Endurgreiðsla á gjaldi af erlendum lánum
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Það er náttúrlega óþolandi í fyrsta lagi að ráðherra, sem hagar sér með þeim hætti að boða komu sína hingað í þingsalinn kl. þrjú og lætur þingmenn bíða eftir sér í stundarfjórðung og gefur ekki skýringar og tekur þannig upp mikilsverðan tíma þingmanna og kemur í veg fyrir að þeir geti snúið sér að öðrum verkum, skuli leyfa sér að koma svo hingað í þingsalinn með skætingi og svara engu þeirri fyrirspurn sem fyrir hann er lögð. Ég lagði fyrir hæstv. ráðherra ákveðna fyrirspurn. Hæstv. ráðherra hefur verið hér með útúrsnúninga, hefur ekki svarað í einu eða neinu því sem að var spurt sem auðvitað er mjög í samræmi við hegðan ráðherrans að öðru leyti.
    Ég vil í fyrsta lagi aðeins rifja það upp að það lántökugjald sem við erum hér að tala um og fellur á þessar skipasmíðastöðvar er samkvæmt lögum sem annars vegar voru sett á þeirri tíð sem Jón Baldvin Hannibalsson var fjmrh. og hins vegar á þeirri tíð þegar hæstv. ráðherra Ólafur Ragnar Grímsson var fjmrh., þó svo að hann muni ekki eftir því sjálfur. Það sýnir einungis að hann hefur lítið minni eða er að vonast til þess að komast upp með það að segja ósatt. Ekki skal ég um það segja hvort heldur vakir fyrir ráðherranum. En þannig eru málin að þessi lög eru sett í tíð þessara tveggja ráðherra og það vill svo til, hæstv. ráðherra, að ég er hér með lögin og undir þau skrifar Ólafur Ragnar Grímsson, þannig að það þarf ekki um það að ræða að ráðherrann fer algjörlega með rangt mál. (Gripið fram í.) Það stendur hér að í stað orðanna 31. des. 1988 komi 31. des. 1989, þannig að sá hluti lántökugjaldsins sem fellur á þessu tímabili er að fullu og öllu leyti á ábyrgð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar.
    Ég vil í öðru lagi taka það fram, sem kom fram í framsöguræðu minni þegar ég gerði grein fyrir lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum 1988, að ég tók það mjög skýrt fram að á þetta lántökugjald, svo hátt sem það þá var, hefði verið fallist vegna þess að mjög mikill kvíði var uppi vegna þeirrar miklu þenslu sem svo er kölluð sem þá var á vinnumarkaði hér á landi. Menn voru af þeim sökum að reyna að standa á móti því að tekin væru erlend lán til fjárfestingar. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. séu sammála um að í of mikla fjárfestingu hafi verið ráðist á fyrri hluta árs 1988 þó svo að þessi ákvæði hafi þá verið í lögum.
    Ég vil taka það alveg sérstaklega fram að bæði á þeim tíma lagði ég áherslu á það að þegar talað var um útflutnings- og samkeppnisiðnað yrðum við að skilja það svo að slík ákvæði tækju til skipasmíðaiðnaðar í heild. Þegar hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, og gerði sig eins fallegan og hann getur best orðið, að það væri ekki hans siður að endurgreiða skatta sem á hefðu verið lagðir, var hann að gefa í skyn að ekkert fordæmi væri fyrir því sem ég fer fram á í þessu frv. Nú veit ráðherrann líka þar betur, herra forseti.

Líka þar veit hann betur, alveg eins og hann vissi að hann hafði sjálfur skrifað undir lögin, þá vissi hann að hann fór þar líka með rangt mál.
