Raðsmíðaskip
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil aðeins minna á það að þegar þessi skip voru seld á sínum tíma þá var mikil eftirspurn eftir þeim. Það virtist gæta mikillar bjartsýni hjá þeim sem þau vildu kaupa. Þau voru ekki boðin sérstaklega velkomin inn í veiðarnar af þeirri einföldu ástæðu að þar var nóg af skipum fyrir. Hins vegar var fallist á það hér á Alþingi til að miðla málum eins og oft áður að þessi skip fengju veiðiheimildir. Ég hefði gjarnan kosið að önnur skip sem fyrir voru í flotanum hefðu þær. En Íslendingar hafa verið allsmíðaglaðir að því er varðar fiskiskip og því oft komist í vanda af þeim sökum.
    Að sjálfsögðu þarf að ganga frá málum að því er varðar þessi skip en ég vil þó minna á eitt sem virðist benda til þess að einhver rekstrargrundvöllur sé fyrir viðkomandi skip. Ég sá ekki betur í blöðunum en það væri verið að selja hlutabréf í því félagi sem á eitt af þessum skipum á allháu verði af Akureyrarbæ. Það bendir til þess fyrst hlutafé í viðkomandi fyrirtæki hefur eitthvert virði að það muni vera rekstrargrundvöllur fyrir útgerðinni, sem betur fer.