Félagsþjónusta sveitarfélaga
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er alltaf nokkur vandi að fara orðum um frv. af þessu tagi þar sem mikil vinna hefur verið lögð í að breyta ákvæðum um mál sem tilheyra mörgum lagabálkum. Ég hef um árabil gagnrýnt bandormagerð við lagasetningu þar sem lögum út um allt lagasafnið er breytt með einu lagafrv. Það má kannski segja að hér sé ekki beinlínis um bandorm að ræða en það er enginn vafi á því og hægt að nefna þess dæmi að ákvæði hingað og þangað í þessu frv. eru vissulega breyting á gildandi lögum eða ekki samhljóða þeim.
    Ég get tekið undir það með hv. 14. þm. Reykv., við eigum raunar bæði sæti í félmn. Nd. og eigum eftir að fjalla um þetta frv., að frv. líkist í einstökum greinum meira þáltill. en lagafrv. Nægir þar að nefna 1. gr. um markmið félagsþjónustu. Í raun og veru leggur hvorki sú grein né aðrar landsmönnum skyldur á herðar. Hún leggur engum skyldur á herðar. Það er talað um á ýmsum stöðum, eins og hér segir í 37. gr. um málefni leikskóla, að sveitarfélög skuli eftir föngum bjóða upp á leikskóla barna. Menn eiga að leitast við að gera hitt og þetta. Ef svona frv. á að taka af skarið um rétt manna í velferðarþjóðfélaginu til félagslegrar þjónustu þá verður það að vera miklu skýrara. Hvað eiga sveitarfélögin að hafa leikskóla t.d. fyrir stóran hluta barna í samfélaginu? Hvað eiga sveitarfélögin að hafa upp á að bjóða af leiguhúsnæði? Þetta verður auðvitað að vera skýrt. Þýðir þetta frv. að félagsþjónusta eigi að hafa forgang umfram önnur mál? Ég get ekki séð það. Það eru engar ákveðnar skyldur lagðar á sveitarfélögin með þessu frv.
    Annað er að verði þetta frv. að lögum þá eru einungis tveir lagabálkar felldir úr gildi. Ég hef litið á nokkra aðra og það verður satt að segja skrýtinn samsetningur þegar svo er orðið. Maður hlýtur að spyrja af hverju þurfti að setja þetta allt í eitt frv. Af hverju var t.d. ekki breytt lögum um uppbyggingu og rekstur dagvistarstofnana?
    Ég tek líka undir með hv. 14. þm. Reykv. að Húsnæðisstofnun sér um húsnæðismál að öðru leyti en því að sveitarfélögin eiga eftir föngum að leitast við að hafa á boðstólum leiguhúsnæði.
    Ég verða að segja það alveg eins og er að lagasetning af þessu tagi er eitur í mínum beinum vegna þess að það er afar erfitt að sjá hvað sveitarfélögin eru skyldug til að gera varðandi félagslega þjónustu. Þetta eru vinsamlegar óskir en eiginlega ekkert meira.
    Ég skal aðeins fara hérna yfir það sem ég hef gert athugasemd við. Þá er fyrst að nefna 1. gr. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Skal það gert með því
    a. að bæta lífskjör þeirra sem standa höllum fæti.``
    Sú spurning hlýtur að vakna: Hvað er þetta víðtækt? o.s.frv. Þetta er óljóst í meira lagi.
