Áfengislög
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Skúli Alexandersson :
    Herra forseti. Rök eins og þau að hálfur bekkurinn þurfi að sitja heima o.s.frv. eru náttúrlega alveg út í bláinn vegna þess að sem betur fer er ekki alveg bundið í sambandi við bekki þegar komið er á þennan aldur að það ruglist ekki nokkuð á milli 17 og 18 og jafnvel 16 ára aldurs. Það gerist þó nokkuð mikið, þó það sé ekki það algilda. Þá væri næsta frv. á þann veg að það yrði að opna bekkina niður svo lengi sem einhver unglingur á þessum aldri væri í yngri bekkjunum. Þessi rök finnst mér því alveg út í bláinn.
    Ég vil fyrst og fremst segja það sem ég sagði í fyrstu ræðu minni að ég tel ekki rétt að farið sé að hreyfa þeim málum sem hér er verið að hreyfa, þ.e. breyting á áfengislöggjöfinni íslensku, öðruvísi en þar sé tekið eitthvað meira á í þessum málum en hér er verið að leggja til. Og þá sérstaklega að þeir aðilar sem lögðu til mikla breytingu og fengu samþykkta á árinu 1988 í sambandi við frjálsa sölu á öli sýni að vilji hafi verið bak við þau stóru orð að forvarnir skyldu auknar og upplýsingar í sambandi við skaðsemi við notkun áfengra drykkja. Ég held að það sé tímabært að slík brtt. komi fram eða eitthvað sem snúi í þá áttina. Ég er að mótmæla því að hér sé enn á ný verið að slaka á í sambandi við áfengislög okkar Íslendinga.