Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli mínu hér í athugasemdum mínum utan dagskrár og um þingsköp, þá hefur hæstv. fjmrh. flutt hér árásarræðu á eina af stofnunum ríkiskerfisins, þá stofnun sem heyrir undir Alþingi, Ríkisendurskoðun, í samfleytt sjö stundarfjórðunga. Ég hygg að þetta sé einsdæmi og það hafi aldrei nokkru sinni áður hvarflað að nokkrum ráðherra að haga sínum málflutningi með slíkum hætti eins og hér var gert. Ég vil lýsa því yfir að sú stofnun sem hér á hlut að máli á fyllsta traust skilið. Hún hefur á að skipa hæfu starfsliði. Hún hefur á að skipa mönnum sem leita sér fanga í sínum niðurstöðum út fyrir veggi stofnunarinnar og til hennar er borið fyllsta traust. Ég fullyrði að til hennar og til þeirrar niðurstöðu sem fram kemur frá Ríkisendurskoðun er borið meira traust heldur en til þess sem hæstv. fjmrh. kýs að segja í það og það sinnið. Þetta kemur auðvitað ekki neinum á óvart og þetta eru auðvitað ekki nein lofsyrði um þá stofnun sem hér á hlut að máli því að það er nú þannig að þrátt fyrir mælsku og þrátt fyrir það að hæstv. fjmrh. kunni að leggja mál sín fyrir með þeim hætti að það líti sæmilega út á yfirborðinu, þá er það nú þannig að til hans er ekki borið traust og það hefur löngum loðað við þennan hæstv. ráðherra þannig að það er ekki á nokkurn hátt verið að gera Ríkisendurskoðun eða starfsmönnum hennar greiða með því að fara þar í einhvern samjöfnuð, enda er það fjarri mér.
    Ég vil gjarnan hefja þessa ræðu mína á því að leggja nokkra áherslu á þýðingu þess fyrirtækis sem hér er verið að ræða um, þ.e. Þormóðs ramma. Ég held að það sé ekki ofmælt að Þormóður rammi hafi nú síðustu og síðari árin verið algjör burðarás í afkomu Siglufjarðar og í atvinnulífi þar. Þetta fyrirtæki á þrjá togara og fullbúið fiskvinnsluhús og það ræður yfir aflakvóta sem er 6050 þorskígildi, auk um 100 tonna rækjukvóta. Árið 1982 tók félagið í notkun nýtt frystihús sem þá hafði að vísu verið í smíðum í einn áratug. Svo langur byggingartími á fiskvinnsluhúsi er afar óheppilegur og það varð auðvitað til þess að fyrirtækið safnaði skuldum sem hafa verið því fjötur um fót alveg fram undir þetta. Svo langur byggingartími verður auðvitað afar erfiður og vaxtagreiðslur safnast upp. Auk þessa á fyrirtækið aðrar eignir sem skipta minna máli. Það á skrifstofuhúsnæði sem er skilið frá fiskvinnsluhúsinu. Þar er hægt að koma fyrir verbúðum og fyrirtækið á íbúðarhús ásamt ýmsu lausafé. Þetta er sem sagt stórt fyrirtæki á norðlenskan mælikvarða, raunar íslenskan mælikvarða, stórt fyrirtæki í þessum bæ og algjör burðarás þar í öllu atvinnulífinu.
    Ég vil gjarnan að þetta komi fram til þess að þeir sem um þetta hugsa skynji þýðingu þessa fyrirtækis fyrir byggðarlagið og hvað hér er um stórt mál að ræða. Nú hefur það gerst að hæstv. fjmrh. hefur selt hluta af hlutabréfum fyrirtækisins til einstaklinga og hann hafði rætt þau mál á fundum með okkur þingmönnum tvisvar sinnum. Ég vil fyrst taka það fram að

ég tel ekki ástæðu til þess að gagnrýna það að hlutabréf ríkisfyrirtækis séu seld og það sagði ég á fundum með fjmrh. En það er vitaskuld skilmálum háð hvernig að því skuli staðið og á fundi með fjmrh. þann 4. des. sl., sem hæstv. fjmrh. vitnaði til, lýsti ég mínum skilmálum. Þeir voru í megindráttum þessir:
    1. Að farið væri að í samræmi við almennar viðskiptavenjur.
    2. Að allir Siglfirðingar að minnsta kosti ættu þess kost að kaupa þessi hlutabréf og ættu þeir þá jafnan aðgang að því að fá þau keypt.
