Áfengislög
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Skúli Alexandersson :
    Herra forseti. Ég hef því miður ekki haft langan tíma til að kynna mér það frv. sem hér er til umfjöllunar en það er túlkað sem réttlætismál og fljótt á litið held ég að ég geti sagt að nú fari réttlætismálin að gerast dálítið skringileg. Hér er að mínu mati lítið verið að gera annað en rýmka reglur um áfengiskaup ungmenna. Ef það er í sjálfu sér réttlætismál þá er kannski þetta mál réttlætismál en ég sé nú í hendi minni ekki að það geti kallast það.
    Það má vel vera að ýmsir þættir í áfengislöggjöfinni, ýmis lagasmíð sé nokkuð vafasöm, en á að leysa þau vandkvæði með því að gefa eftir eins og hér er lagt til? Hér er raunverulega verið að bæta a.m.k. hálfum árgangi ungmenna við þann hóp sem hefur lagalegan rétt til að sækja áfengisveitingastaði. Að færa þau rök fyrir því að nú sé búið að opna fleiri áfengis- og bjórsölustaði hér í höfuðborginni og þess vegna þurfi að gera þetta finnst mér nú falla um sjálft sig.
    Ég lýsi andstöðu minni við þetta frv. Ég tel að vel hefði mátt skoða þetta í einhverju samhengi við aðrar aðgerðir í áfengismálum. Ef það hefði verið tengt öllum þeim fögru fyrirheitum, sem gefin voru þegar bjórinn var samþykktur, um forvarnarstarf, um upplýsingastarf, sem skyldi sett í gang til þess að forða því að þróunin yrði á þann veg, sem hún hefur orðið, aukin áfengisneysla. Ég tel því að þetta mál hefði mátt bíða einhverra slíkra aðgerða af hendi heilbrigðisyfirvalda og þeirra sem með áfengismál fara í þjóðfélaginu.