Skýrsla Ríkisendurskoðunar um Þormóð ramma
Þriðjudaginn 12. febrúar 1991


     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Umræða um mál þetta hefur nú staðið bráðum í fimm klukkutíma og fjórir eru búnir að tala, en a.m.k. tvöfalt fleiri eru á mælendaskrá. Það er því ljóst að umræðuefnið mun endast alþingismönnum eitthvað töluvert það sem eftir lifir af þessu kjörtímabili. Umræðuefnið er líka þess eðlis að það er hægt að flytja um það ákaflega margar og merkilegar ræður. Umræðuefnið er: Hvert er hið rétta verð á Þormóði ramma? Var söluverð hæstv. fjmrh. hið eina rétta eða er mat Ríkisendurskoðunar nær lagi? Aðferðirnar til að meta söluverð eigna eru fjöldamargar og ég held að ég sé ekki að segja neinum neinn fróðleik þegar ég fullyrði að niðurstöður matsmanna á jafnvandasömu álitaefni geta verið og hljóta að verða næstum jafnmargar og mennirnir sem reyna að meta.
    Þegar framkvæmt er mat á hlutabréfum getur niðurstaðan að sjálfsögðu aldrei verið einhver eilífur einn sannleiki. Það er útilokað mál. Það vita allir sem eitthvað til þekkja.
    Í þessu máli er það staðreynd að ýmsir höfðu um þetta mál fjallað áður en sala fór fram, höfðu lýst hugmyndum sínum um verð á fyrirtækinu og allir höfðu þeir komist að þeirri niðurstöðu að eðlilegt verð ætti að vera lægra heldur en það sem endanlega var samið um. Það höfðu a.m.k. þrír óskyldir aðilar kannað þetta mál áður en sala fór fram og þeir höfðu allir nefnt tölur um verðmæti þessa fyrirtækis sem voru undir 150 millj.
    Ég er sannarlega ekkert undrandi á því að hæstv. fjmrh. þurfi að halda langar ræður um þetta mál eftir að hafa verið borinn þungum sökum. Hann hefur gætt hagsmuna ríkissjóðs mjög vel þann tíma sem hann hefur farið með þetta ráðuneyti. Og áður en hann tók þessa ákvörðun hafði hann leitað álits ýmissa sérfræðinga bæði á sviði endurskoðunar, á sviði verðbréfa- og hlutabréfamarkaðar. Þannig að það hefur auðvitað komið honum mjög á óvart að þessi ákvörðun hans skyldi vera svo umdeild sem raun ber vitni.
    En hverjar eru nú helstu aðferðirnar við að meta söluverð eigna? Í fyrsta lagi er auðvitað hugsanlegt að taka tölurnar eins og þær birtast í reikningum viðkomandi fyrirtækis og reyna að átta sig á því hver er mismunur skulda og eigna. Þetta er ein leiðin. Ef þetta er gert á miðju ári 1990 þá fá menn út tölu hvað varðar mismun skulda og eigna sem er afar nærri þeirri tölu sem varð endanlegt söluverð.
    Önnur leið er sú að líta á arðsemi fyrirtækisins. Þá verða menn að gefa sér ákveðnar forsendur, þeir verða að stilla upp einhverjum eðlilegum arðsemiskröfum og hver framlegðin er líkleg að vera. Forsendurnar geta að sjálfsögðu verið fjölmargar og niðurstöðurnar mjög mismunandi eftir því hverjar forsendurnar eru. Þetta er sú leið sem Ríkisendurskoðun valdi sér og mat á því hversu góð niðurstaðan er eða rétt fer auðvitað eftir því hvernig menn meta forsendurnar.
