Framhald utandagskrárumræðu
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Pálmi Jónsson :
    Virðulegi forseti. Um það hafði verið gert samkomulag að framhald utandagskrárumræðu um málefni Þormóðs ramma skyldi hefjast kl. 4 á morgun. Ég hefði kosið að það yrði fyrr á fundartíma Alþingis á morgun, en gat þó sætt mig við þessa niðurstöðu. Og ég hlýt að fara fram á það að við það verði staðið.
    Ég veit það, og það hefur komið hér fram hjá hæstv. fjmrh., að hann hafi ákveðið að efna til ráðstefnu á morgun sem hefjist kl. 1, ef ég man rétt, og boðið til hennar ýmsum þingmönnum. Nú er það skylda þingmanna að vera hér við á fundartíma og það er einnig skylda hæstv. fjmrh. að vera hér við á fundartíma, ef hann gegnir störfum þingmanns. Það er enn fremur skylda hans að vera hér við umræðu um þau mál sem hann er í forsvari fyrir í hæstv. ríkisstjórn.
    En ég tel að það sé ekki hægt að sætta sig við það eftir það sem á undan gekk hér í dag um þá skipan sem höfð er á þessu máli að taka það upp eitt allra skýrslna til Alþingis í umræðum utan dagskrár. Hæstv. fjmrh. breiddi sig hér yfir fundartímann í dag í sjö stundarfjórðunga til þess að ófrægja eina af þeim stofnunum sem hvað mestrar virðingar nýtur í stjórnkerfinu. Ég sætti mig ekki við það sem hann er hér að fara fram á að framhald umræðunnar verði á kvöldfundum þegar enginn má vera að því að hlýða á umræður manna.