    3. Að aðrir en Siglfirðingar gætu komið til greina við það að kaupa hlutabréfin, enda kæmi þá nýtt fé inn í fyrirtækið til að styrkja stöðu þess og stykrja hagsmuni atvinnulífsins í Siglufirði. Þetta væri ekki síst álitlegt ef svo háttaði að eigendur þess fjármagns væru reiðubúnir að fylgja fjármagni sínu eftir og gerast íbúar í þessari byggð.
    4. Að fram færi hlutlaust mat á eignum fyrirtækisins og það færi jafnframt fram sambærilegt mat á þeim fyrirtækjum sem um var rætt að gætu orðið eignaraðilar og talað var um að sameina þessu fyrirtæki.
    5. Að fyrir lægi eigi minna en 9 mánaða uppgjör á reikningum fyrirtækisins og þeirra fyrirtækja sem hugsað var eftir að sameina fyrirtækinu. Ef ekki 9 mánaða, þá 12 mánaða.
    Enn var það skilyrði af minni hálfu, og sömu skilyrði settu ýmsir aðrir þingmenn kjördæmisins, að starfsemi fyrirtækisins yrði áfram með fullum þrótti á Sigufirði og að kvóti fyrirtækisins yrði ekki seldur úr bæjarfélaginu. Enn var það skilyrði af okkar hálfu að haft yrði samráð við okkur þingmenn og eins og það var orðað: að ekkert væri aðhafst í þessu máli án þess að þingmenn kjördæmisins fylgdust með því skref fyrir skref.
    Ég get sagt það að á þessum fundi og í annan tíma lét hæstv. fjmrh. líklega yfir því að þannig yrði staðið að málum. Það kemur svo í ljós þegar selt er að þá er ekkert af þessum skilyrðum uppfyllt utan eitt. Ekkert utan eitt. Það er með fyrirvara í kaupsamningi gert ráð fyrir því að starfsemin haldi áfram á Siglufirði og kvótinn verði ekki seldur úr bænum. Svo kemur þessi hæstv. fjmrh. hér og segir það alveg blákalt og endurtekur með sínu steigurlæti að þingmenn kjördæmisins hafi ekki á fundum með honum gert eina einustu athugasemd og ekki sett eitt einasta skilyrði. Og þegar ég greip fram í fyrir honum og spurði hvers lags ósannindavaðall þetta væri, þá endurtók hann fullyrðingar sínar án þess að blikna eða blána. Þessi skilyrði voru ekki einungis sett af mér heldur voru þau einnig sett af ýmsum öðrum þingmönnum kjördæmisins. Þetta var auðvitað ekki eina dæmið þar sem hæstv. fjmrh. fór rangt með og fjarri sannleikanum.
    Svo vill til að það hefur spurst að um þetta mál hafi verið fjallað í leynd og pukri allt frá því í ágústmánuði sl. Og síðan hefur verið slegið úr og í af til að mynda hæstv. fjmrh. hvort selt yrði eða selt ekki þó að í raun lægi það fyrir og séð eftir á að það var ákveðið fyrir alllöngu áður en kaup voru gerð að tilteknum aðilum væri afhent þetta fyrirtæki á því verði sem um var að ræða. Það var ekki verið að segja okkur þingmönnum frá því og það var ekki verið að segja frá því í bæjarstjórninni. Það var slegið úr og í, sagt að það væri verið að athuga hvort það kæmu einhver boð í þetta fyrirtæki, hvort einhverjir vildu kaupa, hvaða möguleikar væru á að selja einhvern hluta af hlutabréfum ríkisins í fyrirtækinu o.s.frv., en það var ekkert ákveðið um það sagt hvort nokkuð yrði af þessu, sennilega yrði bara ekkert af því. Þannig var slegið úr og í alveg sitt á hvað án þess að segja hið sanna, að búið var að fjalla um þetta mál vikum og mánuðum saman.
