Framhald utandagskrárumræðu
Mánudaginn 11. febrúar 1991


     Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Ég er ekki viss um að það þurfi löng fundahöld til að finna lausn á þessu máli. Í sjálfu sér er ekkert athugavert við það að hæstv. fjmrh. boði til ráðstefnu hvenær sem honum þykir henta. Hann er hins vegar háður því að ef um er að ræða á Alþingi mál sem til hans kasta koma, þá er honum skylt að mæta og nú hefur hann lýst því hér yfir að ef eftir því verði óskað að hann mæti hér á morgun til þeirrar umræðu sem hér er verið að fjalla um, þá muni hann að sjálfsögðu verða við því. Ég sé ekki að hér sé um að ræða neitt vandamál. Það hafði verið ákveðið að þessi umræða skyldi hefjast kl. 4 á morgun að loknum deildafundum. Hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að hann sé reiðubúinn að koma ef þingið óski eftir því. Það er óskað eftir því á Alþingi að ráðherra mæti og þá geta menn svo sannarlega haldið við þær ákvarðanir og áætlanir sem upphaflega voru ákveðnar. Ég sé því ekki að það þurfi að eyða löngum tíma í að komast að þeirri niðurstöðu að halda við þá áætlun sem gerð hefur verið. Ég skil orð hæstv. ráðherra á þann veg að hann sé tilbúinn til þess fyrir sitt leyti.