    Síðan er komið að því hvernig skipa skal félagsmálanefnd eða félagsmálaráð. Það stendur meira að segja félagsmálanefnd eða félagsmálaráð. Það er ekki einu sinni ljóst hvað það heitir. Þó segir að vísu: ,, . . . hér eftir í lögum þessum nefnd félagsmálanefnd.`` Ég skil ekki af hverju félagsmálaráð, þó það heiti það núna, þurfti endilega að vera með í þessum texta. ,,Félagsmálanefnd skal skipuð þremur fulltrúum hið fæsta.`` Það er ekkert talað um neina menntun sem slíkt fólk þarf að hafa. Þetta hlýtur ósköp einfaldlega að vera pólitísk nefnd. Gott og vel, þannig eru ýmis ráð og nefndir sveitarfélaga skipaðar. En það sem kemur þá meira á óvart er að í 8. gr. er einungis sagt að heimilt sé að fela sérstakri félagsmálastofnun að sjá um framkvæmd félagsþjónustu undir stjórn félagsmálanefndar. Síðan segir hvað eftir annað í frv., t.d. í 16. gr.: ,,Félagsmálanefndir skulu leitast við að bjóða upp á félagslega ráðgjöf.`` Gott og vel. En svo stendur líka í 18. gr.: ,,Félagsmálanefndir skulu leitast við að hafa á að skipa menntuðu starfsfólki í félagsráðgjöf eða á hliðstæðu sviði til þess að annast félagslega ráðgjöf.``
    Ég vænti þess að hvergi sé ætlast til, hversu lítið samfélag sem um er að ræða, að pólitískt kjörnir fulltrúar eigi að fara að vinna að félagsráðgjöf á öllum sviðum mannlífsins. Til þess hafa þeir sjaldnast nokkra þekkingu og er fullkomlega ósiðlegt að þeir fáist við slíkt. Félagsmálanefndir eiga fyrst og fremst að hafa pólitíska yfirsýn yfir ástand mála í samfélaginu, í hverju byggðarlagi, en þeir eiga ekki að vera að blanda sér í einstök mál einstaklinga. Það er auðvitað alveg fráleitt. Það er því mjög svo óljóst hvað er verkefnið. Í 16. og 18. gr. segir að félagsmálanefndir skuli leitast við, þær skuli leitast við að hafa á að skipta menntuðu starfsfólki.
    Það er ýmislegt svona almennt sem maður hlýtur að hnjóta um. Ef við lítum aðeins lengra og ég bendi á það sem ég kann illa við segir í 31. gr.: ,,Félagsmálanefnd er skylt, í samvinnu við foreldra, forráðamenn og aðra þá aðila sem hafa með höndum uppeldi, fræðslu og heilsugæslu barna og ungmenna, að gæta velferðar og hagsmuna þeirra í hvívetna.``
    Hvað eiga þá barnaverndarnefndir og ráð að gera? Ég hélt að þessi ákvæði væru í lögum um vernd barna og unglinga og ég er ekkert viss um að þetta sé neitt betri texti en sá sem er þar.
    Þetta er því allt satt að segja mjög einkennilegt. Ef við lítum á 42. gr.: ,,Félagsmálanefnd skal leitast við að tryggja öldruðum hentugt húsnæði og jafnframt skipuleggja félagslega heimaþjónustu.`` Af hverju á hún að leitast við að gera það? Henni er skylt að sjá svo til að vel fari um aldrað fólk sem ekki hefur aðra til að annast um sig.
    Og í 44. gr.: ,,Leitast skal við að tryggja að aldraðir taki sjálfir þátt í ákvörðunum um málefni sín.`` --- Þó nú væri. Ég ætla að vona að einhver félagsmálanefnd fari ekki að taka ráðin af fullvita fólki þó það sé eitthvað komið til ára sinna. Þetta getur ekki staðið svona. Það er alveg ólíðandi.
    Síðan komum við að XII. kafla, 46. gr.: ,,Félagsmálanefnd skal vinna að því að fötluðum, hvort sem

heldur er af líkamlegum eða andlegum ástæðum, séu tryggð sambærileg lífskjör og jafnrétti á við aðra þjóðfélagsþegna.`` Er virkilega þörf á þessu? Hefur einhver efast um að fatlaðir, hvort sem væri andlega eða líkamlega fatlað fólk, ættu sama rétt í þjóðfélaginu og annað fólk? Hæstv. núv. félmrh. hafði frumkvæði um það á sínum tíma að sett yrðu sérlög um málefni fatlaðra, þ.e. þau hétu nú annað þá en urðu vissulega hvatinn að núgildandi lögum um málefni fatlaðra, vegna þess að það þótti nauðsyn að leggja sérstaka áherslu á rétt fatlaðs fólks til mannsæmandi lífs.
Ég hefði haldið að svo mörg vötn væru runnin til sjávar síðan að ekki þyrfti að taka það sérstaklega fram að fatlað fólk ætti heima í þjóðfélaginu þannig að ég tel alveg nauðsynlegt að líta aðeins á þetta.
    Í 48. gr. er þetta ítrekað og þar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Fatlaðir eiga rétt á almennri þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum þessum og skal þeim veitt þjónusta á almennum stofnunum eftir því sem unnt er og við á.``
    Hér finnst mér líka verið að tala um hluti sem ég held að þurfi ekki mikið að ítreka með lögum. Hér hafa kennarar um árabil tekið þátt í því að fatlaðir gætu gengið í almenna barnaskóla. Ég átti sjálf verulegan þátt í því að Reykjavíkurborg leysti vanda þroskaheftra barna varðandi leikskólana. Það var á sínum tíma gert án þess að byggja nokkurt hús. Það var einfaldlega gert með því að fjölga starfsfólki og ég veit ekki betur en sú skipan sé enn í dag þannig hér í Reykjavík að þroskaheft börn ganga að leikskólum borgarinnar rétt eins og aðrir, og þó það nú væri.
