Mannanöfn
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson) :
    Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þann mikla áhuga sem fram kemur hér á þessu máli og kemur að sjálfsögðu ekki á óvart því að hér er um að ræða undirstöðuatriði í okkar tungumáli. Varðandi það sem hv. þm. Sólveig Pétursdóttir spurði um viðvíkjandi hugsanlegum samningum við önnur ríki, þá tel ég að það sé mál sem rétt sé að menntmn. fjalli um. Þessi spurning hefur aldrei komið til meðferðar, svo að mér sé kunnugt um, og kom ekki til meðferðar í menntmn. Ed. Í menntmn. Ed. var mjög vel unnið að þessum málum. Menn fóru mjög vandlega yfir það og ég hygg að meginhlutinn af efni málsins sé þar afar vel unninn en að sjálfsögðu verður menntmn. Nd. að fara yfir málið engu að síður eins og hún telur rétt og nauðsynlegt.
    Varðandi það sem fram kom hér um að eitthvað væri í þessu lagafrv. sem útilokaði það að fólk gæti tekið upp ný nöfn sem ekki hefðu verið notuð áður, þá er það ekki svo, vegna þess að samkvæmt ákvæðum frv., mig minnir 2. gr., þá er gert ráð fyrir því að skilyrðin séu tvö. Annað er það að nafnið samræmist almennt hefðum og beygingarkerfi íslenskrar tungu eða hafi unnið sér hefð í málinu, ef ég kann þetta rétt, þannig að ég hygg að í rauninni sé hægt að koma hlutunum þannig fyrir að ný nöfn geti unnið sér sess hér eftir sem hingað til og jafnvel þó að það yrði reynt að stemma stigu við því með lögum þá hygg ég að það sé bara hreinlega ekki hægt vegna þess að veruleikinn hefur sinn gang í þessu efni og ef um er að ræða nafn sem fellur vel að beygingar - og hljóðkerfi íslenskrar tungu, þá náttúrlega vinnur það nafn sér lönd og hefðir um leið og verður þar með óvefengjanlega hluti af íslensku máli.