Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég hef verið hlynntur mörgu af því sem hér er gerð tillaga um í þessu frv. Það á alveg sérstaklega við ákvæðið um að Alþingi verði í einni málstofu enda verði starfshættir þingsins sniðnir að því. Það skiptir auðvitað miklu máli hvernig kveðið verður á um þingsköp Alþingis í sambandi við þá breyttu tilhögun en það er mál sem er ekki hér sérstaklega til ákvörðunar. En þessi fyrsta meginbreyting, að deildaskipting verði afnumin, er breyting sem að ýmsu öðru gefnu er tvímælalaust til bóta og mun væntanlega verða mörgum ljóst eftir að sá háttur hefur verið upp tekinn.
    Ég er einnig samþykkur því að fastur samkomudagur þingsins verði 1. okt., heldur fyrr en verið hefur, og að Alþingi starfi allt árið að formi til þannig að hægt sé að boða menn til fundar hvenær sem er. Þessu tengist það ákvæði sem varðar setningu bráðabirgðalaga. Það hefur áður komið fram af minni hálfu að ég hefði viljað ganga mun lengra til að þrengja að setningu bráðabirgðalaga heldur en hér er gert. Í rauninni er eina breytingin sem það varðar að taka þarf afstöðu til bráðabirgðalaga á þingi sex vikum eftir að reglulegt þing kemur saman, hafi bráðabirgðalög verið sett í þinghléi eftir að þinginu hefur verið frestað samkvæmt eigin ákvörðun. En ég hefði talið eðlilegt að ganga lengra og það eru ýmsir fleiri sem eru þeirrar skoðunar, þó ekki hafi verið samstaða um það og því er sú breyting ekki gerð.
    Við skulum vona að sú umræða sem fram hefur farið um setningu bráðabirgðalaga og sá möguleiki að kveðja Alþingi saman sem er samkvæmt þessu frv. verði til þess að bráðabirgðavaldi verði ekki misbeitt af framkvæmdarvaldinu eins og ég held að megi finna mörg dæmi um og sum nýleg.
    Varðandi kjördaginn sem fjallað er um hér hef ég hins vegar ýmsar athugasemdir að gera. Ég tel það skipta miklu að alþingiskosningar fari sem oftast fram á tilsettum tíma, á ásættanlegum
tíma, eins og menn reyndu að lögfesta hér fyrir nokkrum árum með því að annar laugardagur í maímánuði, ef ég man rétt, yrði kjördagur fyrir alþingiskosningar, 11. maí ef kosið yrði samkvæmt þeim ákvæðum nú. En það er kjördagurinn á undan sem er leiðandi um þetta og eftir að lögum var breytt um kjördag hafa menn aldrei komist á þessa dagsetningu og frekar verið að fjarlægjast hana.
    Ég hefði í rauninni viljað taka þetta mál með allt öðrum hætti en aðaltillagan fjallar um, þ.e. að festa kjörtímabilið sem fjögur ár. Það er stundum kallað norska kerfið vegna þess að Norðmenn hafa búið við það fyrirkomulag að þingrof er ekki mögulegt, kjörtímabilið er ákvarðað fjögur ár og samfellt og það er skipan sem ég hefði viljað reyna hér á Íslandi en um það er ekki tillaga hér. Þá hefðu menn ekki verið í þeirri óvissu hvenær til þingkosninga kæmi og þá þyrftu flokkarnir að koma sér saman um landsstjórnina, skipan ríkisstjórnar og þingbundinnar stjórnar innan ramma kjörtímabilsins án þess að hafa möguleika

á þingrofi. En látum það vera.
