Frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga
Föstudaginn 08. febrúar 1991


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér á að fara að taka á dagskrá, félagsþjónusta sveitarfélaga, hefur óneitanlega haft eilítið undarlegan aðdraganda þó að mér sé ekki kunnugt um í einstökum atriðum hvað farið hefur á milli stjórnarflokkanna í þessu máli.
    Ljóst er að fram er komið annað frv. sem útbýtt var hér í dag er varðar einn kafla í því frv. sem nú á að fara að taka á dagskrá. Er það til marks um vægast sagt óvenjuleg vinnubrögð. Að auki hefur flogið fyrir á meðal manna hér í þingsölum að það frv. sem hér á að fara á dagskrá nú sé tæplega stjfrv. í venjulegum skilningi þess orðs. Hins vegar hef ég orð hæstv. forsrh. fyrir því að svo sé og skal þá ekki draga það í efa. En hér er jafnframt um að ræða frv. sem gerir ráð fyrir breytingum á verkefnaskipan í Stjórnarráði Íslands og er þá spurning hvort það ætti ekki heima í væntanlegum breytingalögum um Stjórnarráðið.
    En aðalatriði minnar athugasemdar hér um þingsköp, virðulegi forseti, er það að hér á að fara að taka fyrir 326. mál á sama degi og fram er komið sérstakt frv. um málefni leikskóla. Það er vitað að um þessi mál er mikill ágreiningur, svo vægt sé til orða tekið. Það er alveg öruggt mál að sá ágreiningur mun koma upp í umræðum um þetta frv. Ég fyrir mitt leyti tel ótækt að ætla að ræða frv. um félagsþjónustu sveitarfélaga að menntmrh. fjarstöddum sem flytur hér sérstakt frv. annað um leikskóla. Það er mín skoðun og ég vænti þess að forseti athugi sinn gang áður en þetta frv. verður tekið til umræðu.