Mannanöfn
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég lofaði að tala stutt eins og aðrir hér á undan. Mér var að verða það ljóst að eftir umræðu í Ed. hljóðar 4. mgr. 7. gr. enn svo:
    ,,Sé barn ættleitt eftir að því var gefið nafn, má í ættleiðingarbréfi gefa því nýtt eiginnafn í stað hins fyrra eða til viðbótar einu nafni sem það hefur áður hlotið. Sú ákvörðun skal jafnan háð samþykki barnsins sjálfs sé það orðið tólf ára.``
    Skilji ég þessa málsgrein rétt, þá má breyta nafni barns upp að tólf ára aldri án samþykkis þess við ættleiðingu. Ég bið hv. menntmn. að íhuga þetta mjög alvarlega í ljósi þess hvaða mannréttindi barnið hefur. Það er ekki girt hér fyrir þann möguleika að það sé hægt að ráðskast með þess eigið nafn fram til tólf ára aldurs, skilji ég þetta rétt.
    Auk þess get ég ekki stillt mig um að vekja athygli á því að einn af listamönnum þjóðarinnar hefur skipt um nafn vegna þess að hann var dæmdur til þess í öðru landi. Hann heitir nú Erró en hét áður Ferró. Og það þurfti dóm til þess að losa hann við fyrra nafnið.