Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Hér hefur nú hæstv. fjmrh. vaðið elginn með ósannindum og fúkyrðum hátt á annan klukkutíma og þó hefur honum ekki tekist að hnekkja í einu einasta atriði niðurstöðum Ríkisendurskoðunar. Ég er búinn að þekkja þennan hæstv. ráðherra í 20 ár, sem betur fer hefur hann ekki verið ráðherra nema skammt af þeim tíma, og ég er þaulvanur að hlusta á ósannindin í honum. Hann reynir að drepa málinu á dreif, skilur ekki ruglið í sjálfum sér og heldur að þingheimur taki það gott og gilt ef hann þusar því framan í okkur með nógu miklum merkilegheitum. Þetta er náttúrlega alveg einstæð málsupptekt þá þegar af þinglegum ástæðum. Það er þinglega séð mjög óeðlilegt að ræða skýrslu sem þessa utan dagskrár. Umræður um skýrslu eiga auðvitað að fara fram sem dagskrármál. Og það er fjmrh., sem ekki einu sinni er þingmaður, sem talar hér utan dagskrár og ræðst með óbótaskömmum á Alþingi, á forseta þess og starfsmenn þess, Ríkisendurskoðun. Ég hefði talið að það hefði verið eðlilegra að veita einhverjum okkar þingmanna orðið utan dagskrár til þess að ræða við fjmrh. um skýrsluna. Það hefði verið hin rétta þinglega aðferð að ræða við fjmrh. um söluna á Þormóði ramma og þar er af nógu að taka.
    Fjmrh. fjölyrti mikið um faglega hæfni. Það var á honum að skilja að hann hefði faglega hæfni. Hann dregur í efa faglega hæfni Ríkisendurskoðunar hins vegar. Hæstiréttur stendur nú alveg jafnréttur fyrir því þó að virtir lögmenn eins og tveir Jónar hérna í bænum tapi málum fyrir Hæstarétti og skammi svo Hæstarétt fyrir það að hafa komist að rangri niðurstöðu. Hæstiréttur stendur alveg jafnréttur fyrir því. Hæstiréttur stendur alveg jafnréttur fyrir því þó að sakborningurinn eða sá sem sakfelldur er sé óánægður með sinn dóm. Í þessu tilfelli stendur Ríkisendurskoðun fyllilega jafnrétt þó að sá sakfelldi, fjmrh., sé eitthvað að nöldra.
    Hann segist hafa stjórnað Þormóði ramma úr stól fjmrh. Það voru nú ekki góð vinnubrögð. Auðvitað átti að vera hæf stjórn fyrir Þormóði ramma. Hún hefði getað verið öðruvísi skipuð heldur en sú seinasta. Fjmrh. notaði ákvæði þeirra laga til sölu hlutabréfa, sem hann viðurkennir sjálfur að séu ófullkomin og við skulum þá sameinast um að breyta, með því að samþykkja frv. sem ég hef lagt fram um það efni. Hann notaði ákvæði þessara ófullkomnu laga til þess að selja svo sem hann kaus, svo ég noti akkúrat hans eigin orð. Það voru langtum siðlegri aðferðir sem hæstv. fyrrv. fjmrh. Albert Guðmundsson notaði á sínum tíma þegar hann ætlaði að selja hlutabréf.
    Sigurður B. Stefánsson og Ólafur Nilsson hljóta að vera stoltir yfir því að hafa eignast þennan aðdáanda í stóli fjmrh. Stundum hefur nú blásið öðruvísi úr garði Ólafs Ragnars Grímssonar til þeirra félaga. Það er rétt að það varð nokkur dráttur á því að halda fund sem fjmrh. á hlaupum, ekki með neinum formlegum hætti, hafði óskað eftir eða sagt mér að sig langaði til að tala við þingmenn Norðurl. v. Það skipti nú litlu

máli með þennan drátt þó hann sé að reyna að gera eitthvert mál úr því núna því það hefði engu breytt um niðurstöðu málsins vegna þess að ,,kúppið`` var þegar ákveðið. Það var búið að skipuleggja ,,kúppið`` og það hefði engu breytt um niðurstöðuna svo sem raun ber vitni. Hún hefði orðið sú sama.
