Mannanöfn
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Sólveig Pétursdóttir :
    Hæstv. forseti. Það eru mjög margar athugasemdir sem koma fram við þetta frv. og ljóst að það þarf að skoða það miklu betur í menntmn. Nd. Það hefur verið vakin hér athygli á þeim misskilningi sem fram kom hjá hæstv. menntmrh. er hann mælti með þessu frv. í sambandi við dagsektarákvæði, sem er reyndar í 23. gr. Nú hefur þessi misskilningur verið leiðréttur. Enda þótt sú athugasemd sem ég gerði við þá umræðu málsins hafi ekki fjallað beint um það hvort dagsektum skyldi beita eða ekki, þá lagði ég aðaláherslu á að ekki væri eðlilegt að dómsmrn. hefði þessa heimild þar sem það færi jafnframt með mjög viðkvæma málaflokka sem snerta börn, t.d. í sambandi við forræðisdeilumál.
    En ég var undrandi við þessa umræðu þegar fyrst var mælt hér fyrir málinu að þar sat hæstv. dómsmrh. en hann tjáði sig ekkert um þetta mál. Nú hefur hann tjáð sig um þetta mál hvað snertir dagsektarákvæðið en mig furðar samt að hann skuli ekki taka efnislega þátt í umræðum um þetta mál vegna þess að hans starfsmenn í dómsmrn. hafa gert mjög miklar athugasemdir við ýmis ákvæði í frv.
    Mig langar aðeins til að ítreka það, hæstv. forseti, að ég gerði athugasemdir við m.a. 3. mgr. 7. gr. frv. þar sem segir að dómsmrn. sé heimilt að leyfa manni nafnbreytingu ef telja verður að nafn hans sé honum til ama. Spurning er hvernig túlka eigi þetta ákvæði. Hvort hér sé verið að opna allar flóðgáttir fyrir nafnbreytingum. Hvort menn megi breyta um nafn einu sinni eða hvort þeir megi gera það einu sinni í mánuði o.s.frv.
    Ég vil benda á það að í athugasemdum um 7. gr. segir, með leyfi forseta: ,,Nefndin er á einu máli um að ekki komi til álita að veita jafnvíðtækar heimildir til nafnbreytinga og gert hefur verið á Norðurlöndum. Í þessu sambandi verður ekki síst að hafa í huga að eiginnöfn hér á landi munu hafa mun meira gildi til auðkenningar en víðast hvar erlendis. Því er eðlilegt að meira aðhald sé haft að breytingum eiginnafna Íslendinga en annarra Norðurlandaþjóða.`` Enn fremur segir beint í athugasemdum um 3. mgr. að ráðuneytinu sé heimilt að leyfa manni nafnbreytingu ef það telur nafn hans vera honum til ama eða af öðrum sérstökum og gildum ástæðum, þótt það sé meginstefna þessa frv. að þeirri íslensku venju sé haldið að menn beri sama nafn alla ævi.
    Enn fremur má velta fyrir sér fleiri atriðum í þessu frv. en gefst væntanlega ekki tími til hér. Sérstaklega má nefna til fleiri ákvæði í 7. gr., t.d. 2. mgr. Þar segir: ,,Hafi barni verið gefið eitt nafn eða tvö við skírn eða með tilkynningu skv. 1. mgr. 4. gr. er dómsmrn. heimilt að leyfa eiginnafni/nöfnum barnsins sé breytt, enda sé ósk borin fram um það af forsjármönnum barnsins eigi síðar en sex mánuðum eftir að frestur til nafngjafar rann út.``
    Miðað við ákvæði þessa frv. þá mun um að ræða hámark eitt ár sem þessi frestur gildir. Þá hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort þarna geti ekki komið

upp vandamál, t.d. ef foreldrar skilja eða sambúðarslit verða. Að vísu held ég að ráð sé gert fyrir því að báðir aðilar óski eftir þessari breytingu en ef um skilnað er að ræða þá skuli leita álits þess foreldris sem ekki fer með forræðið. Þ.e. þetta er einungis heimildarákvæði og ekki nein skylda. Þetta ákvæði mætti því athuga nánar, enda getur maður að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að vandamál geti komið upp.
    Í lokin, hæstv. forseti, þar sem ég vil nú ekki tefja þessa umræðu öllu lengur, þykir mér rétt að varpa fram þeirri athugasemd til hæstv. menntmrh. hvort hann telji ekki rétt að taka upp í þetta frv. ákvæði er heimili ríkisstjórninni að gera samninga við önnur ríki varðandi frávik frá ákvæðum mannanafnalaga. Það hafa komið upp vandamál að því að mér er sagt, sérstaklega vandi Íslendinga sem eru búsettir í Danmörku sem hafa haft talsverð óþægindi af því að vera bundnir af danskri mannanafnalöggjöf varðandi kenninöfn barna sinna sem þar eru fædd.