    Svo er auðvitað til þriðja aðferðin og það er satt best að segja sú aðferð sem mest tíðkast í viðskiptum á Íslandi. Það er einfaldlega sú aðferð að láta kaupendur ráða verðinu. Í þessu tilviki gat tvennt komið til greina. Annars vegar það að bjóða fyrirtækið til sölu með auglýsingu í fjölmiðlum, dagblöðum, ríkisfjölmiðlum, þannig að allir landsmenn ættu þess kost að kaupa fyrirtækið. Hin leiðin var sú að segja: Siglfirðingar eiga kost á að kaupa þetta fyrirtæki og fjmrn. býður fyrirtækið til sölu á Siglufirði til kaupa handa heimamönnum. Það þarf auðvitað ekki að segja neinum það að hvor þessara aðferða sem valin er leiðir til mjög mismunandi niðurstöðu. Það má gera ráð fyrir því að ef fyrri leiðin er valin þá séu fleiri um boðið og ef fleiri eru um boðið þá hafa þeir meiri möguleika á að kaupa og þar af leiðandi nokkrar líkur á því að verðið verði hærra. Ef aftur á móti sett eru skilyrði við söluna um búsetu þeirra sem kaupa eiga og um meðferð þeirra á kvótanum sem fylgir fyrirtækinu þá hlýtur auðvitað verðið að verða lægra.
    Það er öllum kunnugt að þessi seinasta leið var valin og þar af leiðir að það eru heldur meiri líkur á að verðið verði lægra með þeim hætti heldur en yrði ef um væri að ræða sölu á almennum markaði. Ég vil hins vegar taka það fram að þetta var að sjálfsögðu eina leiðin sem kom til greina frá mínu sjónarmiði séð og sem betur fer var þetta eina leiðin sem fjmrn. taldi verjanlega eins og á stóð.
    Það sem gerðist síðan var það að fjmrh. ræddi málið við bæjarstjórn Siglufjarðar, kynnti henni áform sín, bað menn um að undirbúa þetta með sér með þeim hætti að kannaðir yrðu möguleikar á því að heimamenn yfirtækju fyrirtækið. Þetta var í ágústmánuði. Síðan líða nokkrir mánuðir. Áform fjmrh. eru á allra vitorði. Hann kemur í annað sinn til Siglufjarðar og kynnir bæjarstjórn þau áform sín að gera heimamönnum kleift að kaupa fyrirtækið með því að láta þá hafa forgöngu um kaupin en setur að vísu ákveðin skilyrði, m.a. þau að kvótinn verði ekki seldur úr bænum og ekki verði um almennt útboð að ræða. Hann hélt sem sagt tvo fundi með bæjarstjórninni auk þess sem hann hélt tvo fundi með alþingismönnum kjördæmisins. Söluáformin voru kynnt í fréttatilkynningu og beðið í nokkrar vikur eftir svörum.
    Auðvitað hefði kannski verið hugsanlegt að framkvæma þetta með einhverjum öðrum hætti. Ég er ekki að segja að það hefði ekki verið hugsanlegt að vinna þetta verk með einhverjum öðrum hætti, en þetta var sú aðferð sem kynnt var bæjarstjórn Siglufjarðar og alþingismönnum með löngum fyrirvara og ég tel að þessi aðferð hafi verið fullkomlega eðlileg eins og á stóð.
    Síðan brestur óveðrið á eftir á og menn koma og segja: Þetta fyrirtæki átti að selja á miklu hærra verði. Mér er hins vegar ekki alveg ljóst hvort þeir hv. þm. sem hér hafa talað í þessari umræðu, hv. þm. Páll Pétursson og hv. þm. Pálmi Jónsson, eru sjálfir þeirrar skoðunar að við sölu hefði átt að miða við tvöfalt hærra verð en gert var.
Ef það er skoðun þeirra, telja þeir þá að það hefði verið heppilegt fyrir heimamenn ef verðið hefði verið tvöfalt hærra? Telja þeir að það hefði verið auðveldara fyrir heimamenn að komast yfir þetta fyrirtæki og að það hefði verið gæfulegt fyrir byggðarlagið að standa þannig að málum?
    Nú er það vitað að eitt af því sem fylgdi með í kaupunum þegar frá þeim var gengið var það að fram færi almennt hlutafjárútboð á Siglufirði á a.m.k. 50 millj. til þess að gera sem allra flestum kleift að ganga inn í þessi kaup. En ef verðið hefði verið tvöfalt hærra þá er alveg ljóst að möguleikarnir á því að hinn almenni maður á Siglufirði gæti tekið þátt í þessum kaupum hljóta að minnka að sama skapi. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég trúi ekki öðru en að þeir hv. þm. sem ég nefndi hér áðan geri sér alveg fulla grein fyrir því að fyrir byggðarlagið sem slíkt hefði verið mjög óheppilegt að reyna að keyra verðið upp úr öllu valdi.
