Mannanöfn
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Guðrún Helgadóttir :
    Ég skal hafa þetta örstutt. Ég get tekið undir það með hæstv. menntmrh. að það geti verið nauðsynlegt að endurskoða lög um mannanöfn en ég get verið sammála hv. 14. þm. Reykv. um ýmislegt af því sem hann sagði og ég ætla ekkert að endurtaka það. Mannanöfn eru vitaskuld ákaflega viðkvæmur þáttur af hverri manneskju.
    Það eru nú aðallega tvö atriði hér sem mig langar að benda á, sem vel má vera að einhver annar hafi gert. Það er hér ákvæði í 12. gr., sem er nú reyndar aðeins öðruvísi orðað skv. brtt. sem hv. Ed. hefur gert, en það er um ófeðrað barn. Það skal kennt til móður sinnar eða móðurafa síns. Þ.e. í brtt. segir ,,eða föður hennar``. Mér er alveg fyrirmunað að skilja hvar afinn kemur inn í þetta dæmi. Hvers vegna má þá ekki skíra barnið einhverju kenninafni? Hreinlega skíra barnið fullu nafni og velja barninu eitthvert snoturt kenninafn fremur en að fara að blanda föður móðurinnar í það mál. Mér finnst eitthvað óskaplega óviðfelldið við það.
    Síðan er dálítið gælt við það í 13. gr. að eiginkona taki upp eftirnafn maka síns. Ég hélt að það væri vilji manna á Íslandi að kona héldi nafni sínu hvort sem hún er gift eða ógift. Ég tala nú ekki um ef hún giftist oftar en einu sinni. Mér hefur nú alltaf fundist heldur tætingslegur þessi erlendi siður að konur eru sískiptandi um nöfn. Fyrir mér er nafn manneskju svo veigamikill þáttur í manneskjunni allri að mér finnst engin ástæða til þess að fólk sé sí og æ að skipta um nafn og finnst það satt að segja hreinn óþarfi.
    Ég vil hins vegar vera miklu frjálslyndari með að menn megi svo sem bera eftirnöfn ef þeim svo sýnist. Ég tala nú ekki um fólk sem er af erlendu bergi brotið. Ég man aldrei eftir því að það væri neinum til ama að Urbancic - fjölskyldan hét því nafni. Auk þess sem það er vísbending um að maðurinn sé af erlendu bergi brotinn og segir dálítið um manneskjuna þá þegar eins og nöfn gjarnan gera. En mér finnst algjör óþarfi að Íslendingar haldi þeim sið við að konur séu að taka upp nöfn sem þær hafa ekki borið áður.
    Tvö önnur atriði vildi ég líka benda á og það er svokölluð mannanafnaskrá. Ég get ekki séð að það sé hægt að gera hana öðruvísi en svo að öll þau nöfn sem lifandi fólk ber og hefur borið hljóti að vera mannanöfn, hversu kyndug sem þau nú annars kunna að vera. Venjulega fær nafn, sem kannski hefur dálítið undarleg áhrif í fyrstu, aðra merkingu þegar menn venjast því. Ég sé ekkert athugavert við að það sé einhver þróun í mannanöfnum og fólk noti hugarflug sitt til þess. Ég held því að menn megi nú ekki hafa þá mannanafnaskrá mjög stranga. Ég get verið sammála um það sem segir í grg. að fólk eigi helst ekki að heita Gunna, Tóta og Lauga. Ef menn svo kjósa þá sé ég nú ekki að það sé hægt að banna það.
    Að lokum, virðulegur forseti, ég skal ekki tefja tímann, er hér mjög sérkennilegt ákvæði í 22. gr.: ,,Geti maður fært sönnur að því að annar maður noti

nafn hans eða nafn, sem líkist því svo mjög að villu geti valdið, getur hann krafist þess í dómsmáli að hinn sé skyldaður til að láta af notkun nafnsins.``
    Ég vil bara leyfa mér að spyrja: Hvað þurfa menn að heita til að geta haldið því fram að einhver sé að nota nafn hans? Ég er viss um að það eru a.m.k. hundrað Guðrúnar Helgadætur í þessu landi og ég hef ekki nokkra ástæðu til þess að halda að þær konur séu að nota nafn mitt. Þurfa menn að heita Eiður Sær eða eitthvað slíkt til að geta krafist leiðréttingar? ( Menntmrh.: Svavar Gests.) Já, hvað mætti Svavar Gests segja? Sá ætti nú að vera búinn að kvarta. Ég held að þetta hljóti að vera afar erfitt í framkvæmd. Hér hleypur ungur maður um göturnar sem heitir Halldór Laxness, enda náskyldur hinu mikla skáldi. Menn verða einfaldlega að venjast því að þessir menn heita báðir þessu nafni. Ég skil þetta ákvæði ekki alveg. Ég held að menn hljóti að verða að heita afar frumlegu nafni til þess að séð verði ástæða til þess að þeir þoli ekki að önnur manneskja beri sama nafn.
    Ég vildi biðja þá hv. nefnd, menntmn., sem fær þetta mál að líta aðeins ofan í þetta og umfram allt að ekki verði bundið í lögum að einhver börn í landinu verði kennd við afa sinn. Það þykir mér afar óviðfelldið.