    Það er rétt að Þormóður rammi hefur átt við rekstrarerfiðleika að etja. Þetta fyrirtæki var mjög lengi í uppbyggingu og safnaði skuldum af því að hagkvæmur rekstur komst ekki á. Iðulega hefur þetta fyrirtæki lent í þrengingum en það var orðið fullkomið fiskvinnslufyrirtæki, burðarás í atvinnulífi í sínu plássi og fjöregg Siglufjarðar. Ég hef alla tíð viljað vernda þetta fjöregg og það hafa reyndar flestir þingmenn Norðurl. v. viljað gera. Ég varð ókvæða við þegar Albert Guðmundsson hreyfði þeirri hugmynd að ríkið seldi eignarhlut sinn í fyrirtækinu en þar var siðaður maður í stól fjmrh. og hann lét sér segjast og tók mark á andmælum. Eins og önnur fyrirtæki í sjávarútvegi þá var Þormóður rammi langt leiddur haustið 1988. Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur tekist að rétta flest þessi fyrirtæki við með Atvinnutryggingarsjóði útflutningsgreina og aðstoð Hlutafjársjóðs, m.a. Þormóð ramma. Veigamikil björgunaraðgerð var gerð þegar í lánsfjárlög 1989, 44. gr., var sett heimild til fjmrh. til að gera ráðstafanir til að bæta fjárhag Þormóðs ramma. Heimildin var nýtt og þar átti hæstv. fjmrh. góðan hlut að máli. Hann læknaði nefnilega sjúklinginn. Hann læknaði sjúklinginn og þar af leiðir að það þýðir ekkert að vera að tala um þriggja ára meðaltal af rekstri. Það sem skiptir máli er að þarna var orðið um heilbrigt fyrirtæki að ræða sem hafði rekstrarmöguleika og skilaði enda gróða á síðasta ári, líklega 120 millj. Þess vegna er það gremjulegt að hæstv. fjmrh., sem átti góðan hlut að björgun fyrirtækisins, skuli svo nokkrum mánuðum síðar kippa undan því fótunum.
    Seint í nóvember heyrði ég ávæning um að sennilega væri fjmrh. að pukrast við að selja Þormóð ramma. Ég trúði því ekki. Nú er ég búinn að þekkja þennan ráðherra, þennan stjórnmálamann í 20 ár, ég hef bæði átt hann að samherja og andstæðingi. Samt trúði ég ekki að honum dytti í hug að gera það sem hann gerði og allra síst í trássi við þingmenn kjördæmisins og með því að fara svona á bak við samstarfsmenn sína í ríkisstjórn og stjórnarliði. Fjmrh. sagði mér seint í nóvember að hann vildi ræða málefni Þormóðs ramma við þingmenn kjördæmisins en það dróst í nokkra daga, það er rétt hjá honum, og það er eitt af því fáa sem er rétt í málflutningi ráðherrans, það dróst í nokkra daga að koma þeim fundi á.
    Svanfríður Jónasdóttir, aðstoðarmaður ráðherrans, gerði mér hins vegar grein fyrir því í lok nóvember, líklega 30. nóv., að ráðherra hefði uppi áform um að selja Þormóð ramma. Það sló mig strax illa að heyra þetta. Ég vildi fyrst og fremst halda fyrirtækinu í eigu ríkisins. Þetta fyrirtæki gekk orðið vel og var gott og traust fyrirtæki og það var engin ástæða til þess að selja það. Ég get getið þess hér og nú að ég er líka

andvígur því að selja Síldarverksmiðjur ríkisins á Siglufirði. Mér þótti það einstaklega tortryggilegt að það voru ekki embættismenn fjmrn. sem voru með málið heldur voru það pólitískir handlangarar fjmrh. Í fyrsta lagi Svanfríður Jónasdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, og síðan annar pólitískur handlangari fjmrh., fyrrv. bæjarstjóri á Siglufirði, fyrrv. ritstjóri Þjóðviljans fyrir tilverknað Ólafs Ragnars Grímssonar, stjórnarformaður Þormóðs ramma illu heilli, Óttar Proppé. Þetta var fólkið sem var að leika sér með fjöregg Siglufjarðar.