    Allt árið 1989 var ég að eltast við hæstv. ráðherra. Út af hverju? Vegna þess að það lágu fyrir loforð, sem gefin voru hér í Ed. vegna lánsfjárlaga og vegna þeirra umræðna sem urðu um ráðstafanir í ríkisfjármálum, það lágu fyrir loforð bæði frá hæstv. fjmrh. og hæstv. iðnrh. Jóni Sigurðssyni um það að lántökugjöld sem tekin væru vegna íslensks skipasmíðaiðnaðar yrðu endurgreidd. Þessi loforð lágu skýrt fyrir. Það var líka staðfest þegar loksins náðist í gegn á næstsíðasta degi þingsins 1989, fyrir, ja, ég vil bara þakka mér það, ég eltist við ráðherrann hér dag eftir dag og loksins tókst það á næstsíðasta degi þingsins að knýja það fram að hann sendi bréf upp í Byggðastofnun þess efnis að lántökugjald vegna lána sem veitt höfðu verið af Byggðastofnun til þeirra útgerðarmanna sem létu gera við skip sín í íslenskum skipasmíðastöðvum, slíkt lántökugjald yrði endurgreitt. Sama daginn og sú fyrirspurn var tekin til umræðu barst bréfið upp í Byggðastofnun. Allt sem sagt hafði verið um endurgreiðslu þessara lána hér í deildinni, bæði þá um vorið og í sameinuðu þingi fyrr um veturinn, voru staðlausir stafir.
    En bréfið barst loksins þennan næstsíðasta dag. Og það er til uppi í Byggðastofnun, ef ráðherra vefengir og er sjálfsagt að senda honum bréfið, þannig að það náðist fram. En ráðherrann kaus að skilja það þannig að þessi endurgreiðsla vegna samkeppnisiðnaðarins sem heitir skipasmíðar skyldi ekki taka til þess ef fiskiskip yrði smíðað hér á landi. Á hinn bóginn skyldi það taka til þess ef hér yrði smíðað farþegaskip eða prammi, vöruflutningaprammi. Það er fiskveiðiþjóðin sem stendur þannig að skipasmíðaiðnaðinum. Það mátti ekki endurgreiða lántökugjaldið ef um fiskveiðiskip var að ræða. Þannig var skilningur ráðherrans á þessu. Bæði reyndu einstakir þingmenn úr Alþb., úr Framsfl., úr Alþfl. að hafa áhrif á iðnrh. og fjmrh. í þessu máli en það var allt án árangurs. Þeir stóðu ekki við þau fyrirheit sem þeir höfðu gefið, hvorki varðandi Slippstöðina á Akureyri, Marsellíus Bernharðsson né Vélsmiðju Seyðisfjarðar. Síðan leið árið 1989 og það er rétt sem ráðherra segir, þá féllu lögin úr gildi og hann hafði ekki lengur heimild til að endurgreiða lántökugjaldið og það er af þeim sökum sem þetta frv. er nú flutt öðru sinni.
    Nú skal ég ekki segja hvort ráðherra kýs að taka aftur til máls eða reynir með einhverjum öðrum og nýjum hætti að snúa út úr í þessu máli. Svona er þetta vaxið. Jón Baldvin Hannibalsson skrifaði undir lántökugjaldið í fyrra skiptið, Ólafur Ragnar Grímsson í seinna skiptið. Ég hef síðan tekið þetta mál upp á Alþingi þrásinnis. Ég tók þetta mál upp í sambandi við undirbúning laganna um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum, 1988 tók ég þetta mál upp við þáv. fjmrh. Jón Baldvin Hannibalsson, en hann varð nú bráðkvaddur í embætti, ef svo má segja, og ég hef hér við hliðina á mér þann ráðherra sem við tók.
    Ég segi svo eins og mér finnst, það er undarlegt

þegar ráðherra Alþb. heldur því fram hér hvað eftir annað að það hafi verið röng ákvörðun að ráðast í smíði fiskiskips á Akureyri 1988. ( ÓRG: Án þess að hafa kaupanda.) Án þess að hafa kaupanda. Slíkt hafði verið gert áður hjá þeirri skipasmíðastöð og tekist vel. Það hefur sennilega líka verið rangt þá.
    Þá var um það að ræða að segja 50 manns upp atvinnunni. Það er það sem ráðherrann er að mæla með. Hann er að mæla með því að 50 manns hafi líka verið sagt upp atvinnunni á árinu 1989. Það er með öðrum orðum efnahagsstjórn Alþb., þegar verið er að byggja upp þekkingu í skipasmíðaiðnaði, halda til haga þekkingu og verkkunnáttu með því að ráðast í smíði fiskiskips, þá er svar Alþb. að það eigi að kasta slíku fyrir róða, það eigi að brjóta undirstöðu skipasmíðaiðnaðarins hér á landi með því að leyfa ekki slíkar aðgerðir, leyfa það ekki, brjóta niður Slippstöðina á Akureyri.