    Síðan komum við að húsnæðismálunum og þá segir í 49. gr., með leyfi hæstv. forseta: ,,Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er . . . `` Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta eftir því sem þau hafa efni á? Ég er nú ansi hrædd um að það geti þá farið eftir ýmsu hvort þau hafa efni á að hafa framboð af leiguhúsnæði. Ætli það verði nú ekki eins og oft áður að velferðarmál fjölskyldnanna víki þegar gerðar eru fjárhagsáætlanir fyrir vegalagningu og öðru slíku sem oft virðist vera í forgrunni á áhugamálasviði stjórnmálamanna?
    Síðan koma hér greinar sem ég kann heldur ekki við og nefni ég þá 55. gr.: ,,Félagsmálanefndir`` --- það segir ekkert um starfsmenn þeirra --- ,,skulu hlutast til um að áfengissjúkir og þeir sem misnota áfengi eða aðra vímugjafa fái viðeigandi meðferð og aðstoð. Þá skal veita aðstandendum og fjölskyldum áfengissjúkra ráðgjöf og aðstoð eftir því sem við á.``
    Ég ætla að vona að þetta sé sæmilega skynsamt fólk sem situr í nefndunum ef það á ekki einungis að taka ákvörðun um meðferð, og þá hlýtur það að vera læknismeðferð, heldur einnig að veita félagslega aðstoð þeim sem liðið hafa fyrir áfengisnotkunina eða vímuefnanotkunina. Ég játa það hreinskilnislega að ég geri mér ekki alveg grein fyrir hvernig þetta er hugsað.
    Síðan segir hér í 63. gr.: ,,Við meðferð mála og ákvörðunartöku skal leitast við að hafa samvinnu og samráð við skjólstæðing eftir því sem unnt er, að öðrum kosti við talsmann, ef hann er fyrir hendi.`` Síðan segir: ,,Sé talið nauðsynlegt vegna almannahagsmuna eða velferðar viðkomandi einstaklings að hafa uppi þvingunaraðgerðir, skal með þau mál farið eftir ákvæðum laga um lögræði, laga um vernd barna og ungmenna og annarra þeirra laga er slíkar heimildir veita.``
    Þessi ákvæði um meðferð slíks er í þeim lögum og gjörsamlega óþarfi að setja þau inn í þetta frv. líka. Lögræðislögin eru töluvert umfangsmikill lagabálkur sem ber að fara eftir og ég dreg stórlega í efa að félagsmálanefnd væri hleypt nálægt slíku vegna þeirra laga. Þar held ég bara einfaldlega að skarist allalvarlega núgildandi lög í landinu og þetta frv.
    Það er ósköp leiðinlegt að þurfa að vera svona neikvæður þegar setja á lög um félagslega þjónustu en það er alveg óhjákvæmilegt, og ég held að nefndarinnar bíði mikið verk við að ganga úr skugga um hvernig þetta frv. fellur að núgildandi lögum um hin ýmsu málefni sem þetta frv. snertir. Nægir að nefna sveitarstjórnarlögin, það nægir að nefna lögin um málefni barna og unglinga, lögin um uppbyggingu og rekstur dagvistarstofnana, lögin um málefni fatlaðra, lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins o.s.frv. Ég er því alveg hissa hvað menn hafa þorað að setja hér ýmis ákvæði inn sem ég fæ ekki betur séð en að hljóti vera í nokkru ósamræmi við gildandi lög.