    Fljótlega eftir þennan fund sem við Svanfríður áttum komum við á fundi þingmanna kjördæmisins með fjmrh. Þá skýrði hann okkur frá því sjálfur að hann vildi selja. Hann nefndi þar óraunhæfar tölur um það hvernig hugsanlegt væri að selja þetta fyrirtæki og það var nú bara til þess að hlæja að því. Ég hélt að sá fundur hefði endað þannig að fjmrh. væri það ljóst að fjórir af fimm þingmönnum kjördæmisins voru mjög andvígir ráðagerð hans og ég vænti þess að aðrir þingmenn kjördæmisins segi frá sínum skilningi á endalokum þess fundar. Ég taldi að þar hefði verið gengið frá því að ekki yrði fari á bak við þingmenn kjördæmisins um málið og þeir fengju að vera með í ráðum.
    Hinn 6. des. var umræða utan dagskrár. Þá sagði fjmrh., og þó hann segi eitt í dag og annað á morgun, þá ætla ég nú að leyfa honum að heyra hvað hann sagði 6. des. ( Gripið fram í: Hann er farinn úr salnum.) Ég vona að hann sé orðinn leiður á slúðrinu í sjálfum sér. ( Fjmrh.: Ég heyri þetta allt saman.) Með leyfi forseta sagði ráðherra: ,,Í fjórða lagi gerði ég það alveg skýrt``, hann er að segja frá þessum fundi, ,,að ekki hefði verið tekin ákvörðun um það að selja hlutabréfin á þessu stigi og ég ítreka þá yfirlýsingu hér. Ákvörðunin sem hefur verið tekin er að kanna hvort það sé áhugi hjá fyrirtækjum og heimamönnum, einstaklingum, á því að breyting verði á eignarsamsetningu fyrirtækisins.
    Mér er ekki kunnugt um það á þessu stigi hvað sá áhugi er mikill eða hve hann er útbreiddur en tel að sá tími sem liðið hefur frá 17. nóv. hafi sýnt að hann kunni að hafa verið nokkur og hann verður væntanlega meiri á þeim vikum sem fram undan eru. Þegar í ljós hefur komið hvers eðlis þessi áhugi er tel ég rétt að taka ákvörðun um það með hvaða hætti verður efnt til formlegra viðræðna eða sölu á þessum hlutabréfum og þá hve miklum hluta þeirra.`` --- Síðan segir: ,,Ég óskaði strax og ég kom af fundinum 17. nóv. eftir fundi með þingmönnum kjördæmisins, setti fram þá ósk við 1. þm. kjördæmisins. Það dróst nokkuð að sá fundur yrði haldinn. Hann var hins vegar haldinn hér fyrir nokkrum dögum og ég tel að slíkt samráð við þingmenn kjördæmisins hafi verið farsælt.
    Ég vonast þess vegna til að geta á næstunni gert grein fyrir frekari framgangi þessa máls. Meginatriði þess er að treysta undirstöður atvinnulífs á Siglufirði, efla þróun þess á næstu árum, byggja upp öflugt fyrirtæki í eigu heimamanna og á forræði þeirra og draga úr því að Siglufjörður`` --- og takið nú eftir --- ,,eigi

jafnmikið undir gerræðisákvörðunum sitjandi fjmrh. á hverjum tíma eins og hann á nú.`` --- Siglufjörður fékk sannarlega að finna fyrir gerræðisákvörðunum sitjandi fjmrh.
    ,,Ég er mjög ánægður,`` sagði fjmrh., ,,með það að í viðræðum mínum við fulltrúa bæjarstjórnar, fulltrúa allra flokka í bæjarstjórn, hefur komið fram jákvæður vilji þeirra í þessu máli. Ég mun kappkosta að hafa góða samvinnu við bæjarstjórn Siglufjarðar um málið.`` --- Svo mörg voru þau orð.
