Málefni Litáens
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Umhverfisráðherra (Júlíus Sólnes) :
    Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu höfum við rætt þetta mál mjög ítarlega í þingflokki Borgfl. eins og ég geri ráð fyrir að aðrir þingflokkar hafi rætt þetta mál. Því er ekki að leyna að skoðanir hafa verið skiptar um hvernig ætti að halda á þessu. Þetta er erfitt, flókið og vandasamt mál. Það er ekki létt verk fyrir þingið að taka þessa ákvörðun.
    Ég vil hins vegar ítreka að það er ekki skoðun Borgfl. sem kom fram hér hjá þingflokksformanni áðan. Við höfum haft mismunandi skoðanir í þessu máli og í þeim anda, sem við höfum starfað, að við viljum ekki leggja nein flokksbönd á menn heldur leyfa þeim að hafa sínar skoðanir og fá að tala fyrir þeim hér á hinu háa Alþingi geri ég engar athugasemdir við það sem þingflokksformaður Borgfl. sagði hér áðan. Ég virði hans skoðanir í þessu máli. Hins vegar mun ég greiða þessari tillögu atkvæði og aðrir þingmenn Borgfl. munu greiða ýmist atkvæði með eða móti eftir sinni sannfæringu. Hér er ekki um að ræða mál sem ég vil að sé bundið föstum flokksböndum heldur er hér um að ræða mál sem þingmenn verða að gera upp við sig og sannfæringu sína hvaða afstöðu þeir taka.