    Virðulegur forseti. Ég skal nú ekki eyða miklum tíma vegna þess að ég á sæti í nefndinni sem kemur til með að fjalla um þetta, en ég hlýt að lokum að víkja að málefnum leikskólans. Það vita allir hv. alþm. hvers vegna svo er komið að tveir hæstv. ráðherrar leggja fram sinn lagabálkinn hvor um sama málefnið. Þessi mál höfðu verið í ósamkomulagi milli ríkisstjórnarflokkanna eitthvað á annað ár og alveg ljóst að hvorugur hæstv. ráðherrann vildi láta í minni pokann. Við vorum því margir hv. þm. sem sögðum sem svo: Leggjum málin fram og látum þingið skera úr um þetta. Ágreiningurinn er alveg einfaldur: Vilja menn að leikskólinn sé hluti af menntakerfi landsins eða vilja menn líta á hann sem félagslega þjónustu? Þetta er tiltölulega einföld spurning sem ósköp auðvelt er að svara. Þó er það nú svo að það er auðvitað alveg rétt að það eru sveitarfélögin sem eiga að byggja og reka leikskólann og hér er sagt að menntmrh. skuli hafa umsjón með hinum faglega þætti málsins. En eins og hv. 14. þm. Reykv. benti á er 38. gr. í algjöru ósamræmi við það því að þar stendur að félagsmálanefnd, skólanefnd grunnskóla eða sérstök leikskólanefnd fari með stjórn leikskóla. Ákvörðun um stjórn leikskóla tekur sveitarstjórn.
    Hvort á félagsmálanefnd eða skólanefnd grunnskóla eða sérstök leikskólanefnd að stjórna leikskóla á hverjum stað? Það veltur töluvert mikið á því hvernig sú nefnd er skipuð. Venjulega er það nú svo að í stjórnum leikskólans eins og nú er er tryggt að fulltrúi starfsmanna, menntaðra starfsmanna, taki þátt í stjórnun viðkomandi heimilis eða leikskóla.
    40. gr. er um markmið leikskóla, hvert það skuli vera. Það er ekki alveg eins, það er líkt sem betur fer en ekki alveg eins og 1. gr. laga um byggingu og

rekstur dagvistarheimila. Þar er markmið dagvistarstofnana ákvarðað. Ég varð síðan til þess árið 1981 að fá hér samþykkta brtt. við þá grein. Breytingin var svona:
    ,,Gerð verði starfsáætlun á vegum menntmrn. sem kveði nánar á um markmið og leiðir í uppeldisstarfi á dagvistarheimilum í samráði við þá aðila er að uppeldis - og skólamálum vinna.``
    Að þessum lögum samþykktum var skipuð nefnd undir forustu frú Valborgar Sigurðardóttur, einnar virtustu fóstru landsins, til að gera uppeldisáætlun fyrir dagheimili sem síðar varð þessi bók. Í nefnd sem þetta verk vann sátu ýmsir þekktustu menn og konur í skóla - og uppeldismálum og hér var unnið mikið og gott starf sem unnið er eftir á leikskólum landsins í dag. Inntak þessarar áætlunar er að leikskólinn sé menntastofnun. Þar er bent á að meginmarkmið séu efling líkams - og hreyfiþroska, tilfinningaþroska, vitsmunaþroska, félagsþroska, fagurþroska og siðgæðisþroska litlu barnanna.
    Við vitum öll að á leikskólanum læra börnin að tala. Menn hafa nú á tímum áhyggjur af rýrnandi málþroska barna. Engir staðir eru vísari til þess að hindra að íslensku máli hraki vegna tímaleysis foreldra og ýmiss annars sem hellt er yfir þjóðina sem ekki er nú í náinni snertingu við íslenska menningu og versnar í sífellu. Það eru fóstrur landsins sem annast þessa kennslu.
    Sú tíð er löngu liðin að litið sé á leikskólann sem geymslustað fyrir börn á meðan foreldrarnir eru að vinna. Ég hélt að engum dytti slíkt í hug lengur. Ég minnist þess að bæði þegar þetta verk var í vinnslu og eins þegar ég var formaður í dagvistarstjórn Reykjavíkurborgar var lögð á það megináhersla að tengja leikskólann og grunnskólann og búa barnið undir grunnskólann. Með því að aðskilja leikskólann í meira mæli frá grunnskólanum held ég að stigið sé margra, margra ára skref aftur á bak og það er alveg ljóst að þennan þátt frv. um félagsþjónustu mun ég ekki styðja. Ég held að það sé enginn efi í nokkru hjarta sem komið hefur nálægt slíkum málum að það sé ástæða til þess að halda yfirstjórn leikskólans inni í menntmrn. og halda tengslum við grunnskólann þannig að starfsáætlun menntakerfisins sé í samhengi og þar skilji hver annan.
    Það liggur fyrir að langflest og ég má segja næstum allt starfsfólk leikskóla landsins er sömu skoðunar og ég að þessu leyti. Þannig eru foreldrar barna í leikskólum líka stemmdir. Og það má nefna ýmis félagasamtök sem hafa ályktað um þetta, foreldrasamtök, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasamband Íslands og Fóstrufélag Íslands.