    Ég þekki að vísu hæstv. ráðherra og ég svaf því ekki alveg rólegur þó að hann reyndi að róa okkur þarna. Það var ekki í honum sami galsinn og í ræðustólnum áðan, það var ekki sami galsinn þá. Ég sagði í þessari sömu umræðu, frú forseti: ,,Ég er ekki sérstakur áhugamaður um sölu hlutabréfa í Þormóði ramma. Það er gott og sæmilega traust fyrirtæki sem komið er fyrir vind og ríkinu ekkert hættulegt að eiga það. Ég get vel hugsað mér að það verði rekið sem ríkisfyrirtæki áfram. Ég vil þó ekkert útiloka að það geti verið skynsamlegt að selja þarna einhver hlutabréf. En til þess að hægt sé að gera það upp við sig hvort skynsamlegt sé að selja þarf náttúrlega að liggja fyrir í fyrsta lagi níu mánaða uppgjör frá Þormóði ramma, níu mánaða uppgjör þeirra fyrirtækja sem kynnu að hafa áhuga á því að kaupa þessi hlutabréf eða hluta þeirra, þær tryggingar sem settar kunna að verða um að kaupendur ráði við það sem þeir ætla að fara að gera og greinargerð um hvernig hugsað er að fyrirtækið verði rekið.
    Ég tel að það þurfi samþykkt bæjarstjórnar Siglufjarðar fyrir því að þessi hlutabréf verði seld. Ég legg á það mikla áherslu að ekki verði seld þarna hlutabréf, hvorki í trássi við bæjarstjórn Siglufjarðar eða þingmenn Norðurl. v. enda hef ég fyrir því orð hæstv. fjmrh. að hann muni ekki gera það.``
    Fjmrh. gerði enga athugasemd við þessi orð mín í umræðunni 6. des.
    Ég varð auðvitað var við það að það greip um sig skelfing á Siglufirði þegar það fréttist til Siglufjarðar að fjmrh. væri að hugsa um að selja fyrirtækið með þessum hætti. Mér fannst sannarlega ekki álitlegt að fara að leggja þetta fyrirtæki í hendur F-listans á Siglufirði. Bæjarstjórnin mótmælti. Verkalýðsfélagið Vaka mótmælti. Nærri 200 Siglfirðingar sameinuðust um það að gera kauptilboð í fyrirtækið. Ég kom með engum hætti að því kauptilboði, ég hefði ráðlagt þeim að hafa þetta allt öðruvísi ef ég hefði verið spurður ráða um það hvernig ætti að bjóða í fyrirtækið. Ég taldi þá og tel enn að fyrirtækið væri best komið í eigu ríkisins en það var þó miklu, miklu betra að fyrirtækið lenti í höndum 200 Siglfirðinga sem hefðu bolmagn og ábyrgðartilfinningu til þess að sjá því farborða heldur en það væri gefið einni familíu. Ráðherrann kaus að hunsa tilboð þessara 200 Siglfirðinga. Aðstoðarmaður ráðherrans sýndi fádæma frekju og dónaskap í viðskiptum sínum við talsmenn þessa hóps Siglfirðinga. Það tilboð var miklu traustara og ábyrgara og hag ríkisins og Siglufjarðar miklu betur borgið með því að gengið hefði verið til samninga við þá. Hugsanlegt hefði verið að ráðherra hefði gert þeim gagntilboð og a.m.k. gefið þeim færi á að ná vopnum sínum og þá hefði hann getað kannað hvað markaðsverðið á Siglufirði væri, hverjir byðu betur, þessir 200 eða þessi familía sem búið var að ákveða að afhenda fyrirtækið. Heppilegast hefði náttúrlega verið að hann hefði viðhaft eðlileg vinnubrögð eins og t.d. Albert Guðmundsson gerði á sínum tíma, eins og hæstv. sjútvrh. gerði þegar hann seldi Hafþór þar sem leitað var tilboða og þau síðan metin og könnuð pukurslaust. Það mátti binda tilboðin við Siglufjörð, það mátti setja fram kröfur og skilyrði um það hvar fiskurinn yrði unninn o.s.frv.
    Við hv. þm. Pálmi Jónsson bárum fram frv., 249. mál á þskj. 385, þess efnis að ráðherra væri óheimilt að selja án samþykkis Alþingis. En ráðherrann lét sér ekki segjast við það heldur seldi hann samt. Það þurfti svo sem ekkert að kalla á Ríkisendurskoðun til þess að fá að vita vissu sína um að það væri útilokað að með nokkrum eðlilegum eða siðlegum hætti gætu þessi tvö smáfyrirtæki, Egilssíld og Drafnar, sem vill nú svo til að við þingmenn kjördæmisins þekkjum dálítið, orðið aðilar, svona hér um bil til jafnvægis á móts við Þormóð ramma. Það var náttúrlega fáránlegt að hlusta á ráðherrann þegar hann var að tala um að þessir snillingar, þessi familía sem á þessi litlu fyrirtæki, væri að hætta fé sínu með því að yfirtaka Þormóð ramma.
