Vökulög
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hafa vakið athygli á þessu sérstaka máli, en ég tel ástæðu til þess að vekja líka athygli á því að þau lög sem hér er verið að fjalla um að brotin séu voru ekki brotin í áratugi. Staðið var við þau sem sjálfsagðan hlut um borð í íslenskum fiskiskipum þar til að núverandi fiskveiðistefna var upp tekin og sú þróun átti sér stað að meira og meira af vinnu, sem framkvæmd hefur verið í landi, var flutt út á sjó. Það er það sem hefur orðið þess valdandi að um borð í frystitogurum, þeim skipum sem fyrst og fremst stefna að því að ná sem mestu verðmæti út úr þeim afla sem þau mega draga að landi, hefur þeim verið beitt á þann hátt sem hv. fyrirspyrjandi var að upplýsa. Þeim hefur verið beitt á þann hátt að reyna að ná út úr vinnu skipshafnarinnar sem mestu, það er beinlínis hægt að segja það á þann veg. En því miður, þetta er ein af afleiðingum þeirrar fiskveiðistefnu sem við búum við og þeirrar þróunar að meira og meira af þeirri atvinnu sem í landi á að vera og á að vinnast hefur flust út á sjó.