Stjórnarskipunarlög
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Frsm. allshn. (Jón Kristjánsson) :
    Herra forseti. Ég þakka ágætar umræður um þetta mál og það nál. sem liggur fyrir. Það var beint til mín af hv. þm. a.m.k. tveimur spurningum sem ég vil leitast við að svara.
    Hv. 1. þm. Reykn. spurði eitthvað á þá leið hvort fjórða brtt. sem nefndin leggur til fæli það ekki í sér að það hefði verið rétt að kjósa 27. apríl í vor. Því er til að svara að það er ekki út af fyrir sig lagður neinn dómur á það heldur er þessi tillaga gerð til að taka af allan vafa. Ef þessi lög hefðu verið komin í gildi þá hefði ekki þurft að koma til þessara álitamála eða deilu og það hefði ekkert verið því til fyrirstöðu að kjósa 27. apríl þó að þingmenn hefðu þá verið umboðslausir í tvo daga eins og er nú raunin á. Brtt. er gerð til þess að taka af allan vafa um þetta.
    Hv. 2. þm. Austurl. ræddi hér um kjördag sem ég reyndar kom að lítillega í minni framsöguræðu. Ég ætla að geyma mér umræðu um það mál. Það liggur fyrir frv. um kjördag þar sem þessi mál verða tekin til nánari umræðu. Mín skoðun stendur óbreytt, eins og ég sagði í framsöguræðunni, að ég tel að það sé hentugast að kjósa síðar á vorin heldur en raun verður á núna. En ég ætla ekki að orðlengja það frekar né taka upp umræður um kjördag við þessa umræðu.
    Ég gat þess í framsöguræðunni að frv. hefði verið meðhöndlað á þann hátt í nefndinni með tilliti til þess að þarna er um samkomulagsmál að ræða og nefndin tók mið af því að taka þau mál inn sem samkomulag væri um og það var samkomulag um útgáfu bráðabirgðalaga og ákveðin niðurstaða í þeim efnum sem nefndin hróflaði ekki við nema frestinum sem er til þess að afgreiða þau þegar þing kemur saman.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. beindi til mín spurningu varðandi mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og bréf umboðsmanns Alþingis. Það varð ekki úr að nefndin tæki þessi mál fyrir af ástæðum sem ég hef þegar rakið, það var ekki samkomulag um að taka fleiri atriði inn í þessar stjórnarskrárbreytingar. Ég reyndi að ná til umboðsmanns Alþingis varðandi þessi mál. Ég náði ekki til hans vegna þess að hann er ekki á landinu um þessar mundir. Hins vegar vil ég geta þess að það eru vandkvæði á því að umboðsmaður Alþingis láti þingnefndum í té álitsgerðir. Það hefur þó líklega átt sér stað í einu tilfelli í Ed. þar sem málið snerti lög um stjórnsýsluna sem varðar hans starfssvið. En það mál sem hv. 6. þm. Norðurl. e. flutti er enn þá til meðferðar í allshn. Nefndin hefur ekki lokið um það umræðu eða tekið endanlega ákvörðun um afgreiðslu þess, en það var ákveðið að taka það ekki efnislega með í umræðuna um þetta mál sem snertir nær eingöngu starfsemi þingsins og þingkosningar.
    Ég vona að ég hafi svarað því sem fram hefur komið við umræðuna og þakka aftur fyrir góðar undirtektir og málefnalegar umræður um þetta mikilvæga mál.