    Ég var auðvitað sannfærður um að þarna hefði fjmrh. misbeitt valdi sínu og ég leit á lögin um ráðherraábyrgð og fleiri lagabálka og á eftir að gera betur. Það lá náttúrlega alveg ljóst fyrir að þessi viðskipti gátu ekki staðist siðferðilega. Það lá alveg ljóst fyrir að fjmrh. hafði fórnað hagsmunum ríkissjóðs og gefið fyrirtækið skjólstæðingum sínum í Siglufirði. Það er kannski rétt, úr því að fjmrh. byrjaði á því, að greina ofurlítið hérna frá pólitískri stöðu í Siglufirði. Þar kviknaði rautt ljós í fyrra, skömmu fyrir bæjarstjórnarkosningar, þeir fóru þangað tveir nafnkenndir stjórnmálaforingjar, hæstv. utanrrh. og hæstv. fjmrh., og komu þar við og héldu fund. Það hefur alltaf verið hugsjón Ólafs Ragnars Grímssonar, þessi 20 ár sem ég er búinn að þekkja hann, að sameina vinstri menn undir sér --- en vel að merkja, undir sér, því alltaf hefur hann verið númer eitt, og láta þá þjóna sér og lyfta sér. Þess vegna hefur hann klofið hvern flokk þar sem hann hefur komið, og er langt kominn með þann sem hann er í núna. Það var sagt um Atla Húnakonung að það sprytti ekki gras þar sem hann hefði riðið um. Þetta er alveg eins með Ólaf Ragnar Grímsson, það er allt í rúst þar sem hann hefur farið um í pólitíkinni, og það er ekkert búið. Á þessu rauða ljósi varð til Nýr vettvangur hér í Reykjavík og F-listi á Siglufirði. F-listinn var upphaflega hugsaður eins og Nýr vettvangur, sem sameiginlegt framboð Alþfl. og Alþb. Alþfl. dró sig út úr þessu framboði og Alþb. bauð fram F-lista. Þeir þorðu ekki að bjóða fram G-lista, töldu heppilegra að fórna, eða setja í biðstöðu skulum við segja, ágætan foringja sinn á Siglufirði og hefja lið, sem er svona ámóta og Birtingarliðið hérna í Reykjavík, til vegs og virðingar innan bæjarstjórnarinnar. Og Alþb. bauð fram F-listann á Siglufirði.
    Ég er hér með ljósrit af blaði Alþb. í Siglufirði sem heitir Mjölnir. Það er með ávarpi til siglfirskra kjósenda, þetta er 23. maí 1990. Þar segir í ramma á forsíðu . . . ( Forseti: Forseti vill benda hv. þm. á að innanfélagsmál Alþb. eru ekki til umræðu hér í leiðinni.) Má ég leyfa mér að benda forseta á að innanfélagsmál, félagatal Alþb., var gert hér athugasemdalaust að umræðuefni af hv. formanni þess, Ólafi Ragnari Grímssyni, sem verður formaður víst einhverja daga enn. Alþb. segir þar: ,,Tökum virkan þátt í kosningabaráttunni, látið vita af fólki sem verður fjarverandi á kjördag, styðjum F-listann.`` Þetta sögðu þeir.
    Einn af bæjarfulltrúum F-listans er Ólafur Marteinsson, sá sem er eigandi Drafnars, og svili hans Róbert Guðfinnsson, sem sagðist vera guðfaðir F-listans því hann vildi nú ekki kenna hann við Ólaf Ragnar Grímsson. Róbert sagðist vera guðfaðir listans, þeir eru svilar þessi Ólafur og Róbert. Svo er að vísu til Jóhannes nokkur þarna á Siglufirði sem hefur sennilega kosið Sjálfstfl. og á hluta í Egilssíld.
