Skýrsla um úthlutun fiskveiðiheimilda
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég vil vona að hæstv. sjútvrh. takist að ljúka gerð skýrslunnar, eins og hann segist vonast til, áður en Alþingi ljúki þannig að eftir að þingmenn hafa fengið undirgögnin í hendur og þau liggja hér fyrir í skýrsluformi á Alþingi, hvernig tilraunaúthlutunin var í einstökum atriðum og hvers eðlis breytingar á henni verða og hver síðan lokaúthlutun, þá gefist svigrúm til að ræða þessi mál. Það er auðvitað ánægjulegt fyrir okkur í sjútvn. Alþingis að geta átt orðastað við starfsmenn sjútvrn. um þetta og ótal margt fleira. Við erum ávallt viðbúnir því og reiðubúnir. En Alþingi hefur samþykkt að þessi skýrsla skuli lögð fram með formlegum hætti og til þess að ekki sé neinn vafi í huga neins um það hvernig ég skil þá samþykkt þá er hún á þann veg að Alþingi líti svo á að ráðherra beri að láta alþingismönnum í té þær upplýsingar sem hann synjaði sjútvn. um.