Framhald utandagskrárumræðu
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Það vill svo til að fyrir ærið löngu síðan var ákveðið að sérstök ráðstefna um þróun ríkisútgjalda, sem haldin er á grundvelli skýrslu fjármálaráðherra Norðurlanda, yrði haldin á morgun frá því kl. 1 til kl. 5 eða hálfsex. Fjmrh. boðar til þessarar ráðstefnu. Á hana er boðið fulltrúum starfsmannafélaga opinberra starfsmanna, forstöðumönnum ríkisstofnana, þingmönnum og fjölmörgum öðrum. Það er embættisskylda fjmrh. að vera viðstaddur þá ráðstefnu sem hann hefur boðað til fyrir löngu síðan og finnst mér satt að segja sérkennilegt ef hv. þm. vilja ekki taka tillit til þess. Það vill svo til að þessar klukkustundir, frá því kl. 1 til hálfsex eru eini tíminn sem ég er bundinn á. Ég er reiðubúinn að ræða þetta mál hér í nótt, hv. þm., ég er reiðubúinn að ræða það í fyrramálið, ég er reiðubúinn að ræða það annað kvöld, ég er reiðubúinn að ræða það allan miðvikudaginn, allan fimmtudaginn, allan föstudaginn og svo lengi sem menn vilja og mun auðvitað mæta hér á morgun ef þingið vill ekki taka tillit til þess að þetta er eini dagurinn á þessu ári sem fjmrh. hefur boðað til fundar af þessu tagi, fjölmörgum innlendum gestum og reyndar einnig erlendum. Ef þingið vill ekki taka tillit til þess þá að sjálfsögðu mæti ég hér. En að gera úr því mál hér í þingsölum að þessi umræða hefjist hálfsex í staðinn fyrir kl. 4 finnst mér sérkennilegt.