    Fjmrh. hafði sem sagt gaukað smá jólagjöf að sálufélögum sínum og það lá á að koma henni út fyrir jólin, það var ekki hægt að draga þetta fram á milli jóla og nýárs, nei jólagjöf skyldi það vera.
    Það er ekki gott að misfara með eigur samfélagsins. Tilboð þessara 200 Siglfirðinga var ekki nógu gott heldur. Það var óhagstætt fyrir ríkið að selja og því átti það ekki að selja. Hins vegar hefði verið, eins og ég hef margtekið fram, miklu skynsamlegra að selja þessum 200 því þeir hefðu þá einhverja burði til þess að reka þetta fyrirtæki áfram fremur en hinir og fjöregg Siglfirðinga er betur komið hjá þeim. En hæstv. fjmrh. kaus að kasta því í hendur þessarar familíu og það höfðu orðið eigendaskipti á eigninni. Þetta er svipað og í Heimsljósi þegar verið var að gera eigendaskipti á eigninni.
    Við þingmenn kjördæmisins, að undanskildum flokksbróður ráðherrans, sáum okkur ekki annað fært en að skrifa forsetum Alþingis þar sem við töldum að hér væri um málefni af því tagi að ræða að ekki yrði undan því vikist að láta kanna hvernig að því væri staðið. Við óskuðum eftir því að forsetar bæðu Ríkisendurskoðun að kíkja á málið. Það er auðvitað verkefni Ríkisendurskoðunar að fara ofan í mál eins og þetta og það þýðir ekkert fyrir fjmrh. að koma með stóryrði eins og hann var með áðan um það að þetta væri ekki í verkahring Ríkisendurskoðunar. Eitt merkasta verk ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, hinnar fyrstu, var það að taka Ríkisendurskoðun undan fjmrn. og gera hana að sjálfstæðum eftirlitsaðila undir Alþingi, ekki deild í fjmrn. þar sem óprúttnir fjmrh. gætu reynt að kúga starfsmenn sína til þess að ganga erinda sinna eða látið þá þegja. Ríkisendurskoðun var með þessu hafin til vegs og virðingar. Þar starfa valinkunnir menn og þessi lagabreyting um Ríkisendurskoðun var mikið framfaraspor. Ríkisendurskoðun hefur öðlast sjálfstæði, frelsi og trúverðugleika og

afl til þess að rísa gegn órétti, misferli eða afglöpum. Það þýðir hins vegar ekki það að Ólafur Ragnar Grímsson þurfi að vera ánægður með Ríkisendurskoðun þegar hann getur ekki sagt henni fyrir eða látið hana þjóna sér. Að sjálfsögðu urðu forsetar Alþingis við ósk okkar og báðu Ríkisendurskoðun að kíkja á þessi viðskipti. Niðurstöður Ríkisendurskoðunar urðu auðvitað ótvíræðar. Þær staðfesta nákvæmlega það sem ég vissi. Að vísu er eitt atriði sem ég mundi nú svona í minni mestu hógværð, alkunnri hógværð, gagnrýna hjá Ríkisendurskoðun, þó ég ætli ekkert að fara að gera vesen úr því. Að mínu mati ofmeta þeir bæði litlu fyrirtækin, Egilssíld og Drafnar, þannig að ég tel að hlutur þeirra, jafnvel eftir mati Ríkisendurskoðunar, sé allt of hár.
    Ég held að allir þeir sem til þekkja á Siglufirði og horfa upp á eignir og rekstur og umsvif þessara fyrirtækja hljóti að vera mér sammála. Ég get t.d., til fróðleiks fyrir þingheim, upplýst það að Róbert Guðfinnsson keypti helming hlutabréfa Egilssíldar árin 1987 og 1988. Vitið þið hvað hann gaf fyrir helminginn af þessu fyrirtæki? Hann gaf 800 þús. kr. fyrir þessi bréf. Það var verð sem var nærri lagi.
Nú á þetta fyrirtæki, þar sem helmingurinn var 800 þús. kr. virði fyrir tveimur árum síðan, að vera orðið að stórveldi í Siglufirði.
