Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri
Föstudaginn 08. febrúar 1991


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Örfá orð af gefnu tilefni. Fyrst vil ég einungis lýsa stuðningi mínum við þetta frv. Það stefnir að því að rýmka heimildir erlendra aðila til fjárfestingar í íslensku atvinnulífi, draga úr því hversu háðir við höfum verið erlendu lánsfjármagni og greiða götu íslensks atvinnulífs til að nýta í auknum mæli erlent áhættufjármagn. Ég er sömu skoðunar og hæstv. viðskrh., sem lýsti þeim viðhorfum, að gjarnan hefði ég viljað ganga lengra í frjálsræðisátt á ýmsum sviðum, ekki hvað síst að því er varðar starfsemi banka. Engu að síður er hér um að ræða frv. sem stefnir í rétta átt, eyðir réttaróvissu og er ásættanlegt þess vegna.
    Til mín var beint þeirri spurningu hvort þetta frv. gæti skoðast með einhverjum hætti sem varnarlína gagnvart þeirri hættu sem stafa kynni af erlendum fjárfestingum og hvort það samrýmdist þannig samningum okkar, eins og þeir nú liggja fyrir, við Evrópubandalagið um stofnun evrópsks efnahagssvæðis. Hv. þm. Kristín Einarsdóttir spurði: Er ekki þversögn í því að þar erum við að semja um aðild að innri markaði Evrópubandalagsins á grundvelli fjórfrelsis, sem m.a. opnar einn sameiginlegan markað fyrir fjármagn og þjónustustarfsemi, og svo hins vegar þeirra takmarkana sem eru í frv.?
    Það er auðvelt út af fyrir sig að misskilja þetta en út frá mínum bæjardyrum séð er kjarni málsins þessi: Í þessu frv. eru ákveðnar takmarkanir. Í þeim samningum, eins og þau drög liggja nú fyrir, við Evrópubandalagið eru einnig ákveðnar takmarkanir. Þær lúta fyrst og fremst að eftirfarandi: Þar sem við erum ekki að semja um fríverslun með fisk og sjávarafurðir, þ.e. um afnám tollfrelsis og samræmdar samkeppnisreglur, nánar tiltekið bann við ríkisstyrkjum, niðurgreiðslum og stuðningsaðgerðum innan Evrópubandalagsins, þá leiðir af því að hinar almennu reglur um hindrunarlausan rétt erlendra aðila til fjárfestingar eða atvinnureksturs í slíkri grein fá ekki staðist þannig að þær almennu reglur gilda ekki um íslenskan sjávarútveg í þessum samningum.
    Ef spurt er um aðra meginauðlindina, þ.e. nýtingu orkulindanna, þá liggur það fyrir ljóst og skýrt að núgildandi löggjöf er í fullu samræmi við lög og reglur Evrópubandalagsins þannig að okkur er í sjálfsvald sett að tryggja eignarrétt opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, og einkarétt þeirra til þess að nýta orkulindirnar.
    Að því er varðar fjárfestingu í fasteignum og þá einkum að því er varðar jarðeignir og kaup á þeim í ábataskyni, þá er því til að svara að okkur Íslendingum er sjálfum í lófa lagið að reisa þar við skorður aðeins ef við gætum þess að það feli ekki í sér mismunun milli innlendra og erlendra aðila, þ.e. mismunun milli lögaðila á evrópska efnahagssvæðinu. Þetta hyggjumst við gera með því að breyta innlendri löggjöf, bæði að því er varðar jarðakaupalög og ábúðarlög, þannig að eitt gangi yfir alla aðila. Í mínum huga er það alveg ljóst að þar með gætum við tryggt að

hlunnindajarðir, laxveiðijarðir svo ég nefni dæmi, verða ekki keyptar af erlendum aðilum og reknar í ábataskyni fram hjá ákvæðum jarðakaupalaga, ábúðarlaga eða ákvæða um búsetukvöð og búrekstur á viðkomandi jörð. Ég hygg því að þetta sé alveg skýrt. Ég held með öðrum orðum að þær skorður sem hér eru reistar við hindrunarlausum aðgangi erlendra aðila til atvinnurekstrar eða fjárfestinga séu í stórum dráttum hinar sömu og fyrir liggja í samningunum.
    Hitt er svo alveg rétt að á bls. 18 í grg. þessa frv., með leyfi forseta, er orðalag á þessa leið: ,,Reikna má með því að ef úr stofnun evrópska efnahagssvæðisins verði þurfi að taka til endurskoðunar þau ákvæði sem hér er lagt til að gildi um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, þ.e. að því er varðar borgara annarra ríkja evrópska efnahagssvæðisins. Nefndin telur samt sem áður brýnt að lögfesta frv. nú sem fyrst, enda núgildandi reglur sundurlausar og ósamstæðar.`` Þetta á þó ekki við það sem ég hef þegar lýst.
    Loks, virðulegur forseti, örfá orð út af sjónvarpsþætti, þar sem menn greindi á um það hver væri munurinn á evrópska efnahagssvæðinu annars vegar og Evrópubandalaginu. Þær umræður tengjast svolítið hugtakinu fullveldi. Það er afar auðvelt að færa fyrir því óyggjandi rök að munurinn á þessu tvennu er djúpstæður. Evrópubandalagið er samtök sem byggja á Rómarsamningnum og er í innsta kjarna sínum byggt á yfirþjóðlegu valdi þar sem ríkisstjórnir og löggjafarsamkundur hafa framselt vald í hendur framkvæmdastjórnar. Evrópubandalagið er ekki bara fríverslunarsamtök heldur tollabandalag sem afnemur landamæri að öllu leyti í viðskiptum og samskiptum innbyrðis og hefur sameinginlega stefnu út á við. Þar að auki er Evrópubandalagið að þróast í þá átt að það er myntbandalag. Það er einnig pólitískt bandalag og stefnir ákveðið í þá átt að verða sameiginlegt bandalag í öryggis- og varnarmálum. Vinnubrögð og aðferðir innan þess eru með allt öðrum hætti heldur en tíðkast á evrópska efnahagssvæðinu. Evrópska efnahagssvæðið tekur ekki til ákveðinna stærstu og veigamestu þáttanna sem varða Evrópubandalagið sjálft. Ekki sameiginlega landbúnaðarstefnu, ekki sameiginlega fiskveiðistefnu o.s.frv. Innan EFTA og innan evrópska efnahagssvæðisins er yfirstjórn þar sem engar ákvarðanir verða teknar nema með samstöðu ríkja. Það er því ekki um að ræða framsal frá löggjafarsamkundunni né frá ríkisstjórnum umfram það sem tíðkast þá í formi reglugerða á grundvelli almennra reglna. Á þessu er þess vegna ekki stigsmunur heldur eðlismunur.