    Menn hafa talað um og m.a. hæstv. félmrh. að leikskólafrv. krefjist ómældra milljóna ef ekki milljarða í kostnað. Það er auðvitað alveg ljóst að með því að byggja ekki neitt verður þetta ódýrt. Ég hygg að það sé alveg sama hvor aðilinn stjórnar leikskólakerfinu að því leyti. Það kostar peninga, það vitum við öll. Og það er kannski það sem maður hefði vonað, að þetta frv. skæri úr um það að við viljum og ætlum að leggja peninga í uppeldismál. Við ætlum að eiga góða leikskóla fyrir helst öll börn og alla vega fyrir alla þá foreldra sem þess óska. Við viljum ekki líta á leikskólann sem hluta af einhverjum félagslegum úrræðum. Hvert einasta barn á að eiga rétt á því að fá þá menntun sem leikskólinn veitir og það er alveg ljóst að það kostar mikla peninga, en ég hygg að betri fjárfesting finnist vart í nokkru þjóðfélagi heldur en slíkur aðbúnaður lítilla barna. Það er nú einu sinni svo að þau eiga misjafnlega kosti á uppeldi á heimilum sínum. Við erum misjafnlega vel til þess gerð að ala upp börn og leikskólinn á auðvitað að vera trygging fyrir því að öll börn fái þá þjálfun og þann þroska sem leikskólinn getur veitt ef vel er að honum búið.
    Ég skal, hæstv. forseti, ekki hafa þetta mál mikið lengra, en ég get ekki, hversu góðgjörn sem ég vildi nú vera varðandi þetta frv., annað en lýst vonbrigðum mínum yfir því vegna þess fyrst og fremst að mér finnst það ekki taka af skarið. Það er ekkert í þessu frv. sem segir: Við viljum efla félagslega þjónustu. Það er ekkert um hversu miklu skuli til þess varið. Þetta er almennt án þess að skuldbinda nokkurn mann eða nokkurt sveitarfélag, sýnist mér. En vitaskuld munum við taka þetta mál til vandlegrar skoðunar í hv. félmn. og svo sannarlega reyna að lagfæra það sem okkur þykir þurfa. En ég hlýt að lýsa því yfir hér og nú að ég fellst ekki á að leikskólamál séu þarna inni. Ég sé enga ástæðu til þess að ákvæði um málefni leikskólans séu þarna inni frekar en ákvæði um málefni grunnskóla. Það er nákvæmlega enginn munur þar á. Og ég verð að játa að ég hef reynt töluvert til þess að fá hæstv. félmrh. til að fallast á það sjónarmið og ég vil þakka henni það að hún gekk fram í því að breyta þó ekki væri nú nema nafninu á leikskólanum, en í fyrstu gerð frv. var ævinlega talað um dagvistarheimili. En það er bara ekki nóg vegna þess að staða leikskólans verður allt önnur ef hún er viðurkenndur þáttur af almennri félagsþjónustu.
    Menn hafa sagt á móti að félagsþjónusta eigi að ná til allra. Auðvitað er öll okkar samneysla viss félagsþjónusta. En flest okkar eru a.m.k. á löngu skeiði lífsins fullkomlega fær um að lifa okkar lífi ef við höfum atvinnu og heilsu þannig að það er tómt mál að líta fram hjá því að oft miðast félagsþjónusta réttilega í hverju samfélagi við að jafna kjör þeirra sem eiga erfiðara með að afla tekna af einhverjum ástæðum, hvort sem þær eru heilsufarslegar eða efnahagslegar eða aðrar. Og að mínu viti á leikskólakerfið ekkert erindi þarna inn vegna þess að það eiga hreinlega öll börn rétt á því að komast á leikskóla. Mér er fullvel kunnugt um það að allir leikskólar í landinu taka vinsamlega beiðnum sem berast frá félagsmálastofnunum ef beðið er um pláss fyrir barn vegna félagslegra örðugleika heima fyrir. Það tryggir í engu meiri rétt þeirra þó að leikskólinn sé í þessu frv.
    Ég gæti haldið um þetta langa ræðu og þetta er líklega ein lengsta ræða sem ég hef haldið hér á hinu háa Alþingi. En ég skal hlífa mönnum við því þar sem ég fæ tækifæri til að fjalla um þetta frv. í nefndinni, en ég hefði kosið að sjá hér meira og betur afmarkað frv.