    Við kaupin var það auðvitað upplýst að það hafði engra jafnræðissjónarmiða verið gætt. Það var engra jafnræðissjónarmiða gætt að því er snertir viðskipti. Almennar viðskiptavenjur voru að engu hafðar. Hæstv. fjmrh. er hér í sínum sjö stundarfjórðunga lestri búinn að fjalla mikið um verð og verðútreikninga. Hann sjálfur kom í veg fyrir það að myndast gæti eitthvert raunvirði á þessum hlutabréfum við sölu með því að hindra það að þau væru auglýst eða boðin út. Ef hlutabréfin hefðu verið boðin út þá hefði myndast raunvirði. Allar útreikningsreglur um hlutabréf, við sölu þeirra þegar ekki má leita eftir því sem markaðurinn vill, má teygja og toga í allar áttir. Það er út af fyrir sig rétt. En það var sem sagt hindrað af hæstv. fjmrh. og þeim sem störfuðu að þessu með honum í fjmrn., sem ekki eru nú þar allir löglegir embættismenn, að haga þessu máli á þann hátt að engra venjulegra jafnræðissjónarmiða væri gætt og ekki viðskiptasjónarmiða.
    Fyrirtækið var ekki auglýst. Hlutabréfin voru ekki auglýst. Og ekki var ansað, að kalla, tilboði frá 175 Siglfirðingum. Það var að vísu talað við þá í síma einu sinni eða tvisvar með þeim hætti sem Páll Pétursson hefur hér sagt frá, með höstuglegum hótunum um það að ef þeir ekki kæmu með þessi og þessi gögn innan dægurs eða eins eða tveggja dægra, þá yrði þeim ekki ansað. Þeim var síðan ekki ansað. Þeir voru raunverulega hunsaðir.
    Það var ekkert samráð haft við þingmenn, a.m.k. ekki við mig, um það hvernig á þessum málum yrði tekið þegar til ákvörðunar kæmi. Ekkert. Lokafundur með hæstv. fjmrh. var einungis í því formi að ráðherra tilkynnti hvað verið væri að gera og síðan var gengið upp í ráðuneyti og skrifað undir hálftíma síðar. En það var ekki haft samráð og ekki hlustað á þau skilyrði sem við settum fyrir þessari sölu.
    Það fór ekkert hlutlægt mat fram á eignum þessara fyrirtækja. Hæstv. fjmrh. hefur hér verið að vísa í mat Ólafs Nilssonar endurskoðanda. Það er út af fyrir sig rétt að Ólafur Nilsson er virtur endurskoðandi. Og það er alveg hárrétt sem hæstv. ráðherra sagði að hann var einu sinni skattrannsóknarstjóri. En Ólafur Nilsson segir hér í greinargerð sinni til fjmrh. um starf þeirra félaga, hans og félaga hans sem Hallgrímur heitir, ef ég man rétt:
    ,,Við höfum ekki haft aðstöðu til að skoða eignir félaganna sérstaklega og munum við ekki leggja hér

mat á einstakar eignir þeirra. Ef farin verður sú leið að ríkissjóður selji hluta af hlutabréfaeign sinni í Þormóði ramma hf. og að félögin verði síðan sameinuð er nauðsynlegt að leggja mat á öll félögin í samningum aðila.``
    Hér segir Ólafur Nilsson: Við höfum ekki lagt neitt mat á eignir þessara fyrirtækja.
    Það kemur auðvitað í ljós að hæstv. fjmrh. ber fyrir sig menn eins og Ólaf Nilsson með miklu sterkari hætti heldur en nokkur fótur er fyrir. Ólafur Nilsson gerir hins vegar ábendingar um það hvert gæti verið mat á þessum fyrirtækjum án þess að hafa skoðað eignir félaganna. Og það er ekki fjmrh. til hróss að nota sér greinargerðir umfram það sem þær gefa tilefni til. Raunverulegt mat á eignum þessara fyrirtækja fór því ekki fram.
