Áfengislög
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Flm. (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa farið fram um þetta litla mál, eins og hv. síðasti ræðumaður orðaði það, sem þó er nokkuð stórt mál í réttlætisátt fyrir ákveðinn aldurshóp. Þó þetta sé til breytinga á áfengislögunum þá fjallar þetta mál raunar ekki um áfengismál. Það fjallar um aðgang að skemmtistöðum, sem reyndar hafa vínveitingaleyfi. Eins og lögin eru í dag þá er ósamræmi á milli laga um vernd barna og ungmenna og áfengislaga. Til þess að samræma þau lög eru tvær leiðir til. Annars vegar að breyta lögum um vernd barna og ungmenna í fyrra horf þannig að það sé fæðingardagurinn sem ræður. Hin leiðin er að breyta áfengislögunum. Og það er sú leið sem við, þessir þingmenn, höfum valið.
    Ég er sannfærð um það að þegar hv. 4. þm. Vesturl. hefur lesið málið aftur, ég veit að hann hefur átt mjög annríkt í nefndarstarfi í dag og kannski ekki verið búinn að lesa þetta mál alveg til fulls, muni hann átta sig á að þetta er ekki hættulegt mál varðandi áfengisneyslu heldur miklu frekar réttlætismál fyrir lítinn hóp ungmenna.
    Svo vil ég taka undir það sem hefur komið fram hér að ég held að það sé ástæða til að skoða fleiri ákvæði í áfengislögunum. Ekki síst það sem hér hefur verið til umræðu, þó ég sé ekki að boða málaflutning í sambandi við það núna, en það er kannski ákveðið ósamræmi í því að ungmenni geti verið inni á þessum stöðum í tvö ár áður en þau mega kaupa áfengi. Hvort ekki þarf að breyta hér þannig að það sé samræmi hvað þetta snertir.