendir aðilar nái yfirráðum yfir náttúruauðlindunum, sem ég hef mestar áhyggjur af.
    Mér finnst vera grundvallaratriði að íslenskir aðilar eigi meiri hluta í fyrirtækjum hér á landi. Mér finnst að í sjávarútvegi eigi það að vera þannig að Íslendingar eigi meiri hlutann, bæði í veiðum og vinnslu. Það er grundvallaratriði. En ekki er gert ráð fyrir því í þessu frv. Ég sé ekki þörfina fyrir því að heimila starfsemi erlendra banka og fjármálastofnana með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir, með þessum hraða. Mér finnst þetta of stór skref. Við eigum frekar að reyna að taka færri skref og minni þannig að við ráðum betur við þetta. Þetta er því alls ekki sú vörn sem ég hefði viljað sjá fyrir okkar grundvallarhagsmuni, þ.e. yfirráð yfir náttúruauðlindunum. Það er því mjög merkilegt ef ríkisstjórnin ætlar núna að fara að setja fram fyrirvara. Ekki ætla ég að draga úr því að það verði lagðir fram fyrirvarar en það hefur alla vega ekki verið gert hingað til með þeim hætti sem mér fannst hæstv. forsrh. tala um.
    Mér varð tíðrætt hér í fyrri ræðu minni um ferðaþjónustu. Það var einnig eitt af því sem kom fram í áðurnefndri grein í Tímanum og var nokkurn veginn samhljóða því sem hæstv. forsrh. sagði áðan. Málið er að það má vel vera að hæstv. forsrh. treysti vel íslenskum fyrirtækjum. Það geri ég líka. En það verður að hafa það í huga að erlendar ferðaskrifstofur hafa starfað hér í stórum stíl og, ég vil jafnvel taka undir það sem sagt hefur verið, arðræna landið og það er í mikilli óþökk þeirra sem starfa í ferðaþjónustu. Ég er alveg sammála því að það verður að gera strangar kröfur til þeirra sem hér starfa varðandi leiðsögumenn og réttindi þeirra sem keyra, innflutning á matvælum og fleira. En það verður bara að sjá fyrir hvernig í ósköpunum á að framfylgja því. Þeir aðilar sem vinna í ferðaþjónustu eru algerlega ósammála því að hleypa útlendingum meira inn í þessa atvinnugrein og telja að það sé mjög af hinu illa. Það er því ekki vegna þess

að ég treysti ekki íslenskum ferðaskrifstofum heldur er þetta fyrst og fremst vegna orða þeirra sjálfra sem ég hef verulegar áhyggjur af þessu atriði.
    Virðulegi forseti. Ég vona að hæstv. forsrh. verði ekki lengi burtu úr salnum. Ég á ekki mikið eftir af mínu máli og hefði gjarnan viljað að hann hlýddi á.
    Ég vildi leggja áherslu á áhyggjur mínar vegna þess hvernig fara á að varðandi ferðaþjónustuna og hef verulegar áhyggjur af því hvernig þar á að halda á málum. Því miður hefur okkur ekki tekist hingað til að framfylgja reglum að því er varðar leiðsögumenn, matvælainnflutning og fleira. Mér þætti því fróðlegt að vita hvernig á þá að framfylgja þeim reglum sem þarna eiga að gilda. Það sem mér finnst vera sérkennilegast í þessu máli er að menn skuli halda að þessi varnarlína sem þarna er verið að draga, sem ég hef nú margoft haldið fram að væri allt of veik, sé einhver varnarlína gagnvart þeim samningum sem við eigum í við Evrópubandalagið. Það þykir mér merkilegast.
    Það hefur komið fram og kom fram í máli hæstv. forsrh. að e.t.v. væri nú einhver skriður að komast á samninga EFTA og Evrópubandalagsins um evrópskt efnahagssvæði. Það er einmitt vegna þess að EFTA hefur fallið frá öllum sínum fyrirvörum. Það er kannski einmitt þess vegna. Þess vegna kemur mér mjög á óvart að verið sé að bæta við fleiri fyrirvörum.
    Mér finnst það mikill barnaskapur, sem komið hefur fram hér í máli manna, að útlendingar komi hingað í stórum stíl til þess að fjárfesta í íslensku atvinnulífi, til þess að styrkja okkur. Þeir koma auðvitað hingað fyrst og fremst í hagnaðarvon og síðan fara þeir með ágóðann úr landi. Mér þykir það mjög slæmt ef við sitjum uppi með það að vera fjötruð inn í múra hafta, megum ekki fara út fyrir ákveðið svæði sem heitir kannski Evrópskt efnahagssvæði, munum ekki geta leitað okkur markaða eða leiða annars staðar. Því miður held ég að það sé mikil hætta á því að íslensku atvinnulífi verði stjórnað erlendis frá ef við reynum ekki að taka fá skref í einu og ekki gleypa allan bitann og svelgjast svo á honum áður en við vitum af.