    Ég vil gjarnan taka það fram til þess að fyrirbyggja allan misskilning að ég er ekkert að gagnrýna kaupendur þessara bréfa. Þeir kaupa auðvitað ef þeir telja sér það hagstætt. Þeir fara auðvitað eins langt og þeir komast í viðskiptum sínum við hæstv. fjmrh. Telji þeir sér hagstætt að kaupa, þá gera þeir það. Þeir eru ekkert gagnrýnisverðir fyrir það. Það er auðvitað eðlilegt að þeir kaupi á hálfvirði eða minna ef þeim er það mögulegt, ef eignin er föl á því verði. Það er eðlilegt, þeir hugsa um sig. Þeir eru ekki að gæta hagsmuna ríkissjóðs eða almennings í landinu. Það er líka þeirra mál hvar þeir eru í flokki. Ég skipti mér ekki af því. En það er nú víst ekki varlegt miðað við orð þess hæstv. forseta sem sat hér í forsetastól áðan að ræða þau mál frekar, enda held ég að það hafi verið sagt nóg um það. (Gripið fram í.) En það er nú svo að a.m.k. þeir ráðgjafar, sem hæstv. fjmrh. hafði í kringum sig, eru þeir vikapiltar sem hann hefur verið að raða kringum sig í fjmrn. og ég veit hvar þeir hafa verið í flokki. Ég mótmæli því að ráðuneytisstjórinn í fjmrn. hafi unnið þetta mál fyrir hæstv. ráðherra eða verið sérstakur ráðgjafi hans í því. Hann hefur auðvitað tekið þátt í því sem embættismaður vegna þess að honum sem slíkum er það skylt.
    En það má auðvitað gagnrýna þessa menn, sem nú eru orðnir eigendur fyrirtækisins, fyrir það að þeir hefja störf sín á því að grípa skjótt til pólitískra hreinsana með því að segja skrifstofustjóra fyrirtækisins fyrirvaralaust upp, án nokkurra ástæðna vegna þess að hann leyfði sér að fara fyrir þeim flokki manna, 175 Siglfirðinga sem vildu kaupa þetta fyrirtæki og gera það að almenningseign í Siglufirði. Og það var alls engin endanleg tala, hv. þm. Páll Pétursson nefndi hér allt að 200, því að þessir 175 sem skráðir voru á blað höfðu skráð nöfn sín á skömmum tíma og það var auðvitað auðvelt að fá þá upp í verulega hærri tölu.
    Ég hins vegar gagnrýni hæstv. ráðherra fyrir að fara ekki að viðskiptavenjum og hafa ekki í heiðri jafnræðissjónarmið, hvorki gagnvart þeim mönnum sem vildu kaupa, né heldur í mati á þeim fyrirtækjum sem þarna eiga hlut að máli.
    Ég tel að hæstv. ráðherra hafi með þessum hætti brotið siðferðilegar leikreglur um sölu á ríkiseign. Þó

hann hafi sennilega ekki brotið lög þá er þetta mál með þeim hætti að framferði hæstv. ráðherra við sölu á hlutabréfum fyrirtækisins er sennilega löglegt en siðlaust, eins og stundum var sagt hér áður af einum fyrrv. hæstv. ráðherra og þm.
    Það var ekkert, eins og áður segir, útboð við haft. Það var engin tilraun gerð til þess af hálfu hæstv. ráðherra að leitast við að ná samstarfi aðila í Siglufirði um þetta mál. Það var ekki ein einasta tilraun gerð til þess að laða saman þá aðila sem vildu kaupa fyrirtækið, hvorki þá félaga, svilana, Ólaf Marteinsson og Róbert Guðfinnsson, né hina 175 undir forustu Runólfs Birgissonar. Það mátti ekki taka eina eða tvær vikur, það mátti ekki taka örfáa daga til að kanna hvort væri hægt að ná friði um málið. Hæstv. ráðherra valdi það að ljúka þessu máli á þann hátt að ljóst var að hann væri að efna til ófriðar. Og það er ófriður um þetta mál í Siglufirði og hefur verið síðan. Hæstv. ráðherra hafnaði því að fara þá leið sem leitt hefði getað til friðar. ( Forseti: Forseti verður að grípa hér inn í ræðu hv. 2. þm. Norðurl. v. því nú þarf að fresta þessari umræðu og fresta þessum fundi vegna þingflokksfunda eins og áður hefur komið fram.) Ég fresta þá ræðu minni, forseti.