Skýrsla um úthlutun fiskveiðiheimilda
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Hinn 18. des. 1990 lagði meiri hl. sjútvn. Ed. og meiri hl. sjútvn. Nd. fram beiðni um skýrslu frá sjútvrh. um úthlutun á fiskveiðiheimildum til smábáta. Er beiðnin svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Með vísan til 30. gr. laga um þingsköp Alþingis óskum við undirritaðir alþingismenn eftir því að sjútvrh. flytji Alþingi skýrslu um úthlutun á fiskveiðiheimildum fyrir smábáta.
    Í skýrslunni komi m.a. fram hvaða bátum, annars vegar milli 10 og 20 brl. og hins vegar undir 10 brl., hafi verið haldið til veiða, hver hafi verið stærð þeirra og aflamark öll árin síðan 1984. Sérstaklega er beðið um, eftir að endanlegri úthlutun á aflaheimildum til smábáta er lokið, að gerð sé nákvæm grein fyrir tilraunaúthlutun þeirri til smábáta sem fram hefur farið, hverjar hafi verið aflaheimildir einstakra báta samkvæmt þeirri úthlutun og hvers eðlis þær leiðréttingar séu sem ráðuneytið hafi gert og hvers eðlis þær athugasemdir séu sem ekki hafa verið teknar til greina. Jafnframt er óskað upplýsinga um endanlega úthlutun til einstakra báta og að gerð sé grein fyrir þeim kaupum og sölum á bátum og fiskiskipum sem orðið hafa eða verða á árinu 1990.
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á fundi sameinaðs þings fljótlega eftir að henni hefur verið útbýtt á Alþingi.``
    Nú er komið fram í febrúarmánuð og ekki hefur heyrst eitt einasta orð frá hæstv. sjútvrh. um þetta mál. Ráðuneytið og hæstv. ráðherra hefur ekki haft samband við þá menn, sem um skýrsluna báðu, um það hvernig þessu máli liði þó svo að lögum samkvæmt sé skylt að þau mál sem hér er spurt um liggi fyrir um áramót. Ég þarf ekki að rifja upp að þetta mál hefur verið tekið upp á Alþingi nokkrum sinnum sem þingsköp þar sem hér er um málefni þingnefnda að ræða þar sem deilt er um það hvort hæstv. ráðherra sé skylt að afhenda sjútvn. nauðsynleg undirgögn varðandi lagafrv. og framkvæmd þeirra. Það hefur verið staðfest bæði í umræðu minni nú og áður að það er rétt að taka þetta mál upp sem athugasemd við fundasköp af því að hér erum við beinlínis að ræða um störf þingsins, samskipti þings og ráðherra og þá kröfu meiri hl. sjútvn. beggja deilda að hæstv. ráðherra leggi umbeðin plögg á borðið svo við getum með efnislegum hætti fjallað um það mál sem hér um ræðir.
    Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það í þingdeildinni að margvíslegar sögur eru á kreiki um hvernig haldið hafi verið á kvótamálum smábáta og auðvitað ógerningur fyrir alþingismenn að taka efnislega afstöðu til einstakra sögusagna af því tagi á meðan hæstv. ráðherra kýs að halda þessu máli inni á borði hjá sér þó svo að fyrir liggi að listinn yfir svonefnda tilraunaúthlutun hafi komið út fyrir dyr sjútvrn. og sé m.a. til hjá Samtökum smábátaeigenda eftir því sem mér er sagt og sem kannski í huga hæstv. ráðherra eru þýðingarmeiri samtök en þjóðkjörnir þingfulltrúar.

    Þeir sem skrifa undir þessa beiðni eru ásamt mér Skúli Alexandersson, Danfríður Skarphéðinsdóttir, Karvel Pálmason, Geir Gunnarsson, Matthías Bjarnason, Hreggviður Jónsson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Kristinn Pétursson og Guðmundur H. Garðarsson.