    Mig langar til, frú forseti, að vitna til niðurstöðu Ríkisendurskoðunar. Hún tekur það að sjálfsögðu fram að almennra jafnræðissjónarmiða hafi ekki verið gætt í nægilega ríkum mæli við sölu hlutabréfa ríkisins í Þormóði ramma hf. ,,Þar kemur einkum til að hvorki sala á hlutabréfum né þau skilyrði og skilmálar sem sett voru fyrir sölunni voru auglýst opinberlega. Þegar litið er til hagsmuna sem í húfi voru í máli þessu verður að teljast eðlilegt að uppgjör miðað við 30. nóv. 1990 varðandi rekstur og efnahag fyrirtækjanna sem samið var um og sameiningin tekur til hefði legið fyrir. Einkum á þetta þó við um Þormóð ramma hf.`` Ég held að það hefði ekki verið vanþörf á að það hefði legið fyrir líka um hin. ,,Full þörf sýnist vera á að setja með formlegum hætti samræmdar almennar reglur um það hvernig skuli standa að sölu á eigum ríkisins með sama hætti og settar hafa verið reglur um hvernig standa skuli að opinberum innkaupum, sbr. lög nr. 52/1987.`` --- Ég vil skjóta því hér inn í að um þetta fjallar frv. sem ég hef flutt og verður tekið vonandi til umræðu allra næstu daga. Síðan segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar:
    ,,Miðað við þær forsendur sem Ríkisendurskoðun gaf sér við útreikning á virði Þormóðs ramma hf. og að teknu tilliti til skilyrða sem fjmrn. setti fyrir sölunni telst verðmæti alls hlutafjár í félaginu á söludegi vera á bilinu 250 -- 300 millj. kr. Við sölu hlutabréfa ríkissjóðs var hins vegar verðmæti þeirra metið á 150 millj. kr.
    Ríkisendurskoðun telur að beita hefði átt sömu aðferðum við mat á virði Þormóðs ramma hf. og Drafnars hf. og Egilssíldar hf. vegna sameiningar félaganna. Sé virði allra fyrirtækjanna metið eftir sömu aðferðinni og forsendur Ríkisendurskoðunar að öðru leyti

lagðar til grundvallar hefði hlutur Drafnars hf. og Egilssíldar hf. í hinu sameinaða fyrirtæki átt að nema tæpum 30 en ekki 40%.``
    Þar lýkur þeirri tilvitnun sem ég ætlaði að nota í þetta skiptið úr niðurstöðum Ríkisendurskoðunar.
    Það er auðvitað ljóst af þessu að ranglega hefur verið staðið að sölunni og stórkostlega misfarið með hagsmuni almennings. Svikamylla var sett í gang til þess að umbuna fjölskyldu sem fjmrh. hefur, eins og sagt er í Biblíunni, velþóknun á. Málið er upplýst og dómur Hæstaréttar fallinn. En þá komu skapbrestir fjmrh. í ljós. Í stað þess að skammast sín og reyna að bæta úr mistökunum gerir hann atlögu að Ríkisendurskoðun. Þetta er alveg það sama og hann gerði við umboðsmann Alþingis. Þetta er alveg það sama og honum hættir til að gera þegar hann missir stjórn á sér. Þegar hann í örvæntingu sinni sér að hann er kominn út í horn grípur hann til svona óyndisúrræða.
    Hann skrifaði framúrskarandi óskynsamlegt bréf til forseta Sþ. Það er náttúrlega yfirgengilegt út af fyrir sig að ráðherra í ríkisstjórn Íslands skuli skrifa þvílíkt bréf. Menn þekkja gang málsins síðan. Ríkisendurskoðun gerir grein fyrir mati sínu og greinargerðin staðfestir á mjög tryggilegan hátt hvert einasta atriði skýrslunnar. Þrátt fyrir fimbulfambið í ráðherranum þurftu þeir ekki að leiðrétta eitt einasta atriði í skýrslu sinni vegna þess að hún var pottþétt. Og þó að hann sé að tína saman einhverja pappíra eftir sjálfan sig og leggja út af þeim, grípa niðurstöður eða áætlanir eða umsagnir, blaðaúrklippur úr Vísbendingu eða mjög vægilega orðaðar álitsgerðir og fullar af fyrirvörum til þess að reyna að styrkja málstað sinn, sem er náttúrlega svo aumur að hann telur sig, úr því að hann er kominn í stríð á annað borð, verða að kasta öllu því grjóti sem hann getur náð í, þá haggar það ekki Ríkisendurskoðun vegna þess að Ríkisendurskoðun hafði rétt fyrir sér.
