Einkaleyfi
Miðvikudaginn 13. febrúar 1991


     Sólveig Pétursdóttir :
    Hæstv. forseti. Mig langar til þess að gera stuttlega grein fyrir því, þar sem ég átti sæti í hv. iðnn. sem er að mæla fyrir þessu nál., að það álitaefni kom upp í þessu máli hvort ætti til að koma breyting á 75. gr. þessa frv. í sambandi við svonefndan aðlögunartíma. En í 2. mgr. segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Ekki er hægt að veita einkaleyfi fyrir læknislyfjum fyrr en fimm árum eftir gildistöku laga þessara. Einkaleyfi má þó veita fyrir sérstakri aðferð við tilreiðslu slíkra efna.``
    Það komu athugasemdir varðandi þennan árafjölda, fimm ár, frá ýmsum fulltrúum heildsala sem vildu stytta þennan tíma eða jafnvel fella þetta ákvæði út úr frv. Nefndin fékk hins vegar fulltrúa frá Félagi ísl. iðnrekenda og þeirra fyrirtækja sem stunda framleiðslu læknislyfja og enn fremur þykir mér rétt að benda athugasemdir frá Félagi ísl. iðnrekenda á á bls. 109 í fskj. með frv., en þar segir m.a.:
    ,,Ljóst er að aðlögunartími á hinum Norðurlöndunum hefur verið fimm til tíu ár.`` Þarna er verið að ræða um gildistöku laganna hvað varðar einkaleyfi á læknislyfjum. ,,Þetta hefur verið ákveðið þrátt fyrir að í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi sé öflugur lyfjaiðnaður sem hefur bolmagn til nýþróunar lyfja. Þessi iðnaður hefur vaxið upp á löngum tíma og hefur náð að dafna í skjóli velvilja heilbrigðisyfirvalda í þessum löndum og að nokkru leyti í skjóli ófullkominnar einkaleyfalöggjafar á tiltölulega litlum mörkuðum.
    Íslenskur lyfjaiðnaður er ung grein sem hefur verið að skjóta rótum á síðustu árum. Þrátt fyrir að iðnaðurinn hafi náð nokkurri fótfestu á markaðnum er það allt að því óhugsandi að hann geti stundað nýþróun lyfja þar eð kostnaður sem því er samfara er afar hár.`` Íslenskur lyfjaiðnaður getur því einungis framleitt svokölluð samheitalyf, þ.e. lyf sem upphaflega hafa verið þróuð og markaðssett erlendis. Engu að síður kemur fram í þessum athugasemdum að það sé rétt að veita þennan aðlögunartíma, fimm ár, og segir í lok bréfsins:
    ,,Í ljósi ofangreindra atriða telur Félag ísl. iðnrekenda eðlilegt og mjög mikilvægt fyrir íslenskan lyfjaiðnað að hann fái sanngjarnan aðlögunartíma líkt og hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa haft, þar sem markaðsöflun fyrir lyf erlendis er afar tímafrek og kostnaðarsöm.``
    Það kom enn fremur fram hjá þeim fulltrúum sem mættu á fund nefndarinnar að þessi framleiðsla hentaði einkum vel fyrir fámennar þjóðir og var sérstaklega bent á Dani í því sambandi sem hafa náð mjög langt á þessu sviði og hafi á síðasta ári, ef ég man rétt, flutt út lyf fyrir um það bil 60 milljarða. Nefndarmönnum þótti því rétt að fallast á þau sjónarmið að veita þennan aðlögunartíma, þ.e. þau fimm ár sem 75. gr. gerir ráð fyrir.
    Ég vildi einungis koma þessum athugasemdum hér að, virðulegi forseti.