    Annars verð ég að segja það að áhugi þessara þingmanna á annarri söluaðferð en valin var kemur mér og mörgum öðrum mjög einkennilega fyrir sjónir því að þetta er ekki í fyrsta skipti sem fjmrh. selur hlutabréf eða eignir ríkissjóðs. Ég þekki tvö dæmi úr mínu kjördæmi þar sem slíkt hefur gerst á undanförnum árum. Og það vill svo til að þegar það gerðist voru báðir þessir hv. þm. í ríkisstjórn. Það var í samstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. Í annað skiptið var seld graskögglaverksmiðjan Vallhólmur og í hitt skiptið var Sigló-verksmiðjan seld. Hvernig var farið að í þessum tilvikum? (Gripið fram í.) Staðreyndin er nú sú, vegna þess að þessi athugasemd kom fram, að Vallhólmur var seldur áður en gjaldþrotaskiptin fóru fram. En lítum á það hvernig sala fór fram í þessum tilvikum.
    Þegar Þorsteinn Pálsson ákvað að selja Vallhólm Kaupfélagi Skagfirðinga, auglýsti hann þá fyrirtækið með auglýsingu í blöðunum? Ekki er mér kunnugt um það. Ræddi hann málið við þingmenn kjördæmisins? Nei, nei, það gerði hann ekki. Ræddi hann málið við sveitarstjórnir? Það gerði hann ekki. Hann bara einfaldlega gekk í það að selja fyrirtækið. Fékk hann álit Ríkisendurskoðunar á því hvert ætti að vera verð verksmiðjunnar? Ekki er mér kunnugt um það. Seldi hann eftir matsverði fastafjármuna? Það er nú öðru nær. Ég get upplýst það hér að matsverð fastafjármuna í Vallhólmi er talið hafa verið 54 millj., skuldirnar fylgdu ekki með, en verðið var 12 millj.
    Ég áleit ekki á þeim tíma að það væri nein gæfa fyrir Skagfirðinga að fjmrh. reyndi að sprengja það verð upp þannig að heimamönnum væri ókleift að kaupa fyrirtækið, því þeir hefðu aldrei keypt það á 54 millj. Ég gerði ekki athugasemd við þessa sölu, gerði engan hvell. Ég réðist ekki á hæstv. fjmrh. Þorstein Pálsson á sínum tíma út af því máli vegna þess að ég taldi það vera gæfu fyrir byggðarlagið að láta Kaupfélag Skagfirðinga fá fyrirtækið í sínar hendur, jafnvel þó að svona væri að málum staðið.
    Ég er sannfærður um það að árásir hv. þm. á fjmrh. út af þessu máli eru ekki til komnar vegna þess að þeir beri hag Siglufjarðar svo mjög fyrir brjósti, heldur einfaldlega af hinu, að þeir eru að reyna að koma höggi á hæstv. fjmrh.

    Hvernig var staðið að sölu á verksmiðjunni Siglósíld? Hverjir stóðu að þeirri sölu? Það var ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. undir forustu Sverris Hermannssonar, þáv. iðnrh. Auglýsti hann Siglósíld á almennum markaði? Það gerði hann ekki.
    Ég er ansi hræddur um að það megi finna býsna mörg dæmi þess að sala hafi farið fram með nokkuð hliðstæðum hætti og hér var um að ræða, að það væri látið fréttast að fyrirtækið væri til sölu og kannað hverjir gætu boðið í það og síðan selt að bestu manna yfirsýn. Ég er ekkert að segja það að þetta sé endilega hin eina og sanna og rétta aðferð. Ég hjó eftir því að hæstv. fjmrh. sagði það einmitt hér í umræðunum í upphafi að hann teldi koma til greina að setja fastar reglur um þessi efni. Ég er honum alveg sammála. Mér finnst það geti vel komið til greina að það séu settar fastar reglur um það hvernig svona sala eigi að fara fram þannig að það sé hægt að spara okkur þingmönnum nokkurra daga umræður um smáatriðin í sambandi við söluna, að menn séu ekki að deila um það eftir á hvort salan átti að fara fram svona eða hinsegin. En að halda því fram að vinnuaðferð hæstv. fjmrh. hafi verið eitthvert einsdæmi og eitthvað allt, allt öðruvísi heldur en venja hafi verið, það er auðvitað gjörsamlega út í bláinn.
