Málefni Litáens
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Stjórnmál eru list hins mögulega og með fullri virðingu fyrir styrkleik Íslendinga, með fullri virðingu fyrir styrkleik íslensku ríkisstjórnarinnar og með fullri virðingu fyrir núverandi utanrrh. efa ég að miðað við líftíma núv. ríkisstjórnar, sem mun trúlega nálgast endalok hvað sem svo verður, þá hygg ég að hæstv. utanrrh. hafi ærin verkefni við að glíma þó hann leysi ekki það sem hér er verið að tala um. Að hæstv. ríkisstjórn hafi ærin verkefni við að glíma þó hún leysi ekki það sem hér er verið að tala um.
    Ef ég skil þetta mál rétt, eins og orðanna hljóðan er, þá hefur ríkisstjórnin átt í viðræðum frá 23. jan. 1991 um að verða við ósk lýðræðislega kjörinna stjórnvalda í Litáen um viðræður um stjórnmálasamband. Viðbótin sem kemur fyrir neðan hlýtur að skoðast sem túlkun á því að þær viðræður hafi leitt til þess að nú sé rétt að samþykkja fullveldi handa Litáum. Það er beint framhald. Það er rökrétt framhald. Það hefur ekki heyrst neitt sem kemur fram um það að hér sé verið að leggja til óraunhæfa hluti.
    Mér sýnist að staðan sé sú aftur á móti að núverandi forseti Sovétríkjanna, Gorbatsjov, hafi þurft að vinna eið að því að virða stjórnarskrá Sovétríkjanna. Samkvæmt þeirri stjórnarskrá er Litáen hluti af Sovétríkjunum. Ég fæ þess vegna ekki annað séð en það verði að vera sovéska þingið sem taki um það ákvörðun eigi að breyta þeirri stjórnarskrá. Það verði ekki gert á Alþingi Íslendinga. Ég sé ekki annað en að sú tímasetning sem menn eru að setja á þessa hluti sé einhver sú hættulegasta sem hægt er að velja vilji menn Eystrasaltslöndunum vel. Á sama tíma og stríðið geisar við Persaflóa. Á sama tíma og raddir koma fram um það að samþykkt Sameinuðu þjóðanna sé ekki túlkuð á réttan veg. Í staðinn fyrir að frelsa Kúvæt hafi menn snúið sér að því að minnka herstyrk Íraka fyrst og fremst með hernaðaraðgerðum úr lofti í stað þess að senda landherinn til að frelsa Kúvæt. Er það einmitt ekki í skjóli slíkra atburða sem mestar líkur eru á að menn fari af stað með vopnavald á fleiri stöðum? Er tímasetningin rétt? Hún er jafn kolvitlaus og hún getur verið. Enda athyglisvert að hin löndin tvö, sem vafalaust þrá ekki síður sitt sjálfstæði, hafa annan hátt á að sækja sinn rétt.
    Sögulega séð fer það ekki milli mála að Ísland viðurkenndi sjálfstæði Litáens. Sögulega séð er það líka rétt að við höfum ekki afturkallað það. En það hefur margt gerst í tímanna rás sem ekki þýðir að horfa fram hjá. Mér er sagt að seinasti konsúll Eistlands hér á landi hafi verið Tómas Tómasson og 1948, í utanríkisráðherratíð Bjarna Benediktssonar, hafi það verið lagt niður og ekki orðið endurnýjun. Helsinki - sáttmálinn, sem Geir Hallgrímsson staðfesti á sínum tíma, var staðfesting á landamærum Evrópu eins og þau voru eftir stríð. Ford Bandaríkjaforseti mun hafa verið eini leiðtoginn sem mótmælti því að hann staðfesti landamærin eins og þau voru. Menn hafa verið að reyna að manna sig upp í að halda því fram eftir á að þeir hafi ekki samþykkt þetta eða hitt.

    Ég held að verkefnin séu ærin hjá Íslendingum, íslenska þinginu, og hæstv. utanrrh. ef við ætlum nú að taka upp þá stefnu að segja: Landamæri Evrópu eftir stríð eru ekki eins og Íslendingar vilja hafa þau. Ætlum við að sitja hjá ef Þjóðverjarnir sem nú eru í Póllandi heimta að fá að stofna sjálfstætt ríki? Heimta að fá að stofna ríki af því að þeir séu þýskumælandi og af því að þeir beri ekki umfram aðra Þjóðverja ábyrgð á stríðsglæpum Hitlers. Ætlum við að sitja hjá? Ætlum við að senda sendinefnd út? Hvað ætlar íslenska þingið að gera? Ætlum við að sitja hjá ef Pólverjarnir sem nú eru í Rússlandi og telja sig ekki frekar vera skiptimynt í samningum stórvelda eftir stríð heimta sinn rétt og vilja að landamærin séu leiðrétt? Ætlum við að sitja hjá? Ef Ungverjarnir, sem nú eru í minnst þremur löndum öðrum, krefjast þess að landamærum Ungverjalands verði breytt, ætlum við þá að senda fulltrúa þingsins til að framkvæma breytingar? Er það yfirlýst stefna að nú skuli frelsa heiminn?
    Ég veit ekki hvort á slíkri stundu er rétt að minnast á kvæði eftir að vísu nokkuð svartsýnt skáld en vestfirskt, Stein Steinarr. Ég sé að hæstv. ráðherra kannast strax við texta þess. Það fjallar um að frelsa heiminn.
    Það er svo:
    Það er alveg sama, þótt þú sért góður maður
og gegn
    og gangir í hlé eins og drengur, saklaus og feiminn.
    Þú ræðst samt alltaf á það, sem þér er um megn,
    og þess vegna tekst þér aldrei að frelsa heiminn.