Áfengislög
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Flm. (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 82/1969, með síðari breytingum, á þskj. 617. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Eiður Guðnason, Eyjólfur Konráð Jónsson, Guðmundur Ágústsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir og Margrét Frímannsdóttir.
    Í 43. gr. laga um vernd barna og ungmenna, nr. 53/1966, segir að þegar barni eða ungmenni sé bannaður aðgangur að tilteknum skemmtunum, þ.e. kvikmyndasýningum, öðrum opinberum skemmtunum og hvers konar öðrum skemmtunum, þá skuli miðað við fæðingarár þeirra en ekki fæðingardag.
    Skömmu eftir að þessari lagagrein var breytt árið 1983, sbr. lög nr. 14/1983, gaf dóms- og kirkjumrn. út bréf, dags. 13. jan. 1984, til allra lögreglustjóra á landinu. Í því bréfi áréttaði dóms- og kirkjumrn. að aldursmark í áfengislögum, nr. 82/1969, er varðar 18 ára aldur sem skilyrði fyrir dvöl á veitingastað að kvöldi til þar sem veitingar áfengis eru leyfðar, miðist við fæðingardag en ekki fæðingarár. Því komi ákvæði 43. gr. laga um vernd barna og ungmenna, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 14/1983, ekki til álita í því sambandi. Litið var svo á að ákvæði þeirra laga breytti ekki ákvæðum áfengislaga.
    Ástand þessara mála hefur breyst mjög á síðustu missirum, einkum eftir að sala á áfengu öli hófst 1989. Áfengisveitingastaðir í Reykjavík eru nú milli 90 og 100. Þeir eru ýmiss konar, jafnvel skyndibitastaðir svokallaðir þar sem börn og unglingar fara inn og kaupa sér mat. Samkvæmt lögunum er slíkt í raun og veru bannað. Ungmenni mega ekki fara inn á staðina nema í fylgd með fullorðnum af því að þar er áfengi selt. Ljóst er að hér er um úreltar reglur að ræða. Nauðsynlegt er því að breyta 20. gr. áfengislaganna og um það er gerð tillaga í þessu frv.
    Á það verður að leggja mikla áherslu að með frv. þessu er ekki verið að auðvelda ungmennum
að verða sér úti um áfengi. Skv. þessu frv. er ekki gerð tillaga um það. Reglan í 3. mgr. 16. gr., um að ekki megi afhenda eða selja yngri mönnum en 20 ára áfengi, stendur óbreytt og þar er eðlilegt að miða við fæðingardag. Hins vegar snýst þetta mál um aðgang að þeim fjölmörgu skemmtistöðum þar sem áfengisveitingar eru. Það hlýtur að teljast réttlætismál að sama gildi um allan árganginn í þeim efnum, að t.d. 18 ára skólafélagar geti farið saman á skemmtistað þótt þar sé áfengi á boðstólum.
    Sem betur fer fer stór hluti ungmenna á skemmtistaði til að eiga þar ánægjulega stund með félögum sínum en ekki til þess að verða sér úti um áfengi. Hér gildir enn sami rökstuðningur og fylgdi frv. Níelsar Árna Lund og Páls Péturssonar á þinginu 1982 -- 1983 fyrir þeim breytingum á lögunum um vernd barna og ungmenna sem áður getur. Þær eru sem hér segir:
 ,,1. Löggjafinn gerir ráð fyrir því, m.a. í lögum nr. 63/1974, grunnskólalögum, að þessir unglingar eigi sama rétt og sömu skyldur og er skólanum skylt að leggja fyrir þá sama námsefni hvort sem viðkomandi

er fæddur fyrst í janúar eða síðast í desember. Þar af leiðir að lögin hljóta að gera ráð fyrir að þeir hafi líkan þroska bæði líkamlegan og andlegan.
    2. Af þessu leiðir m.a. að unglingarnir hafa í flestum tilvikum valið sér félaga innan síns bekkjar eða hóps án tillits til þess hvenær ársins þeir eru fæddir og með því að miða við fæðingardag þegar um skemmtanir ræðir er verið að sundra félagshóp sem ekki er æskilegt.
    3. Þessi aðskilnaður er mjög óæskilegur og geta afleiðingar hans verið ófyrirsjáanlegar, og dæmi eru um að þeir unglingar, sem fyrir utan eru og hafa verið skildir frá hópnum, leiðist til óreglu og séu verr á sig komnir en þeir sem komast inn. Þessi sundrun félagshópa er því mjög varhugaverð og hlýtur að skapa fleiri vandamál en hún leysir.
    4. Mjög erfitt er fyrir forráðamenn skemmtana að framfylgja núgildandi reglum þar sem ásókn jafnaldra er mikil í að sækja skemmtanir saman, og hefur þetta misræmi á aldursgreiningu orðið þess valdandi að unglingar hafa reynt að komast inn á skemmtanir á ólöglegan hátt, m.a. með fölsun á nafnskírteinum. Af þessu hefur svo leitt að á mörgum stöðum hefur í reynd verið farið eftir fæðingarári en ekki fæðingardegi þegar aldur er metinn.``
    Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.