    Þetta er auðvitað mjög athyglisvert. Svipað sjónarmið kom fram hjá hæstv. iðnrh. á fundi Fjórðungssambands Norðlendinga nú í sumar á Sauðárkróki. Það hefur komið fram hjá iðnrh. áður og hans sjónarmið hefur verið að við eigum ekki að reyna að halda til haga þeim iðnaði hér á landi sem á við þá samkeppni að stríða erlendis frá að slík sambærileg fyrirtæki þar njóta ríkisstyrks.
    Ég vil vekja athygli hæstv. fjmrh. á að erlendis námu opinberir styrkir til skipasmíðaiðnaðar á þessum tíma minnst 15 -- 20% í löndum Evrópubandalagsins og sums staðar var þessi styrkur enn meiri. Síðan gerðist það fyrir rúmu ári, á haustdögum 1989, að kaupandi fannst að skipinu í Slippstöðinni á Akureyri og bæði hæstv. fjmrh., hæstv. iðnrh. og hæstv. forsrh. gáfu þingmönnum Norðurl. e., gáfu þeim aðilum sem vildu kaupa skipið og starfsfólki Slippstöðvarinnar á Akureyri loforð um að það yrði greitt úr smávegis erfiðleikum í sambandi við það að þessir aðilar keyptu skipið sem er í Slippstöðinni á Akureyri, sem sýnir að sú ákvörðun var rétt, herra forseti, að ráðast í smíði skipsins á því herrans ári 1988 að því tilskildu að það væru menn í ríkisstjórn á Íslandi.
    Þetta mál var síðan tekið fyrir í Byggðastofnun. Ég lagði þá til að Byggðastofnun lánaði til skipsins sem svaraði 80% af kostnaðarverði þar sem ekki væri á það að treysta að Fiskveiðasjóður mundi koma til móts við Slippstöðina með því að lána helming þeirrar fjárhæðar. Þá var því lýst yfir af stuðningsmönnum og fulltrúum Alþb., Framsfl. og Alþfl. að ráðherrar þeirra, fjmrh., iðnrh. og forsrh., hefðu greitt úr málinu. Við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því að ekki yrði úr kaupunum á skipi Slippstöðvarinnar á Akureyri af því að þessir þrír heiðursmenn hefðu nú látið hendur standa fram úr ermum. Og blaðafulltrúi hæstv. fjmrh., hann heitir Mörður, sögulegt nafn Mörður,
flutti Norðlendingum skilaboð frá fjmrh. um það að starfsmennirnir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af því að sú lánsfyrirgreiðsla sem þá var beðið um fengist. Á þeirri stundu var það því samdóma álit fjmrh., iðnrh. og forsrh. að kaupandi, frambærilegur kaupandi hefði fundist að skipi Slippstöðvarinnar. Það var þeirra álit

að um eðlileg viðskipti væri að ræða. Það var ekki fyrr en þeir höfðu sjálfir heykst á því að standa við sín fyrirheit sem þeir hafa verið að kasta fram alls konar glósum, ósmekklegum glósum á menn sem á árinu 1987 og 1988 báru fjárhagslega ábyrgð af rekstri Slippstöðvarinnar á Akureyri. Ég vil minna hæstv. ráðherra á að á árinu 1988 var góður hagnaður af rekstri Slippstöðvarinnar og ekki undan því að kvarta. Og þegar þessi góði hagnaður á rekstri Slippstöðvarinnar var sýndur á aðalfundi þess félags sá hæstv. fjmrh. ástæðu til þess að vísa þeim manni úr stjórn Slippstöðvarinnar sem hér stendur, þannig að ég get ekki borið ábyrgð á stjórn hennar síðan og verður hann að beina orðum sínum til annarra ef hann vill vera með skæting í þeim efnum.