    Fjöregg Siglufjarðar er komið í hendur þessarar familíu þó að siðlaust hafi verið að því staðið. Nú bíða Siglfirðingar framtíðarinnar. Forsmekkurinn er aðeins byrjaður að koma í ljós. Skrifstofustjóri fyrirtækisins var rekinn fyrirvaralaust um daginn af því að hann hafði leyft sér að hafa áhuga á því að fyrirtækið kæmist í hendur almennings á Siglufirði. Runólfur Bragason, skrifstofustjóri fyrirtækisins, sem hefur starfað þar til margra ára við ágætan orðstír er sannarlega ekki flokksbróðir minn, því að hann er frambjóðandi fyrir Sjálfstfl. í þessum kosningum. Hann var bara rekinn fyrirvaralaust og hann fær ekki að vita neina ástæðu, enda hafa þeir ekkert á manninn. Svona hugsa þessir herrar sér að beita valdi sínu. Í svona stöðu er nú búið að setja Siglufjörð. Þetta er réttlæti fjmrh. Ég sem er búinn að þekkja hann í 20 ár er svo sem ekkert mjög hissa lengur.
    Þeir hafa fengið blómlegt fyrirtæki að gjöf. Með því að hengja tvö mjög veik fyrirtæki, sem þeir áttu sjálfir, utan á það. Svo stofna þeir Þormóði ramma fyrirsjáanlega í mjög verulega hættu. Og sannið þið til, þegar þeir verða búnir að reka þetta fyrirtæki í nokkur missiri, þetta sameinaða fyrirtæki, þá skulum

við sjá hvernig komið verður fyrir því. Því miður, endirinn getur ekki orðið öðruvísi en erfiðleikar eins og í pottinn er búið og Þormóði ramma er stofnað í stórhættu. Orðalag fyrirvarans um kvótasölu úr Siglufirði er svo loðið að þar er ekkert hald. Þeir geta skákað í því skjóli að það sé hagkvæmast fyrir Þormóð ramma að selja kvótann úr byggðarlaginu og þá bara gera þeir það og það er ekkert hægt að stoppa þá í því. Bæjarsjóður Siglufjarðar er ekki þannig í stakk búinn að hann geti leyst til sín kvóta fyrirtækisins ef þeim þóknast að selja hann eða hluta hans. Bæjarstjórn Siglufjarðar getur heldur ekki keypt skipin ef þeim skyldi detta í hug að selja þau. Það eru engar hömlur á sem neitt hald er í. Og ríkissjóður hefur ekki lengur sömu skyldur við þetta fyrirtæki og hann áður hafði þar sem hann á einungis lítinn hlut í fyrirtækinu. Ótti verkalýðsfélagsins er sannarlega skiljanlegur.
    Það er ofboðslegt að horfa upp á þessar aðfarir fjmrh. Hann hefur unnið Siglufirði stórtjón með gerræði sínu --- og nú lyppast hann út um dyrnar. Ég ætla að biðja forseta að kalla á fjmrh. aftur í salinn. ( KP: Er hv. þm. stuðningsmaður ráðherrans samt?) Ég er að koma að því. ( Fjmrh.: Já, hann er einlægur stuðningsmaður ráðherrans.) Þessi embættisfærsla er fyrir neðan allar hellur. Ég get alveg upplýst hæstv. fjmrh. um það að Ríkisendurskoðun gengur ekki erinda okkar Pálma Jónssonar né annarra þingmanna og ég mótmæli þeim móðgunum sem ráðherra hefur látið út úr sér í garð þessara ágætu starfsmanna hér úr þessum ræðustól. Ég mótmæli því eins og öðru í ræðu ráðherrans, það er fljótgert.
    Hann reynir að tína til þessi hálmstrá og leggja út af þeim. Hann spyr hvort Ríkisendurskoðun sé þannig mönnuð að hún ráði við verkefni sitt. Svar mitt við því er tvímælalaust já. En ég er hins vegar efins um að stóll fjmrh. sé þannig mannaður að unandi sé við.