Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Aðeins nokkur orð. Ég vil lýsa stuðningi mínum við það sem hér hefur náðst samstaða um varðandi breytingar á stjórnarskipunarlögunum. Þó ég hefði viljað sjá þetta frv. öðruvísi þá finnst mér mikilvægt að það hafi náðst sú samstaða um þó þau atriði sem hér koma fram.
    Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram, og hef reyndar sagt áður, að ég tel mjög mikilvægt að ekki verði skert málfrelsi manna við það að Alþingi starfi í einni málstofu. Það er mjög mikilvægt og verður að taka það sérstaklega fyrir þegar þingsköp verða endurskoðuð. Það kemur auðvitað langverst niður á stjórnarandstöðu ef það verður gert. Það er oft eina tæki stjórnarandstöðunnar til að lýsa andstöðu sinni á málum að geta skýrt mál sitt hér óheft og þess vegna er mjög mikilvægt að málfrelsi verði ekki skert við endurskoðun þingskapa. Ég tel eðlilegt að til þess að afbrigði séu samþykkt hér þurfi aukinn meiri hluta en ekki einfaldan eins og nú er til þess að það sé ekki hægt að ganga yfir minni hlutann og keyra mál hér í hraðferð í gegnum þingið án þess að um það sé samstaða.
    Ég tel einnig mikilvægt, eins og fram kemur reyndar í greinargerð með frv., að mál séu tekin til nefndar milli umræðna þannig að meira ráðrúm gefist til skoðunar á málinu.
    Ég er mjög óánægð með það að ekki hafi náðst samstaða um að afnema algjörlega heimild ríkisstjórnarinnar til setningar bráðabirgðalaga. Ég vek athygli á því að þingkonur Kvennalistans fluttu hér í upphafi þingsins, það er 2. mál þessa þings, frv. sem gerði ráð fyrir afnámi heimildar ríkisstjórnarinnar til setningar bráðabirgðalaga og þykir mér mjög miður að ekki hafi náðst samstaða um að fella það ákvæði úr stjórnarskránni. Ég tel þó til bóta það sem náðst hefur samstaða um hér, að Alþingi muni sitja allt árið, og geri þar af leiðandi ráð fyrir að ekki þurfi lengur að nota þá heimild sem þó er eftir í stjórnarskránni um setningu bráðabirgðalaga, heldur muni Alþingi vera kallað saman þar sem ekkert á að vera því til fyrirstöðu með stuttum fyrirvara.
    Ég hefði einnig talið eðlilegt að það ákvæði hefði komið hér inn í að ráðherrar sitji ekki jafnframt sem þingmenn heldur að varamenn verði kallaðir inn ef þingmenn gerast ráðherrar. Um það hefur ekki orðið samstaða en mér hefði þótt eðlilegt að taka það skref einnig.
    Þó að ég hefði viljað sjá þetta frv. öðruvísi tel ég það þó skref í áttina og mun því styðja það.