    Ég hlýt hins vegar að harma að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera maður til að endurtaka það opinberlega sem hann sagði við hv. 5. þm. Norðurl. e., að hann hafi í hyggju að gera meira fyrir Slippstöðina á Akureyri en stendur í því frv. sem hér er flutt. Mér þykir líka mjög óviðurkvæmilegt af hæstv. ráðherra að hann skuli ekki skýra fyrir þingdeildinni sem hefur fjárveitingavaldið, það er Alþingi sem hefur það, með hvaða hætti hann ætlar að koma til móts við Slippstöðina ef hann aflar sér ekki lagaheimildar til þess. Það er háttur ráðherrans stundum að halda því fram að hann þurfi heimild í lögum. Ekki þurfti hæstv. ráðherra heimild í lögum þegar hann tók hugvitið eitt til greina sem tryggingu fyrir hárri skattaskuld eins og við munum. Ekki fékk hæstv. ráðherra heimild Alþingis til sölu á hlutabréfum sem hann hefur nú verið húðstrýktur fyrir af Ríkisendurskoðun að selja við of lágu verði. En hvaðan ætlar hæstv. ráðherra að fá heimildina? Og er það hugmynd ráðherrans að hann ætli sér að endurgreiða Slippstöðinni á Akureyri þann hluta gjaldsins sem hún hefur innt af hendi en láta fyrirtæki í eigu einstaklinga, Slippstöðin á Akureyri er að stórum hluta eign ríkissjóðs, en ætli á hinn bóginn að láta tvö fyrirtæki sem eru að öllu í eigu einstaklinga, þ.e. Skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar og Vélsmiðju Seyðisfjarðar, standa undir skattinum algjörlega? Þetta er spurningin.
    Í stuttu máli: Ráðherra hafði heimild til þess að endurgreiða lántökugjald vegna skipasmíða hér á landi. Hann lét endurgreiða skattinn þegar um það var að ræða að aðilar tóku lán til meiri háttar viðhalds og endurbóta. Það var endurgreitt. Ég kann ekkert dæmi í lögum um það að gerður sé skilsmunur á endurgreiðslum af skatti, herra forseti, þegar annars vegar er um endurbætur að ræða og hins vegar um nýbyggingu, enda erfitt að gera greinarmun á milli. Það var endurgreitt vegna endurbóta og endurgreitt vegna meiri háttar viðhalds á skipum ef viðgerðin og endurbæturnar voru unnar í íslenskri skipasmíðastöð. Það þýddi auðvitað að ráðherra bar jafnframt að endurgreiða ef um það var að ræða að fiskiskip var smíðað hér á landi á sama tíma. Það er eðlileg framkvæmd laganna, það er heiðarleg framkvæmd laganna og það var embættisskylda ráðherrans að standa svo að framkvæmdinni. Það var hins vegar ekki gert. Hörmulegt,

herra forseti, að ráðherrann skuli leyfa sér að snúa út úr þegar um svona lagað er að ræða og tala hér í ræðustólnum eins og aldrei hafi komið til endurgreiðslu á lántökugjaldi vegna verkefna sem unnin voru í skipasmíðastöðvum, tala þá þvert um hug sér og reyna að búa til ranga mynd af umræðunni, aðra mynd en raunverulega er fyrir hendi. Þegar menn grípa til slíkra ráða, geta ekki sagt satt í þessum efnum, þá eru þeir með vondan málstað. Þegar menn hafa sjálfir lagt á skattinn og eru að reyna að klístra honum, ábyrgðinni, yfir á aðra þá eru þeir með vondan málstað.
