Fræðsla fyrir útlendinga
Fimmtudaginn 14. febrúar 1991


     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Á síðasta þingi fluttu þingkonur Kvennalistans till. til þál. um skipulagða leiðsögn og fræðslu fyrir útlendinga sem taka sér búsetu hér á landi. Skyldi tillagan einkum ná til kennslu í íslensku, fræðslu um íslenska þjóðfélagið og stofnanir þess, fræðslu um réttindi og skyldur þegna í þjóðfélaginu, svo og fræðslu um sögu landsins, staðhætti, íslenska menningu og þjóðlíf. Þar eð verið var að vinna að þessum málum í samstarfi þriggja ráðuneyta sl. vor var tillögunni vísað til ríkisstjórnarinnar með ítarlegu nefndaráliti þar sem tíunduð var nauðsyn þess að stunda skipulega fræðslu fyrir þann hóp útlendinga sem hér hefur fasta búsetu. Þeir sem hingað koma í skipulögðum hópum, t.d. flóttamenn, hafa notið kennslu og fræðslu sem Rauði kross Íslands hefur séð um, en það á eingöngu við þá sem koma hingað með skipulegum hætti.
    Það er ljóst að á Íslandi býr nú fólk frá öllum heimsálfum og hefur það örugglega orðið til þess að auðga hjá okkur mannlífið og menninguna. Það er hins vegar ekki auðvelt að gera sér grein fyrir stærð hópsins. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni munu um 5000 erlendir ríkisborgarar búsettir hér þegar frá eru taldir starfsmenn erlendra sendiráða og þegnar á vegum Bandaríkjahers, en samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar munu búsettir hér á landi 10.000 manns sem fæddir eru erlendis. Margir þeirra eru orðnir íslenskir ríkisborgarar og hefðu e.t.v. þurft á slíkri fræðslu að halda einhvern tíma en eru sennilega flestir hverjir búnir að aðlagast íslenska þjóðfélaginu.
    Margir þeir sem hér búa koma úr samfélögum sem eru mjög ólík því íslenska, ekki síst fólk frá Austurlöndum þar sem skipan samfélagsins er með allt öðrum hætti en hér. Ég hef leyft mér á þskj. 551 að beina fsp. í tveimur liðum til hæstv. menntmrh. um fræðslu fyrir útlendinga. Þar er í fyrsta lagi spurt hvernig staðið sé að kennslu í íslensku fyrir útlendinga og fræðslu um réttindi og skyldur og sömuleiðis með hvaða hætti sé tryggt að útlendingar sem hér taka sér búsetu fái upplýsingar um þá fræðslu sem til boða stendur.