Áfengislög
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég áttaði mig ekki alveg á þankagangi hv. 4. þm. Vesturl. hér áðan. Það sem vakir fyrir flm. er mjög einfalt. Það er að reyna að stuðla að því að löggjafinn viðurkenni í sambandi við skemmtistaði og annað þvílíkt að unglingar í sömu bekkjardeild geti skemmt sér saman og haldið saman eins og þeir gera án þess að fara í kringum lögin. Við vitum vel að unglingar komast upp með það á 18. árinu og 18 ára að halda hópinn inni á vínveitingastöðum og við erum eingöngu með þessu að viðurkenna orðinn hlut. Að því leyti vil ég þakka flm. fyrir að flytja þetta litla frv.
    Ég tel á hinn bóginn auðvitað spurningu hvort ekki sé rétt að athuga nákvæmlega og endurskoða hin ýmsu ákvæði sem eru í lögum um réttindi og skyldur sem fylgja mismunandi aldri. Ekki segjum við neitt við því þótt 17 ára unglingur eða ungmenni, eða hvað það heitir nú skv. laganna hljóðan, gifti sig. 18 ára kona, 19 ára maður sem kannski á tvíbura má ekki skv. landslögum kaupa sér pela af áfengi, fá sér bjór á vínveitingastað o.s.frv. Þetta orkar allt tvímælis, að þeir sem hafa kosningarrétt megi ekki kaupa sér bjórflösku. Þetta er auðvitað undarlegt og út í hött raunar. Þess vegna gæti 18 ára maður eða kona verið kosin á Alþingi og boðið til forseta Íslands eða í þingveislu af hæstv. forseta sameinaðs Alþingis og mætti ekki neyta þeirra veitinga sem þar eru fram bornar. Það er auðvitað skrýtin lagasetning. Ég er þó ekki að boða neinn tillöguflutning um þau efni en vil aðeins ítreka það sem ég sagði áðan að mér finnst eðlilegt að bekkjardeildir geti skemmt sér saman og hafi sambærilegan aðgang að skemmtistöðum.