    Staðreyndin er nefnilega sú að ýmislegt í vinnuaðferð fjmrh. var mikil framför frá því sem verið hefur, eins og ég hef nú þegar rakið. Ég tel það ráðherranum til gildis að hann hafði hvað eftir annað samstarf og samráð við alþingismenn kjördæmisins um þetta mál. Það hafa fyrirrennarar hans ekki gert við svipaðar aðstæður. Alls ekki. Að vísu voru sumir þingmannanna ósammála, en það breytir því ekki að þeir áttu þess kost að koma sjónarmiðum sínum á framfæri hvað eftir annað.
    Ég tel það, í öðru lagi, hæstv. ráðherra mjög til gildis og til hróss að hann hafði tvívegis náin samráð við bæjarstjórn Siglufjarðar. Hann lagði það á sig að fara sérstaka ferð til Siglufjarðar í bæði skiptin og eyða deginum með bæjarstjórn Siglufjarðar til að ræða þetta mál tvisvar sinnum. Og þeir sem til þekkja vita að það var enginn sérstakur ágreiningur í bæjarstjórn Siglufjarðar um vinnuaðferðina, þvert á móti gerði bæjarstjórn Siglufjarðar nokkrum dögum áður en salan fór fram --- ég man ekki nákvæmlega hvað það var löngu áður, kannski var það vika eða hálfur mánuður, eitthvað þess háttar --- þá gerði bæjarstjórn Siglufjarðar sérstaka samþykkt um það að hún teldi rétt að heimamenn gætu yfirtekið þetta fyrirtæki og henni hefði verið kynnt hvað til stóð.
    Þetta tel ég ráðherranum mjög til hróss og vona að þeir sem á eftir fylgja og lenda í svipaðri aðstöðu og hæstv. ráðherra gerði í þessu tilviki geri slíkt hið sama. En ég tek líka alveg undir með ráðherranum að það gæti út af fyrir sig verið ágætt að setja almennar reglur um þetta þannig að ekkert þurfi um það að deila hvernig best sé að þessu að standa. Hins vegar verður að vera í slíkum reglum ákveðið svigrúm til að setja skilyrði við söluna og það er auðvitað kjarni þessa máls, að hæstv. ráðherra setti ákveðin skilyrði,

réttilega, þegar salan fór fram um það að kvótinn yrði áfram í byggðarlaginu og hann yrði ekki seldur burtu.
    Ég verð nú að segja alveg eins og er um ágætan þingfélaga minn, hv. þm. Pálma Jónsson, sem ég hef átt mjög góð samskipti við um ævina, að ég undraðist það mjög hér áðan að hann skyldi máli sínu til stuðnings fara að vitna í blaðagreinar um þetta mál þar sem m.a. er reynt að sanna það að hæstv. ráðherra hafi selt Þormóð ramma á of lágu verði með því að benda á að það hefði verið hægt að selja kvótann sér á parti til annarra byggðarlaga. Þetta var einmitt greinin sem hv. þm. vitnaði í, grein eftir Hilmar Viktorsson viðskiptafræðing sem skrifaði í Dagblaðið fyrir nokkrum dögum síðan. Hann kemst að þessari niðurstöðu sem hv. þm. rakti hérna áðan, að það hefði verið hægt að fá tvöfalt meira fyrir fyrirtækið. En hvernig átti að fara að því? Hann las það ekki, hv. þm., og ég verð því að lesa það hér. Í þessari grein segir Hilmar Viktorsson, með leyfi forseta:
    ,,Af hverju seldi fjmrh. ekki Stapavíkina SI með 1000 tonna kvóta fyrir 160 -- 170 millj. kr.? Þá hefði Þormóður rammi hf. haft eftir 5.050 tonna kvóta. Eftir sölu á Stapavík SI hefðu verið komin rök fyrir sölu á hlutabréfunum á 150 millj. kr. Þannig hefði ríkissjóður fengið 310 -- 320 millj. kr. fyrir hlutabréfin.``
    Og seinna segir þessi viðskiptafræðingur: ,,Ef Þormóður rammi hf. hefði verið auglýstur með skilyrðum, sbr. að 4.500 -- 5.000 tonn yrðu unnin í Siglufirði, hefðu líklega tilboð komið ca. 400 -- 500 millj. umfram yfirteknar nettóskuldir.``
    Sem sagt, þessi maður fær sína niðurstöðu út á þann hátt að það átti að byrja á því að selja 1000 tonna kvóta út úr byggðarlaginu. Þannig fær hann sína niðurstöðu. ( Gripið fram í: Er ekki verið að því?) Nei, það er sko ekki verið að því. Það er einmitt þvert á móti gengið út frá því sem grundvallarreglu í þessu dæmi, og af því stafar kannski fyrst og fremst ágreiningurinn um það, að kvótinn verði þar eftir vegna þess að það var verið að selja heimamönnum.
