Málefni Litáens
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Guðmundur Ágústsson :
    Virðulegi forseti. Þar sem fyrirsjáanlegt er að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson fær ekki svar við sínum spurningum um það hvað hinar Norðurlandaþjóðirnar ætla að gera í þessu máli, þá tel ég rétt, til að ljúka ekki þessari umræðu án þess að þau svör séu gefin, að ég standi hér upp og skýri það sem ég veit í þessu máli. Í Dagblaðinu í dag er skýrt frá því að þrír þingmenn hafi verið á ferð um Eystrasaltsríkin, hafi farið fyrst til Eistlands, síðan til Lettlands og loks til Litáens. Þessir þingmenn eru Karin Söder frá Svíþjóð, Anker Jörgensen frá Danmörku og Jan P. Syse frá Noregi. Þetta fólk hélt blaðamannafund í Litáen og var spurt að því hvaða afstöðu þjóðir þess hefðu til sjálfstæðisbaráttunnar. Svörin voru þau að það væri venja að viðurkenna einungis ríki sem hefðu fullan yfirráðarétt yfir landsvæði sínu. Á þeim forsendum sögðu þessir aðilar að þeir mundu ekki að svo komnu og með vísan til þessa viðurkenna Litáen sem sjálfstætt ríki. Þetta tel ég rétt að komi fram hér þegar við fjöllum um þessi mál og greiðum atkvæði á eftir um þessa þáltill., sem hv. utanrmn. hefur samið og lagt hér fram.
    Ég persónulega hef haft mjög blendnar tilfinningar til þessa máls og hvernig það hefur verið rekið af hálfu okkar Íslendinga. Ég taldi í upphafi, eins og margir sem hafa fylgst með fréttum af þessu máli, að þetta væri hið besta mál. Það væri okkur til mikils sóma að standa við bakið á lítilli þjóð eins og við erum og stuðla að því að þetta ríki fengi sjálfstæði. En við verðum að líta á heiminn í samhengi og þá atburði sem eru að gerast. Ekki líta einungis á þetta mál heldur verður að líta á málin út frá því hvað er að gerast í Sovétríkjunum, hvað er að gerast við Persaflóa og hvað gerist ef þau verk sem við erum að vinna ná fram að ganga.
    Ég er mjög sammála því að þessi ríki fái sjálfstæði og vil gera það sem í mínu valdi stendur til þess að svo geti orðið. En ég held að við, þessi litla þjóð, eigum ekki ein sér að hafa algert frumkvæði. Við eigum, eins og við höfum hagað okkar utanríkispólitík, að vera í samstarfi við aðrar þjóðir, samstarfi við Norðurlandaþjóðirnar í einu og öllu sem við tökum okkur fyrir hendur á vettvangi alþjóðamála og stuðla að því að saman stöndum við í því að koma á þeim lýðréttindum og öðru sem við viljum.
    Ég mun ekki greiða atkvæði gegn þessari tillögu á eftir þegar greidd verða atkvæði um þetta mál. Hins vegar mun ég sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.