    Nú er þingrofsvaldið hér áfram og þá getur það auðvitað alltaf breyst með ákvörðun um þingrof, hvenær kosið er og það eru litlar líkur á því í rauninni að menn komist þar samkvæmt þeim ákvæðum sem hér eru í einhverja óskastöðu miðað við árstíma og alþingiskosningar. Þó hefði nú mátt reyna að stilla saman þetta frv. hér og ákvörðun um alþingiskosningar með ákvörðun frv. til laga um viðauka við lög um kosningar til Alþingis sem liggur hér fyrir deildinni, 358. mál, sem kveður á um að kosið skuli laugardaginn 20. apríl 1991. Það er hægt að breyta þeirri dagsetningu, menn geta fært sig yfir á 11. maí með kjördaginn. Ég tel að það væri engin goðgá að gera það og reyna að koma sér inn á þessa dagsetningu. Það er margt sem mælir með því, ekki síst með hliðsjón af því frv. sem hér er til umræðu, þannig að menn óttist ekki að það sé verið að taka upp þann sið að lengja kjörtímabilið, eins og stundum er talað um. Ég held að menn mundu nú lifa það af að þingmenn hefðu ekki umboð hér í nokkra daga, frá 25. apríl til 11. maí.
    Það er líka önnur aðferð sem mætti beita til þess að færa kjördag inn á lögfestan dag, ekki með því að lengja kjörtímabilið heldur með því að stytta kjörtímabilið. Hafi þing verið rofið, segjum að hausti, þá yrði kjörtímabilið sem því svarar styttra, það yrði kosið á ákveðinni dagsetningu, eftir þrjú ár og ákveðna daga, á meginkosningadegi. Ég spyr hvort nefndin hafi fjallað um þann möguleika til þess að binda hér meginreglu varðandi kjördaga. Við skulum nú ætla að þingrof verði ekki reglan þó að enginn viti um það hvernig á því valdi verður haldið í framtíðinni.
    Af hverju eru menn að tala um þetta? spyrja menn kannski. Það er vegna þess, eins og kom fram hjá hv. frsm. nefndarinnar hér áðan, að það eru ekki sömu aðstæður á landinu til þess að starfa að félagsmálum og málefnum sem tengjast þingkosningum og undirbúningi þeirra. Menn búa þar við misjafnar aðstæður hvað varðar samgöngur og snjóþyngsli. Það er ekki bara einhver fyrirsláttur landsbyggðarþingmanna að norðan, austan eða af Vestfjörðum að þetta er mælt, þetta er veruleg hindrun fyrir eðlilegum undirbúningi og eðlilegu kosningastarfi og þar með eru það kjósendurnir sem eru fyrst og fremst þolendur að þessu sem þátttakendur í því lýðræðislega ferli sem þingkosningar eru. Það skiptir máli að jafnaði, eins og veðri er háttað á Íslandi, hvort kosið er í apríl eða í maí og munar þar um hverja viku. Þess vegna held ég að menn ættu að koma sér niður á það a.m.k. núna innan meginramma þessa frv., vilji menn ekki breyta meira í það horf sem ég hef hér verið að benda á, t.d. með því að stytta kjörtímabil verði þingrof, að stíga nú það skref að ákvarða kjördaginn á þeim degi sem menn komu sér niður á fyrir nokkrum árum eða öðrum degi í maímánuði sem kjördegi fyrir komandi alþingiskosningar.
    Virðulegur forseti. Það mætti margt fleira um þetta mál segja. Ég fagna því hins vegar að þetta frv. er hér fram komið og tel að þær breytingar sem þar er

verið að leggja til lofi góðu, svona aðalbreytingarnar, þó ég geri hér mjög ákveðnar athugasemdir við þetta atriði er snertir ákvörðun kjördags og hefði vissulega viljað sjá ýmis atriði með öðrum hætti, m.a. afnám réttar til að setja bráðabirgðalög og að kjörtímabil væri fest fjögur ár og þingrofsréttur afnuminn, þá eru það mínar hugsanir og ekki tillögur sem samstaða er um hér á Alþingi nú, og því ætla ég ekki að fara fleiri orðum um þær, en vona að menn nái saman um afgreiðslu þessa máls nú á þinginu.