    Ég hjó eftir því þegar umræður fóru hér fram á Alþingi um þetta mál fyrir nokkrum mánuðum síðan. ( Fjmrh.: 6. desember.) Já, 6. desember, að það var ágreiningur milli mín annars vegar og hv. þm. Páls Péturssonar og Pálma Jónssonar hins vegar um eitt atriði. Og um hvað snerist sá ágreiningur, ef menn rifja það upp? Jú, þeir munu sjá það ef þeir lesa umræðuparta úr Alþingistíðindum að ágreiningurinn snerist um það að ég taldi að það ætti að selja heimamönnum fyrirtækið en þeir vildu ekki útiloka að fyrirtækið yrði selt einhverjum öðrum. Þetta kom mjög skýrt fram í þeim umræðum. Þeir töldu að það ætti að halda þeim möguleikum opnum. Og nú þegar þeir koma hér upp þá eru þeir, sem þeir vilja helst vitna í, menn sem prédika einmitt þetta: að það hefði verið best að selja kvótann, a.m.k. talsvert af kvótanum úr byggðarlaginu, selja fyrirtækið einhverjum öðrum en heimamönnum. Þannig hefði ríkissjóður getað fengið eitthvað meira út úr dæminu.
    Auðvitað er enginn að mótmæla þessu. Auðvitað er þetta hárrétt. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þm. Pálma

Jónssyni. Það hefði auðvitað verið hægt að fá talsvert meira fyrir fyrirtækið ef kvótinn hefði verið seldur úr byggðarlaginu. Það hefði verið hægt að fá meira. En það var bara ekki það sem menn vildu. Ég er satt að segja alveg gáttaður á því að þingmenn Norðurl. v., sem hljóta að bera hagsmuni þessa byggðarlags fyrst og fremst fyrir brjósti, skuli leyfa sér hér í ræðustól Alþingis að taka undir sjónarmið af þessu tagi, því ég tel að einmitt þetta sé kjarni málsins.
    Ef fyrirtækið hefði verið selt í pörtum, ef fyrirtækið hefði verið boðið á almennum markaði þannig að hægt væri að bjóða það til kaups mönnum utan Siglufjarðar, þá var fullkomlega raunhæft að fá meira fyrir fyrirtækið, meira í ríkiskassann. En ef átti að selja fyrirtækið heimamönnum þá var þetta fullkomlega raunsætt verð eins og fram kemur í því að það komu fram tvö tilboð og þau voru bæði miðuð við þetta verð. Og slík tilboðsverð eru auðvitað hið eina sem í raun og veru er hægt að miða við. Hitt, hvað fyrirtækið gæti verið verðlagt á miðað við einhverjar og einhverjar forsendur viðskiptafræðinga, ja, það er meira eða minna bara heimspeki og fræðilegar vangaveltur þar sem menn geta komist að hundrað niðurstöðum án þess að nokkur þeirra sé endilega sú eina rétta.