    Það er kækur hjá framsóknarmönnum, kommúnistum og krötum --- og ég vil taka það fram, herra forseti, að hæstv. fjmrh. er öfugt farið við flesta aðra stjórnmálamenn sem hafa nú reynt með árunum heldur að fjarlægjast hamarinn og sigðina, þessi hefur svona heldur hneigst í þá áttina --- það er háttur þessara manna að reyna að koma ábyrgð af öllu sem gerst hefur hér á landi á Sjálfstfl., hvort sem hann hefur verið í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þeir hafa ekki reynt að halda uppi málflutningi á þeim grundvelli að þeir séu sjálfir ábyrgir. Ég get tekið eitt lítið dæmi. Einu sinni þótti þessum hæstv. ráðherra sæma að spauga með það að Sjálfstfl. hefði staðið illa að málum, hefði brugðist þegar hann tók ákvörðun um það í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar að göng yrðu sprengd í gegnum Múlann til Ólafsfjarðar. Hæstv. ráðherra spaugaði með það mál m.a. á Ísafirði. Nú fer hann um allt land með samgrh. sínum og þá stendur í auglýsingunni að þessir tveir menn hafi tekið ákvörðun um Múlagöngin eftir að þeir urðu ráðherrar, ákvörðun sem áður hafði verið tekin. Þannig er nú málflutningurinn. ( Fjmrh.: Matthías gleymdi að útvega peningana.) Gleymdi Matthías að útvega peningana? Skildi Matthías þannig við að hann gleymdi að útvega peningana? Er það þannig að ráðherrar, fjármálaráðherrar, útvegi peningana sjálfir með einhverjum sérstökum galdrastöfum? Ég held að núv. hæstv. fjmrh. hafi ekki útvegað neina peninga. Hitt er rétt að hann er búinn að þyngja skatta á fjögurra manna fjölskyldu um 120 þús. á ári, 30 þús. pr. einstakling. Hann hefur hækkað tekjuskattinn svo að á mörgum stöðum sjá menn fram á hreina örbirgð þar sem menn gátu þó kannski reynt að bjarga sér áður. Ég man ekki, hæstv. ráðherra, er hann búinn að útvega peningana fyrir göngunum sem á að leggja fyrir vestan? Eða hvar eru peningarnir? Ofan í skúffu? Eru það lánin sem ráðherrann er að taka núna sem eiga að fara í göngin fyrir vestan? Er það háttur í íslenskri stjórnsýslu að Vegagerðin sé látin fá poka fyrir öllu því sem samþykkt er á Alþingi í vegamálum fyrir fram og geymt þar í kofforti? Drottinn minn dýri. Það er nú hálfaumt.
    En ég ítreka það sem ég sagði, herra forseti. Ætlar ráðherrann að láta eitt yfir skipasmíðastöðvarnar ganga? Það ætti að vera mjög einfalt að svara því. ( Fjmrh.: Svarið er já.) Svarið er já. Ætlar ráðherrann að veita sérstöku fé til Slippstöðvarinnar á Akureyri til þess að greiða fyrir því að skipið verði selt? ( Fjmrh.: Það hefur komið til umræðu.) Það hefur komið

til umræðu. En ráðherrann er á móti því að endurgreiða lántökugjaldið? ( Fjmrh.: Já.) Þá liggur þetta mál fyrir. Hv. 5. þm. Norðurl. e. verður svo að meta það hvernig ráðherra svarar. Ráðherra er heldur óákveðnari en hann var fyrir tæpu ári. Þá kvað hann miklu fastar að orði en nú. Hann hefur ekki staðið við neitt af því sem hann sagði í maímánuði, ekki eitt einasta orð. Og nú er spurningin hvort hv. þm. meti ummæli hæstv. ráðherra nú svo að hann treysti því að hann muni gera meira fyrir Slippstöðina á Akureyri heldur en felst í því frv. sem hér liggur fyrir. En mér skilst að það séu forsendurnar fyrir því að fella niður endurgreiðsluna af lántökugjaldinu að hv. þm. telur sig hafa loforð ráðherrans fyrir enn hærri greiðslu til Slippstöðvarinnar. Ráðherra hefur lýst því yfir að um það sé ekki að ræða. Ráðherra hefur sagt að það hafi komið rétt til greina að reyna að greiða fyrir einhverju sem hann hefur áður lofað að yrði áreiðanlega gert, þannig að spurningin er: Er betra að hafa einn fugl í hendi en tvo fugla í frumskógum Alþb.? Mér hefur nú sýnst að dauðinn hafi svo heltekið þá skóga vegna mengunarinnar frá Moskvu að varla sé við því að búast að fuglum fjölgi þar um slóðir.