Áfengislög
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Eiður Guðnason :
    Herra forseti. Ég held að hv. 4. þm. Vesturl. hafi ekki enn gert sér alveg grein fyrir því um hvað þetta mál snýst. Og það er best að segja það alveg berum orðum --- ég hélt að það hefði verið sagt nægilega skýrt áður --- að það er ekki verið að rýmka með neinum hætti reglur um áfengiskaup unglinga eða ungmenna. Það er ekki verið að því. Það er verið að rýmka reglur um aðgang að þeim stöðum þar sem áfengi er selt. Eins og ég sagði hér áðan er verið að gera það mögulegt að þau geti komið inn á skyndibitastaði sem nú eru farnir að selja áfengt öl og léttvín. Ég er ekki að mæla því bót. Það er bara þannig. ( SkA: Það er réttlætismál fyrir unglinga.) Það er bara ekki þannig. Það var það ekki að mínu mati, hv. þm., og hefur held ég ekki verið flutt þannig. Ég held að sú staðreynd, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. drap hér á áðan, að unglingar á þessum aldri eru langflestir í skóla og skemmta sér gjarnan saman eins og eðlilegt er hjá ungu fólki. Heilu bekkjadeildirnar fara saman fyrir árshátíðir og skemmtanir og borða saman á einhverjum veitingastað. Það vita þeir sem eiga ungmenni á þessum aldri að er mjög algengt. Það þýðir ekki að allt þetta unga fólk hafi vín um hönd, alls ekki. En staðreyndin er bara sú að þeir staðir sem bjóða góðan mat eru yfirleitt vínveitingastaðir. Eins og reglurnar eru núna þá verður kannski hálfur bekkurinn að sitja heima eða brjóta lög. ( KP: Eins og er gert.) Eins og hugsanlega er gert, hv. þm. Karvel Pálmason. Þessi breyting held ég sé í þágu ungmennanna, og ég hygg að flest ungmenni, ef spurð væru, væru sammála þessari breytingu okkar flm. en ekki hv. 4. þm. Vesturl. Þó efast ég ekki um að honum gangi gott eitt til með sínum málflutningi.
En eins og þessar reglur eru núna kann hálfur bekkurinn að þurfa að sitja heima, þeir sem fæddir eru eftir ákveðinn mánaðardag á árinu. Mér finnst þetta satt best að segja svo meinleysisleg breyting, sem kemur til móts við þessi ungmenni en er annars að meinalausu, að ég skil ekki af hverju hv. 4. þm. Vesturl. þarf svo mjög að agnúast út í hana vegna þess að það er ekki verið að breyta aldurstakmarki til þess að kaupa og neyta áfengis á opinberum veitingastöðum.